Stefna ótrauðar á markað með skyrflögur sem urðu til í HÍ
Tveir útskrifaðir nemendur í matvælafræði frá Háskóla Íslands, þær Aníta Þórunn Þráinsdóttir og Guðrún Alfa Einarsdóttir, stefna ótrauðar á markað með skyrflögur sem þær þróuðu upphaflega í námskeiði í skólanum. Þær vinna nú að frekari þróun vörunnar hjá matvælarisanum Nestlé í Sviss eftir frábært gengi í ýmsum nýsköpunarkeppnum á síðustu misserum. Þær stöllur segja vöruna byltingu í mjólkuriðnaði sem muni um leið draga úr matarsóun.
Varan ber nafnið Frosti Skyr og er þurrkað skyr sem getur verið geymt um árabil án nokkurra rotvarnarefna. „Skyrflögunum er blandað út í vatn og hrært saman og þá fær fólk skyr með nákvæmlega sömu áferð og áður, með sama næringargildi, lykt og allri upplifun. Okkur fannst tímabært að nútímavæða þessa rótgrónu vöru sem skyrið er og auka möguleika þess,“ segir Guðrún um vöruna og bætir við að einnig sé hægt að bæta flögunum í þeytinga.
Hugmyndin að Frosta kviknaði í námskeiðinu „Vöruþróun matvæla“ í Háskóla Íslands en þær stöllur, Aníta og Guðrún, unnu svo áfram að henni í námskeiðinu „Vistvæn nýsköpun matvæla við Háskóla Íslands“ og sem sumarverkefni með stuðningi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Glæsilegur árangur í nýsköpunarkeppnum
Veturinn 2020-2021 reyndist þeim stöllum heldur betur happadrjúgur því hugmyndin sópaði að sér verðlaunum og viðurkenningum í nýsköpunarkeppnum og -hröðlum. Þannig hlaut Frosti Skyr þriðju verðlaun í hinni árlegu frumkvöðlakeppni Gullegginu á vegum Icelandic Startups og þá urðu þær Guðrún Alfa og Aníta Þórunn einnig í þriðja sæti með vöruna í evrópskri samkeppni um vistvæna nýsköpun matvæla sem nefnist Ecotrophelia Europe, nokkurs konar Eurovision matvælanna.
Frosti Skyr varð enn fremur í öðru sæti í nýsköpunarhraðlinum Academy for Women Entrepreneurs (AWE) sem Háskóli Íslands stóð fyrir í fyrsta sinn hér á landi í upphafi árs í samstarfi við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Markmið hraðalsins er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. „Að okkar mati er mikilvægt að það séu í boði hraðlar sem fólk getur tekið þátt í og sótt sér betri þekkingu og stækkað tenglsanetið. Það heldur manni við efnið og fær mann oft til þess að hugsa út í aðra hluti sem maður hefði kannski ekki áttað sig á sjálfur. Við til að mynda stækkuðum okkar tengslanet í gegnum AWE-hraðalinn,“ segir Aníta sem leggur stund á meistaranám í nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands.
Aníta Þórunn Þráinsdóttir og Guðrún Alfa Einarsdóttir eru staddar í Sviss þessa mánuðina. Aðspurðar um framtíðaráformin með Frosta Skyr segjast þær stöllur hafa endalausan eldmóð og trú á verkefninu sem hafi skilað þeim langt. „Þessi vegferð okkar hefur ekki verið áfallalaus en okkur hefur alltaf tekist að draga lærdóm af öllum hindrunum og leiðin liggur bara fram á við,“ segir Aníta.
Varan á markað í Evrópu á næsta ári
Þær stöllur hafa nýtt þennan mikla meðbyr til að þróa vöruna áfram. Síðustu mánuði hafa þær dvalið í Sviss þar sem þær nýta aðstöðu hjá matvælarisanum Nestlé sem er einn af bakhjörlum Ecotrophelia-keppninnar.
„Við vorum komnar með góða prótótýpu áður svo við byggjum á henni og byrjuðum því ekki á byrjunarreit við vöruþróunina. Nestlé er okkur því meira innan handar við áframhaldandi þróun. Í stuttu máli þá felst vöruþróunin með þeim í því að þróa söluhæfa vöru á sex mánuðum. Það er mikil áskorun en á sama tíma ótrúlega spennandi,“ segir Guðrún.
Skyr þarf ekki að kynna fyrir Íslendingum enda hafa þeir hámað það í sig um aldir. Þessi holla vara hefur notið vaxandi vinsælda utan lands á undanförnum árum og er nú seld víða um heim. Vara þeirra Anítu og Guðrúnar er hins vegar gjörólík því hefðbundna skyri sem finna má í verslunum í Evrópu og Bandaríkjunum. „Að okkar mati er Frosti Skyr algjör bylting í mjólkuriðnaðinum. Varan er bráðholl og á sama tíma dregur verulega úr matarsóun og umbúðum og það verður spennandi að sjá hvernig fólk tekur henni,“ segir Aníta.
Þær vinkonur stefna á að setja vöruna á markað í byrjun næsta árs í Evrópu. „Varan verður í sölu þar í nokkrar vikur til að byrja með, en að svo stöddu getum ekki gefið upp nákvæmlega hvar hún verður seld,“ segir Guðrún.
Aðspurðar um framtíðaráformin með Frosta Skyr segjast þær stöllur hafa endalausan eldmóð og trú á verkefninu sem hafi skilað þeim langt. „Þessi vegferð okkar hefur ekki verið áfallalaus en okkur hefur alltaf tekist að draga lærdóm af öllum hindrunum og leiðin liggur bara fram á við,“ segir Aníta að endingu.
Hægt er að fylgjast með vegferð þeirra Anítu og Guðrúnar með Frosta Skyr á vef verkefnisins og Instagram-síðu vörunnar.
Við þetta má bæta að Háskóli Íslands stendur aftur fyrir AWE-hraðlinum í samstarfi við sendiráð Bandaríkjanna á nýju ár. Kynningarfundur fyrir áhugasama þátttakendur verður haldinn 30. desember 2021 kl. 12:00 í netstreymi. Hægt er að kynna sér hraðalinn og skrá sig á kynningarfundinn á vef AWE.