Skip to main content
12. júní 2023

Stafrænt námsferilsyfirlit með brautskráningu á Ísland.is

Stafrænt námsferilsyfirlit með brautskráningu á Ísland.is - á vefsíðu Háskóla Íslands

Brautskráðir nemendur frá Háskóla Íslands geta nú nálgast bæði upplýsingar um brautskráningar sínar og staðfest námsferilsyfirlit með rafrænu innsigli inni á Ísland.is.

Hingað til hafa brautskráðir nemendur getað sótt staðfest námsyfirlit sín á þjónustuborð HÍ á Háskólatorgi en með þessari nýju þjónustu er ætlunin að spara fólki sporin. 

Á Mínum síðum Ísland.is, undir flokknum Menntun, geta brautskráðir nemendur Háskóla Íslands nú skoðað dagsetningu brautskráningar, námsleið, deild, fræðasvið og prófgráðu eða annað lokapróf eftir því sem við á.

Einnig geta brautskráðir frá skólanum frá og með árinu 2015 sótt sér námsferilsyfirlit þar sem fram kemur m.a. hvaða námsleið og námskeiðum nemandi hefur lokið ásamt meðaleinkunn og heildarfjölda eininga. Námsferilsyfirlitin eru með rafrænu innsigli og þar með staðfest afrit, en ýmsir aðilar krefjast slíkrar upprunavottunar, t.d. í tengslum við starfs- eða námsumsóknir.

Brautskráður nemandi getur því nú afhent staðfest námsferilsyfirlit til þeirra sem þess óska með einföldum stafrænum hætti, t.d. tölvupósti. Sérstök athygli er vakin á því að yfirlitið telst ekki lengur upprunavottað ef það er prentað út.

Nánar í upplýsingar má finna á Ísland.is

Brautskráningarskírteini