Þjóðarspegillinn enn öflugri vettvangur samtals við samfélagið
Fjallað er um niðurstöður rannsókna sem snerta allt frá jafnlaunavottun, leigumarkaðinum, fiskveiðum og umhverfismálum til netglæpa, nýsköpunar fatlaðs fólks, þjóðhátta og utanríkismála á nýjum og breyttum Þjóðarspegli í Háskóla Íslands. Vefsíða Þjóðarspegilsins er nú orðin vettvangur samtals félagsvísinda við samfélagið allt árið um kring.
„Í stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er áhersla á aukinn sýnileika og virkara samtal fræðanna við samfélagið. Þessi áhersla var kveikjan að því að ráðast í það verkefni að vinna markvisst að því að auka sýnileika rannsókna í félagsvísindum og stuðla að enn virkari samvinnu við samfélagið,“ segir Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, um kveikjuna að þessum breytingum.
Þjóðarspegilinn ekki lengur bara ráðstefna
Ráðstefnan Þjóðarspegilinn, sem haldin hefur verið árlega í hátt í þrjá áratugi við Háskóla Íslands, ætti mörgum að vera vel kunn og að sögn Stefáns hefur hún ekki aðeins verið vettvangur fyrir fræðafólk að ræða hvert við annað heldur einnig svið fyrir virkt samtal félagsvísindanna við samfélagið utan veggja háskólanna. Með breytingunum nú vísi hugtakið Þjóðarspegillinn ekki lengur einvörðungu til ráðstefnunnar heldur til vettvangs fyrir samtal félagsvísinda við samfélagið allt árið um kring. „Ráðstefnan er hluti af Þjóðarspeglinum, sem í heild nær yfir umfangsmeiri miðlun og kynningu á rannsóknum félagsvísinda. Ný og breytt vefsíða er afrakstur vinnu í samræmi við þessa breyttu áherslu,“ segir Stefán.
Árangursríkar forvarnir kulnunar í starfi
Stefán bendir enn fremur á að sérfræðingar á Félagsvísindasviði hafa margir verið mjög virkir í öflugu samtali við samfélagið og sem dæmi má nefna líður varla sá dagur sem sérfræðingar sviðsins eru ekki kallaðir til af fjölmiðlum til að skýra eða leggja mat á vendingar í samfélaginu. „Fyrirkomulagið á þessu samtali hefur verið með ýmsum hætti og skipulagt af hverjum og einum. Vefsíðan www.thjodarspegillinn.hi.is kemur ekki í staðinn fyrir þessa góðu vinnu deildarfólks heldur er um að ræða viðbót eða formlega umgjörð til að koma upplýsingum um rannsóknarverkefni og niðurstöðum rannsókna á framfæri,“ segir Stefán.
Bætt aðgengi almennings að rannsóknum í félagsvísindum
Á vefnum nýja er nú þegar að finna 16 stutt myndbönd þar sem félagsvísindafólk við Háskóla Íslands ræðir rannsóknir sínar og hugðarefni. Þar má einnig finna fimm hlaðvarpsseríur á vegum fræðafólks við Félagsvísindasviðs. „Til þess að vera í raunverulegri samræðu við samfélagið þarf að nýta alla þá miðla sem hægt er. Hlaðvörp og myndbönd eru ólíkir miðlar sem miðla þekkingu á mismunandi hátt. Með því að útbúa stutt myndbönd er komið til móts við þarfir sem við finnum fyrir í samfélaginu. Myndböndin, sem eru meðal annars fyrir samfélagsmiðla, eru mjög knappt form sem er ætlað að kynna viðfangsefni félagsvísindanna fyrir fólki og vekja áhuga og forvitni,“ segir Stefán.
Reynsla Íslendinga af netglæpum
Hann bætir við að framsetning efnisins geri það auðvelt fyrir áhugasöm að nálgast nánari upplýsingar og kafa dýpra í hverja rannsókn fyrir sig. „Á síðu hverrar rannsóknar er tenging í upplýsingaþjónustuna Írisi þannig að auðvelt er að kynna sér svokallað fótspor rannsakanda. Þannig getur fólk fikrað sig áfram og kafað dýpra í ákveðin rannsóknarefni,“ útskýrir Stefán. Með þessu framtaki sé því í senn stutt við veglegri vísindamiðlun í félagsvísindum innan skólans og stuðlað að auðveldara aðgengi almennings að rannsóknarniðurstöðum og auknum skilning hans á fjölbreytileika og mikilvægi félagsvísinda.
„Kennsla og rannsóknir í félagsvísindum miða markvisst að því að auka gagnrýna hugsun, auka skilning á samhengi efnislegra og félagslegra fyrirbæra, virkni þeirra og uppbyggingu. Sem dæmi þá má nefna að skilningur á eðli stríðsins í Úkraínu er takmarkaður ef þekking er ekki sótt í smiðju félags- og hugvísinda, svo sem stjórnmálafræði, félagssálfræði, sagnfræði, menningarsögu, heimspeki og félagsfræði stríðs og átaka svo nokkur dæmi séu tekin,“ segir Stefán Hrafn Jónsson.
