Styrkir til verkefna sem styðja við íslenskunám fjöltyngdra leik- og grunnskólabarna
Fjögur verkefni hafa hlotið styrk úr Íslenskusjóðnum við Háskóla Íslands. Þetta er í fjórða sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og heildarupphæð styrkja nemur fjórum milljónum króna.Markmið Íslenskusjóðsins er að stuðla að því að íslenska verði áfram töluð á Íslandi og tilgangur hans að veita styrki til að efla vald á íslensku máli meðal barna og fullorðinna, einkum fjöltyngdra barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra. Sjóðurinn styrkir þróunarverkefni á leikskóla- og grunnskólastigi, námskeið, bókaútgáfu, t.d. fjölmálabóka, vefsíður, efni fyrir snjalltæki og annað sem álitlegt þykir til að ná markmiði sjóðsins.
Berglind E. Tryggvadóttir, myndlistarkona, rithöfundur og kennari, og Rúnar H. Vignisson, prófessor Íslensku- og menningardeild HÍ fengu styrk fyrir verkefnið „Íslenskan, allra mál“ en verkefnið snýr að því að auka íslenskuþekkingu foreldra af erlendum uppruna sem eiga börn í skólum á Íslandi. Lagt verður upp með að búa til fjölbreytt, aðgengilegt og áhugavert námsefni sem miðar að inngildingu í íslensku samfélagi. Námsefnið samanstendur af stuttum sögum sem endurspegla hversdagslíf skólabarna og foreldra þeirra á nokkrum erfiðleikastigum. Sögunum fylgja einnig æfingar sem þjálfa íslensku í ræðu og riti. Efnið verður prófað og sannreynt í samstarfi við Stóru-Vogaskóla.
Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir, aðjunkt við Íslensku- og menningardeild HÍ og verkefnisstjóri Íslenskuþorpsins, hlaut styrk fyrir verkefnið „Íslenskuþorp fyrir foreldra leikskólabarna með ólíkan tungumála- og menningarbakgrunn“. Markmið verkefnisins er að þróa stuðningsríkt námsumhverfi innan leikskólasamfélagsins þar sem foreldrum með annan tungumála- og menningarbakgrunn er hjálpað við að auka hæfni sína til að taka þátt í samskiptum á íslensku. Verkefninu er ætlað að fanga betur tækifæri hversdagslegra samskipta til náms í öðru máli og með vitundarvakningu á að auka samlíðan með þeim sem eru að læra málið meðal starfsfólks leikskóla og allra foreldra.
Jóhanna Helgadóttir, deildarstjóri á Heilsuleikskólanum Heiðarseli, hlaut styrk fyrir verkefnið „Orðaforði spilastokkur“ sem gengur út að það að útbúa spilastokka með myndefni og orðum á íslensku sem byggjast á Orðaforðalista Menntamálastofnunar. Í leik- og vinnustundum á Heiðarseli með barnahópum af erlendum uppruna, þar sem grunur er um skort á málþroska og taugaþroskaröskun á borð við einhverfu, er unnið með og út frá orðunum í listanum. Myndefnið er nú þegar tilbúið til prentunar. Fram að þessu hefur mikill tími farið í að prenta út myndirnar og orðin, klippa þau til og plasta. Með styrknum verður hægt að prenta út spilastokka fyrir hverja deild, sérkennslu og foreldra/forráðamenn. Spilastokkurinn er aðgengilegt námstæki sem eykur orðaforða leikskólabarna. Með honum geta kennarar og foreldrar þjálfað orðaforða og átt samstarf um tileinkun orðaforða.
Þóra Másdóttir, dósent við námsleið í talmeinafræði á Heilbrigðisvísindasviði HÍ, hlaut styrk til verkefnisins „Orðheimurinn“ sem er gagnreynd málörvunar- og kennsluaðferð fyrir fjöltyngd 4-5 ára börn og hefur verið til rannsóknar í leikskólum á Íslandi. Aðferðafræði Orðaheimsins miðar að því að örva markvisst orðaforða- og tungumálafærni fjögurra ára barna sem tala fleiri en eitt tungumál og þurfa kerfisbundna kennslu í íslensku. Ætlunin er að þróa aðferðina enn frekar, m.a. að útbúa leiðbeiningatexta fyrir leikskólakennara og fræðsluefni og leiðbeiningar fyrir foreldra á nokkrum tungumálum. Enn fremur þarf að aðlaga málörvunarefni og bækur aðferðarinnar enn betur að þörfum fjöltyngdra barna í íslenskum leikskólum með hliðsjón að niðurstöðum undangenginna rannsókna. Vonir standa til að með aðferðum Orðaheimisins fái leikskólar og foreldrar aðgang að vel rannsakaðri og árangursríkri aðferð til að efla íslenskufærni fjöltyngdra barna.
Um sjóðinn
Íslenskusjóðinn stofnuðu Elsa Sigríður Jónsdóttir og Tómas Gunnarsson til minningar um foreldra þeirra, þau Sigríði S. Sigurðardóttur og Jón Sigurðsson og Björgu Tómasdóttur og Gunnar Guðmundsson.
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja Jóhanna Einarsdóttir, prófessor emerita, Menntavísindasviði sem jafnframt er formaður stjórnar, Renata Emilsson Pesková, lektor á Menntavísindasviði og Gísli Hvanndal Ólafsson, verkefnisstjóri á Hugvísindasviði.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.