Stór hópur á leið í sumarnám og -rannsóknir í Bandaríkjunum
Þrettán nemendur í grunnnámi við Háskóla Íslands halda í sumar til Bandaríkjanna þar sem þau munu stunda nám og vinna að rannsóknaverkefnum við þrjá af fremstu háskólum heims, Caltech, Stanford og Columbia, á grundvelli samstarfssamninga þeirra við HÍ.
Háskóli Íslands hefur átt í samstarfi við þessa þrjá háskóla um árabil en undanfarin tvö sumur hafa nemendur ekki farið utan vegna kórónuveirufaraldursins. Það er mikið gleðiefni að geta boðið nemum við Háskóla Íslands að halda til náms við þessa virtu skóla á ný og í heimsóknum nemendanna á rektorsskrifstofu síðustu vikur hefur spennan og áhuginn fyrir verkefnum sumarsins ekki leynt sér.
Sjö nemendur fara frá Háskóla Íslands til Stanford-háskóla í Kaliforníu í sumar, í svokallað International Honors Program. Þetta eru þau:
- Ásthildur Gyða Garðarsdóttir, nemi heimspeki
- Elín Halla Kjartansdóttir, nemi í hagfræði
- Elínborg Ása Ásbergsdóttir, nemi í iðnaðarverkfræði
- Hildur Theodóra Viðarsdóttir, nemi í hagfræði
- Magnús Símonarson, nemi í hagfræði
- Nadja Oliversdóttir, nemi í efnaverkfræði
- Steinunn Björg Böðvarsdóttir, nemi í iðnaðarverkfræði
Þetta er í tíunda sinn sem nemendur frá Háskóla Íslands halda til sumarnáms við Stanford en það stendur í átta vikur. Sumarnámið við Stanford er í senn afar fjölbreytilegt og eftirsóknarvert fyrir nemendur Háskóla Íslands og gerir þeim kleift að kynnast einstöku háskóla- og vísindasamfélagi. Nemendurnir geta sótt um að fá námið metið inn í námsferil sinn við HÍ. Stanford-háskóli í Kaliforníu er einn fremsti háskóli heims og býður upp á nám á breiðu sviði.
Þrír nemendur halda utan til náms í Columbia-háskóla í New York í sumar en það eru þau:
- Hanna Margrét Jónsdóttir, nemi í vélaverkfræði
- Hilmir Örn Ólafsson, nemi í hagfræði
- Snærós Sindradóttir Bachmann, nemi í listfræði
Háskóli Íslands og Columbia hafa átt í samstarfi um sumarnám allt frá árinu 2015 en þar stendur val nemenda á milli tveggja sex vikna námslota. Nemendur geta sótt um að fá námið við Columbia metið til eininga í Háskóla Íslands en nemendur hafa jafnframt nýtt þetta einstaka tækifæri sem undirbúning fyrir framhaldsnám í Bandaríkjunum. Columbia-háskóli er í hópi Ivy League háskóla en það eru átta rótgrónir og virtir háskólar í Bandaríkjunum sem raða sér efst á lista yfir bestu skóla í heimi.
Við þetta má bæta að nemendur við HÍ geta einnig sótt um skiptinám við Columbia á haust- og vormisseri á grundvelli samstarfssamnings skólanna og mun Bjarki Sigurðarson, meistaranemi í stjórnun og stefnumótun, halda utan til Bandaríkjanna í haust.
Þrír nemendur Háskóla Íslands halda í sumarverkefni við California Institute of Technology – Caltech í Kaliforníu, þau:
- Brynja Marín Bjarnadóttir, nemi í vélaverkfræði
- Jón Kristinn Magnússon, nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði
- Þórhallur Auður Helgason, nemi í tölvunarfræði
Öll hljóta þau styrk að upphæð nærri 7.000 dollara úr sjóði sem kenndur er við Kyio og Eiko Tomiyasu. Kiyo Tomiyasu var heimskunnur vísindamaður á sviði rafmagnsverkfræði og lykilmaður í að koma á samstarfssamningi milli Caltech og Háskóla Íslands árið 2008. Kyio og kona hans, Eiko, reyndust íslenskum nemendum við Caltech einstaklega vel og veitir Háskóli Íslands því styrkina í þeirra nafni.
Þau Brynja, Jón og Þórhallur munu vinna tíu vikna rannsóknaverkefni við Caltech. Um er að ræða svokölluð SURF-verkefni eða Summer Undergraduate Research Fellowship sem snúast um rannsóknasamstarf á milli leiðbeinanda og nemanda í grunnnámi. Á fjórða tug nemenda við HÍ hefur unnið sumarverekfni við Caltech frá því að samningur var undirritaður og að sama skapi hefur fjöldi Caltech nemenda unnið SURF verkefni hér við Háskóla Íslands undir handleiðslu kennara skólans. Caltech-háskóli er einn allra fremsti rannsóknaháskóli heims og hefur margsinnis raðast í eitt af efstu sætunum á matslistum yfir bestu háskóla heims.
Myndir frá fundum þrettánmenninganna með rektor og fulltrúum Alþjóðasviðs HÍ má finna hér að neðan.