Félagsvísindin varpa ljósi í stríðið í Úkraínu og eðli þess
Spurður um þýðingu félagsvísindanna í samfélagi nútímans undirstrikar Stefán að fræðasviðið snerti með beinum hætti kviku samfélagsins. „Hvernig hefur samfélagið áhrif á hegðun fólks sem í því býr? Hvernig bregst fólk við breytingum og hvernig myndar það tengsl sín á milli? Þetta er meðal þeirra ótal spurninga sem rannsóknir í félagsvísindum fást við að svara. Viðfangsefnin eru fjölmörg: allt frá stjórnskipulagi og lögum til menningar, upplýsinga og fötlunar svo örfá dæmi séu tekin. Flestar eiga þessar rannsóknir beint og ekki síður brýnt erindi við íslenskt samfélag. Þegar við drögum fram nokkur mikilvæg viðfangsefni félagsvísinda þá opnast fyrir mörgum mikilvægi þeirra fjölmörgu fræðigreina sem flokkast sem félagsvísindi,“ bætir hann við.
Félagsvísindin auki skilning okkar og þekkingu á hegðun einstaklinga í samfélaginu og eðli og hlutverki stofnanna þess. „Aukin þekking á þessu sviði er grundvöllur til að bæta ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda, fyrirtækja, stofnana, félagasamtaka og ekki síður einstaklinga. Grundvöllur betra samfélags,“ segir Stefán enn fremur.
Stefán segir aðspurður að styrkur félagsvísinda felist í mörgum þáttum. „Hann felst m.a. í fjölbreyttum rannsóknaraðferðum og getunni til að sameina ólíkar rannsóknaraðferðir eftir aðstæðum hverju sinni. Kennsla og rannsóknir í félagsvísindum miða markvisst að því að auka gagnrýna hugsun, auka skilning á samhengi efnislegra og félagslegra fyrirbæra, virkni þeirra og uppbyggingu. Sem dæmi þá má nefna að skilningur á eðli stríðsins í Úkraínu er takmarkaður ef þekking er ekki sótt í smiðju félags- og hugvísinda, svo sem stjórnmálafræði, félagssálfræði, sagnfræði, menningarsögu, heimspeki og félagsfræði stríðs og átaka svo nokkur dæmi séu tekin.“
Kolefnislosun íslenska fiskiskipaflotans
Félagsvísindin lengi fengist við málefni heimsmarkmiða SÞ
Athygli vekur að nokkur verkefnanna sem kynnt eru á vef Þjóðarspegilsins eru unnin í samstarfi ólíkra fræðigreina, bæði innan og utan félagsvísindanna. Stefán bendir á að sífellt meiri áhersla sé lögð á þverfræðilegar rannsóknir, bæði við styrkveitingar innan og utan lands og sömuleiðis í starfi HÍ. „Á sama tíma og okkur ber að sýna ólíkum fræðigreinum virðingu, hvetja vísindafólk til dáða og styðja við fræðigreinarnar þá minnum við hvert annað reglulega á að veröldinni er ekki alltaf skipt upp í sömu einingar og deildir háskóla eða málaflokka ráðuneyta. Aukin áhersla á þverfræðilegar rannsóknir í styrkveitingum er fagnaðarefni. Ekki aðeins eru þverfræðilegar rannsóknir vænlegar til árangurs heldur munu þær auka samstarf þvert á deildir í mörgum háskólum sem og á milli háskóla. Félagsvísindin er öflugur vettvangur fyrir þverfræðilegt samstarf um viðfangsefni sem mörgum hverjum hefur verið sinnt í of mikilli einangrun í aðgreindum háskóladeildum,“ undirstrikar Stefán.
Samfélagsleg nýsköpun í velferðarþjónustu
Aukin áhersla er einnig í háskólasamfélögum víða um heim á framlag skólanna til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem snerta stærstu áskoranir mannkyns, m.a. aukinn jöfnuð, frið, sjálfbærni og umhverfismál. Stefán bendir á að margar greinar félagsvísinda hafi um áratugaskeið fjallað um þau málefni sem dregin eru saman í heimsmarkmiðunum. „Undanfarin ár hefur fræðafólk félagsvísinda í auknum mæli tengt umfjöllun og kynningu á rannsóknum sínum við heimsmarkmiðin. Á sama hátt má sjá aukna áherslu félagsvísindafólks að draga fram þátttöku sína undir merkjum félagslegrar nýsköpunar,“ segir hann en slík nýsköpun er einmitt meðal umfjöllunarefna í einum af nýju rannsóknamyndböndunum.
Aðspurður segir Stefán fleiri myndbönd í vinnslu á vegum sviðsins og muni birtast á næstu vikum. „Á vormánuðum verður staðan metin en ljóst er að síðan mun halda áfram að nýtast í miðlun rannsókna til almennings,“ segir Stefán að endingu.