Þörf á ítarlegra eftirliti með verkjum sjúklinga eftir opna hjartaaðgerð
Tæplega helmingur þeirra sjúklinga, sem gekkst undir opna hjartaaðgerð hér á landi á 13 ára tímabili, leysti út morfínskyld lyf eftir aðgerðina og af þeim hópi héldu 10% áfram að leysa slík lyf út í meira en þrjá mánuði eftir aðgerð. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við Háskóla Íslands, Landspítala og bandarískar vísindastofnanir. Greint er frá þeim í virtu alþjóðlegu vísindatímariti bandarískra hjarta- og lungnaskurðlækna, Annals of Thoracic Surgery.
Rannsóknin var unnin undir forystu Martins Inga Sigurðssonar, prófessors við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknis í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Landspítala, en fyrsti höfundur greinarinnar er Arnar Bragi Ingason, sérnámslæknir í skurðlækningum. Meðhöfundar voru Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á skurðlækningarsviði Landspítala, Arnar Geirsson, prófessor og yfirlæknir á hjartaskurðdeild Yale New Haven spítala, og Jochen D. Muehlschlegel, dósent í svæfingarlæknisfræði við Harvard-háskóla.
Í rannsókninni var lyfjanotkun íslenskra sjúklinga í kjölfar opinnar hjartaaðgerðar yfir 13 ára tímabil könnuð með tilliti til notkunar morfínskyldra lyfja í meira en 3 mánuði eftir aðgerð. Af þeim sjúklingum sem ekki höfðu verið á morfínskyldum lyfjum fyrir aðgerð útleystu 45% sjúklinga lyfseðla fyrir slíkum lyfjum eftir aðgerð. Af þeim hópi héldu 10% sjúklinga áfram að útleysa morfínskyld lyf í meira en 3 mánuði eftir aðgerð.
Sjúklingar sem notuðu verkjalyf óskyld morfíni fyrir aðgerð (t.d. bólgueyðandi gigtarlyf), æðavíkkandi lyf fyrir aðgerð og þeir sem höfðu langvinna lungnateppu voru líklegri til að nota morfínskyld lyf í langan tíma eftir hjartaaðgerð. Niðurstöðurnar eru nokkuð sambærilegar öðrum erlendum rannsóknum.
Rannsóknin styður ítarlegri eftirfylgd sjúklinga eftir útskrift með tilliti til verkjaástands og að sjúklingar fái aðstoð við niðurtröppun morfínskyldra lyfja í kjölfar hjartaskurðaðgerða. Stefnt er að því að kanna notkun morfínskyldra lyfja í langan tíma eftir aðrar tegundir skurðaðgerða í framhaldinu.