Þrjár einingar HÍ stíga Græn skref
Þrjár starfsstöðvar innan Háskóla Ísland stigu nýverið Græn skref sem miða m.a. að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi ríkisins. Jarðvísindastofnun HÍ og skrifstofustarfsemi Háskólatorgs luku við skref þrjú og sviðsskrifstofa Verkfræði- og náttúruvísindasviðs steig fyrstu tvö skrefin og bætist þar með í hóp þeirra starfsstöðva innan HÍ sem stíga skref í átt að umhverfisvænni rekstri.
Jarðvísindastofnun Háskólans hefur stigið þrjú Græn skref.
Í Háskóla Íslands er verið að innleiða svokölluð Græn skref í ríkisrekstri en samkvæmt loftslagsstefnu Stjórnarráðs Íslands ber öllum ríkisstofnunum að innleiða skrefin í sína starfsemi. Verkefnið snýst um að efla vistvænan rekstur með kerfisbundnum hætti. Það felur í sér mikinn ávinning og mun gera starf Háskólans markvissara í sjálfbærni- og umhverfismálum. Skrefin hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi skólans og draga úr rekstrarkostnaði.
Yfirlit yfir stöðu Grænna skrefa innan HÍ
Grænu skrefin ríma enn fremur einkar vel við stefnu Háskólans, HÍ26, en ein af fjórum lykiláherslum í starfi skólans er sjálfbærni og fjölbreytileiki. Í því felst m.a. að skólinn leggi með rannsóknum sitt af mörkum til lausna sem stuðla að sjálfbærum heimi, mennti nemendur til að takast á við samfélagslegar áskoranir og axli ábyrgð og taki markviss og afgerandi skref sem stuðla að bættu vinnuumhverfi og starfsháttum sem gera skólann að sjálfbærri stofnun.
Nánar má lesa um verkefnið á vef HÍ og á vefsíðu Grænu skrefanna. Áhugasöm um verkefnið eru hvött til að hafa samband í gegnum umhverfismal@hi.is