Skip to main content
17. febrúar 2021

Þrjár viðurkenningar í lyfjafræði til doktorsnema og nýdoktors

Þrjár viðurkenningar í lyfjafræði til doktorsnema og nýdoktors - á vefsíðu Háskóla Íslands

Helga Helgadóttir nýdoktor og doktorsnemarnir Manisha Prajapati og Vivien Nagy, sem allar starfa við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala við Háskóla Íslands. Rannsóknir þeirra ná yfir mjög breitt svið innan lyfjafræðinnar, allt frá klínískum rannsóknum til lyfjagerðarfræði og framleiðslutækni.

Þetta er í þrettánda sinn sem veittar eru viðurkenningar úr sjóðnum fyrir framúrskarandi rannsóknir í lyfjafræði og/eða lyfjavísindum. Heildarupphæð styrksins er 900.000 krónur en hver styrkhafi fær fyrir sig 300.000 krónur.

Helga Helgadóttir - Heiti doktorsverkefnis: Fyrirbyggjandi meðferð með aspiríni til að koma í veg fyrir meðgöngueitrun. Rannsóknir á verkunarmáta og þróun aðferða til notkunar í klínískum prófunum.

Um verkefnið: Aspirín er notað sem fyrirbyggjandi meðferð gegn hjarta- og æðasjúkdómum og einnig í meðgöngueitrun (ME). Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir er verkunarmáti aspiríns í ME óþekktur. Markmið verkefnisins var tvíþætt. Annars vegar var kannað hvort hægt væri að útskýra verkunarmáta aspiríns og þá hvernig það getur verndað konur gegn ME. Það var gert með því að skoða æðavíkkandi áhrif lyfsins. Hins vegar snerist verkefnið um að þróa aðferðir sem nýta má fyrir klínísk próf með aspiríni. Það var gert með því að kanna stöðugleika þromboxan-blóðstrokuþátta í blóðsýnum eftir sýnatöku.

Helga lauk doktorsprófi frá Lyfjafræðideild Háskóla Íslands í október 2020 og er nú nýdoktor við deildina. 

Manisha Prajapati – Heiti doktorsverkefnis: Nanólyfjaferjur augnlyfja.

Um verkefnið: Við vissar aðstæður hópa sýklódextrín fléttur sig saman og mynda nanóagnir (nanóferjur) með þvermál á bilinu 20 til 1000 nm. Sjúkdómar í sjónhimnu eru ein helsta ástæða blindu. Mjög erfitt er að koma lyfjum frá yfirborði augans til sjónhimnu. Markmið verkefnisins er að mynda nanóferjur sem innihalda vatnsleysanlegar fléttur lyfja og sýklódextrína, sem eru hringlaga fásykrungar, sem kæmust að sjónhimnu. Verkefnið felst í rannsóknum á leysanleika og stöðugleika lyfja í vatnslausnum (augndropum) og rannsóknum á áhrifum sýklódextrína á sjónhimnu augans. 

Manisha lauk BS-prófi í lyfjafræði frá Kathmandu University í Nepal vorið 2013 og MS-prófi í lyfjavísindum frá Kaupmannahafnarháskóla vorið 2017. Hún hóf doktorsnám í lyfjafræði vorið 2018.

Vivien Nagy – Heiti doktorsverkefnis: Framleiðslutækni fyrir kítósan nanókonjúgöt

Um verkefnið: Kítósan er lífvirk fjölliða sem er unnin úr rækjuskel. Í verkefninu er ætlunin að þróa umhverfisvænar, öruggar og hagkvæmar framleiðsluaðferðir fyrir hágæða kítósankonjúgöt sem ætlunin er að nota til að örva vefjaendurmyndun og verjast sýkingum. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að þróa síflæðiframleiðsluaðferðir sem verður auðvelt að aðlaga frá tilraunastofuframleiðslu yfir í verksmiðjuframleiðslu. Hentugar efnagreiningaraðferðir verða þróaðar til að meta gæði afurðanna. Verkefnið hefur verið unnið í nánu samstarfi við Primex ehf., líftæknifyrirtæki á Siglufirði sem framleiðir hágæða kítósan, og MEPI,  franska sjálfseignarstofnun sem vinnur að þróun og innleiðingu síflæðiframleiðsluaðferða í Evrópu. 

Vivien Nagy lauk BS-prófi í lífefnaverkfræði frá Háskólanum í Debrecen í Ungverjalandi og meistaraprófi í lyfjavísindum frá Háskóla Íslands. Hún hóf doktorsnám við Lyfjafræðideild árið 2018.

Um styrktarsjóðinn

Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði og rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu rannsóknasamstarfi.
 
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar í maí árið 2001 til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem hefur það að markmiði að veita verðlaun fyrir ýmis störf á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 

Jón Atli Benediktsson rektor, Sveinbjörn Gizurarson prófessor, Helga Helgadóttir, styrkhafi  og aðjunkt, Már Másson prófessor, Vivien Nagy, styrkhafi og doktorsnemi, Þorsteinn Loftsson prófessor, Manisha Prajapati, styrkhafi og doktorsnemi, og Elín Soffía Ólafsdóttir prófessor.