STEAM-námsvistkerfi um allt land
Háskóli Íslands og STEM Ísland undirrituðu samning á dögunum þess efnis að bindast böndum um eflingu raun- og tæknigreinamenntunar með uppbyggingu á samfélagslegum STEM- og STEAM-námsvistkerfum (e. STEM Learning Ecosystems) um allt land. Bakhjarlar verkefnisins eru Menntavísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið HÍ. Nýmennt við Menntavísindasvið fer með framkvæmd samningsins.
STEM Ísland hefur verið leiðandi í að innleiða slík námsvistkerfi sem byggjast á módeli sem reynst hefur vel á alþjóðlegum vettvangi. STEM Ísland er regnhlífarstofnun fyrir námsvistkerfi sem hefur það hlutverk að efla áhuga barna og ungmenna á vísindum og STEAM-menntun. STEAM er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir fræðagreinar á sviði verkfræði, stærðfræði, raunvísinda og náttúruvísinda auk lista og skapandi greina, en einnig talað um STEM sem vísar fyrst og fremst til raun- og tæknigreina.
Markmið samstarfs HÍ og STEM Ísland er að koma á fót STEM/STEAM-námsvistkerfum hér á landi og styðjast við STEM Learning Ecosystems líkanið sem þróað var af TIES (Teaching Institute for Excellence in STEM) í Bandaríkjunum. Námsvistkerfi er net ólíkra hagaðila í samfélagi sem vinnur markvisst að eflingu STEM/STEAM-menntunar innan skóla, á vettvangi óformlegs náms og atvinnulífs. Markmið með uppbyggingu námsvistkerfanna er að efla STEM/STEAM-færni á landsvísu, allt frá leikskóla og til vinnumarkaðar.
„Háskóli Íslands mun taka þátt í að kynna STEM Ísland, hýsa heimasíðu verkefnisins, skipuleggja fræðslu og námskeið á sviðið raun- og tæknigreinamenntunar sem verður meðal annars miðlað í gegnum námsvistkerfin,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs. „Samvinna við STEM Ísland mun styrkja samstarf háskólans við skólasamfélagið á landsbyggðinni. Við verðum að gera meira af því að vinna með grasrótinni og tengjast því fjölbreytta skóla- og frístundastarfi sem á sér stað í sveitarfélögum landsins,“ segir Kolbrún enn fremur um samninginn.
„Það er ánægjulegt að finna áhuga ungmenna á STEM-greinum. Það er svo mikilvægt að nemendur fái að kynnast þessum greinum frá unga aldri svo þau geti þroskað með sér áhugann og getuna í gegnum skólakerfið,“ Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.