Styrkir til rannsókna í jarðfræði og efnafræði
Tveir styrkir hafa verið veittir úr Minningarsjóði Aðalsteins Kristjánssonar til rannsókna í raunvísindum. Styrkhafar eru Erna Ósk Arnardóttir, doktorsnemi í jarðfræði, og Mengxu Jiang, doktorsnemi í efnafræði. Heildarupphæð styrkja nemur 3 milljónum króna.
Tilgangur Minningarsjóðs Aðalsteins Kristjánssonar er að veita nemendum og/eða fræðimönnum við Háskóla Íslands styrki til rannsókna í raunvísindum.
Doktorsverkefni Ernu Óskar Arnardóttur fjallar um loftslagsbreytingar á síðari hluta ísaldar með áherslu á hafísþekju, hafstrauma og jöklabreytingar á norðurhveli síðustu 165 þúsund ár. Gögn sem nýtt eru í rannsókninni eru fengin úr borkjörnum úr djúpsjávarseti norðan og austan við Ísland. Í sjávarsetkjörnum varðveitast fjölmargar breytur sem notaðar eru til túlkunar á ástandi sjávar, svo sem hitastigi, seltu og lífrænni framleiðni. Tveir sjávarsetkjarnar eru rannsakaðir með það að markmiði að greina og telja hafísborin setkorn sem veita upplýsingar um t.d. flutningsleiðir borgarísjaka og lagnaðaríss, sem endurspeglar fornhafstrauma og hafísútbreiðslu. Einnig eru súrefnissamsætur, sem eru ólíkar gerðir sama frumefnis, mældar og svokallaðir svifgötungar taldir og greindir til tegunda en um er að ræða einfrumunga sem geta varpað ljósi á hitastig sjávar. Enn fremur eru frumefnagögn notuð til samanburðar á birtum niðurstöðum um loftslag. Sjávarsetkjarnarnir í rannsókninni spanna allt síðasta jökulskeið, lok þess og hlýskeiðið þar á undan. Niðurstöður sýna m.a. mikinn mun á ísbornu efni frá næstsíðasta jökulskeiði og síðasta jökulskeiði en jafnframt að ísborna efnið eigi uppruna sinn að mestu frá Grænlandi. Leiðbeinendur Ernu eru Esther Ruth Guðmundsdóttir prófessor, Jón Eiríksson, prófessor emerítus, og Ívar Örn Benediktsson, fræðimaður við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands.
Doktorsrannsókn Mengxu Jiangs ber vinnuheitið „Ljósrof sameinda og greining sameindabrota; Rydberg orkusviðið“. Verkefnið fjallar um rannsóknir á ferli rofnunar efna í sameindabrot og jónir og litrófsgreiningar á sameindabrotum með háorkuleisigeislun og massagreiningum. Verkefnið felur í sér þróun á mæli- og greiningartækni og öflun viðeigandi gagna um lífræn og svokölluð halogen-haldandi efni og sameindabrot af þeim. Niðurstöður tengjast rannsóknum á efnafræði andrúmsloftsins (t.d. eyðingu ósonlagsins og niðurbroti gróðurhúsalofttegunda af völdum sólargeislunar), efnaframleiðslu með ljósgeislun, tilurð lífrænna efna og mögulegs lífs í geimnum og svokallaðri plasmaefnafræði. Verkefnið er unnið í samvinnu við erlenda rannsóknarhópa sem fást við myndgreiningar á ljósrofi efna og jónun sameinda með hringhraðalgeislun. Aðalleiðbeinandi Jiangs er Ágúst Kvaran, prófessor í eðlisefnafræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.
Um sjóðinn
Minningasjóður Aðalsteins Kristjánssonar til eflingar náttúruvísindum og efnafræði var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1978 með dánargjöf Aðalsteins Kristjánssonar. Hann bjó lengstum í Winnipeg í Kanada og síðast í Puente í Los Angeles í Kaliforníu. Aðalsteinn lést hinn 14. júlí 1949.
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Sigurður S. Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, sem jafnframt er formaður stjórnar, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður við Jarðvísindastofnun, og Einar Örn Sveinbjörnsson, prófessor við Raunvísindadeild.
Minningasjóður Aðalsteins Kristjánssonar er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans.