Standa að nákvæmustu sýnatöku í setlögum stöðuvatna sem gerð hefur verið
Alls hafa verið tekin sýni úr setlögum 52 vatna á Íslandi undanfarna mánuði og misseri en sýnatakan er liður í rannsóknum á vegum Rannsóknaseturs Margrétar II Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um haf, loftslag og samfélag (ROCS). „Þetta er nákvæmasta kerfisskráning vatna sem farið hefur fram og mun gefa innsýn í mikilvæga sögu vistkerfa,“ segir Wesley Randall Farnsworth, nýdoktor við Rannsóknaseturs Margrétar II Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um haf, loftslag og samfélag (ROCS), sem hefur staðið að rannsóknunum.
Farnsworth er meðal þeirra sem tekið hefur þátt í fundi rannsakenda innan ROCS sem fer fram hér á landi þessa viku. Rannsóknasetrið stendur jafnframt fyrir opnu málþingi í Veröld – húsi Vigdísar á morgun föstudag kl. 12 þar sem fjallað verður um nánar starfið innan setursins og tækifæri til samstarfs við aðrar stofnanir hér á landi. Málþingið er öllum opið.
Kortleggja heil vistkerfi og áhrif mannsins á þau
Rannsóknasetrið um haf, loftslag og samfélag (ROCS) var stofnað af Carlsbergsjóðnum í samvinnu við íslensk stjórnvöld í tilefni áttræðisafmælis Margrétar II Danadrottningar og níræðisafmælis Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, vorið 2020. Setrið er þverfaglegt og er því ætlað að auka skilning á samspili loftslagsbreytinga og vistkerfa hafsins og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag og menningu.
ROCS tilheyrir bæði Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands og Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, stýrir því í samvinnu við danska og íslenska vísindamenn. Á vegum setursins starfa nú sex nýdoktorar, bæði á sviði hug- og félagsvísinda og náttúruvísinda auk fjölda vísindamanna frá Háskólanum í Kaupmannahöfn, Háskóla Íslands og rannsóknarstofnunum bæði í Danmörku og á Íslandi.
Meginverkefni ROCS-setursins er að kortleggja heil vistkerfi og skoða hvernig þau taka breytingum í samhengi við breytingar á loftslagi. Þungamiðja rannsóknanna við ROCS hefur verið í hafinu umhverfis Ísland og hafa vísindamenn m.a. farið í rannsóknaleiðranga með rannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar, Árna Friðrikssyni, til þess að safna sýnum úr setlögum á hafsbotni úti fyrir Íslandsströndum. Með nýrri tækni geta þeir lesið í veðurfarssögu og aflað ýmiss konar upplýsinga um lífríki hafs og stranda í fortíðinni með því að greina fornt DNA (eDNA) úr sýnunum. Fyrstu niðurstöður þessara rannsókna birtust fyrr á þessu ári en þær benda m.a. til þess að setlögin séu allt að 40 þúsund ára gömul.
Saga jarðarinnar byggist á gagnvirku sambandi jarðhvolfs og lífhvolfs. „Síðar í sögunni varð mannfólkið að jarðfræðilegu afli: mannhvolfinu,“ segir Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og stjórnandi ROCS. „Verkefni ROCS snýr að mótum þessara þriggja hvolfa. Fram að þessu höfum við unnið hvert í okkar afmarkaða heimi rannsókna. En það er ekki hægt að skilja hvernig hlutir ganga fyrir sig fyrr án þess að skilja sambandið á milli þeirra.“
Á mótum jarðhvolfs, lífhvolfs og mannhvolfs
Á fundi ROCS, sem farið hefur fram í Reykholti undanfarna daga, deildu þátttakendur niðurstöðum rannsókna sinna með samstarfsfólki ásamt því að leggja línurnar fyrir rannsóknarverkefnin sem fram undan eru. Á fundinum var grunnur lagður að enn nánara þverfræðilegu samstarfi vísindamanna innan náttúru- og hugvísinda og haf- og jarðfræða.
„Ef allir eru uppteknir af því að hugsa um loftslag þá gleymum við að það sem gerir þetta að plánetu er líf,“ segir Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og stjórnandi ROCS. Hún segir að verkefni setursins snúi fyrst og fremst að því að skapa skilning á gangverki plánetunnar. Saga jarðarinnar byggist á gagnvirku sambandi jarðhvolfs og lífhvolfs. „Síðar í sögunni varð mannfólkið að jarðfræðilegu afli: mannhvolfinu,“ segir hún. „Verkefni ROCS snýr að mótum þessara þriggja hvolfa. Fram að þessu höfum við unnið hvert í okkar afmarkaða heimi rannsókna. En það er ekki hægt að skilja hvernig hlutir ganga fyrir sig fyrr án þess að skilja sambandið á milli þeirra.“
ROCS stendur á morgun, föstudag, fyrir opnu málþingi í Auðarsal í Veröld frá kl. 12-14. Þar verða m.a. kynntar helstu niðurstöður þeirra rannsókna sem farið hafa fram innan setursins og fulltrúar samstarfsstofnana, eins og Hafrannsóknastofnunar og Náttúruminjasafns Íslands, ræða ávinninginn af samstarfi við ROCS.
Málþingið er öllum opið sem fyrr segir og hægt er að kynna sér dagskrá þess á vef HÍ.