Þunglyndislyf auka ekki blæðingarhættu eftir kransæðahjáveituaðgerðir
Tíðni og magn bæðinga hjá þeim sjúklingum sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerðir á Landspítala og eru á þunglyndislyfjum er ekki meiri en annarra sem fara í slíka aðgerð. Þetta sýnir ný rannsókn sem vísindamenn og nemendur við Læknadeild Háskóla Íslands og Landspítala hafa unnið og birtist í General Thoracic and Cardiovascular Surgery.
Langmest notuðu þunglyndislyfin á Íslandi í dag eru svokallaðir sérhæfðir endurupptökuhemlar á serotóníni (SSRI) og serótónín-noradrenalíni (SNRI). Þekkt er að hormónið serótínin getur stuðlað að samdrætti æða og aukið samloðun blóðflagna og þannig fræðilega minnkað blæðingu, t.d. eftir skurðaðgerðir. Þannig hafa fyrri rannsóknir sýnt að þessi þunglyndislyf geti aukið blæðingu eftir t.d. brjóstaaðgerðir og jafnvel við hjartaaðgerðir þar sem alvarlegar blæðingar eru algengt vandamál. Í þessum eldri rannsóknum hefur þó aðallega verið horft til svokallaðra enduraðgerða vegna blæðinga og fjölda blóðgjafa í stað þess að mæla sjálfa blæðinguna nákvæmlega. Á Íslandi hefur blæðingarmagn hins vegar verið skráð nákvæmlega eftir allar hjartaaðgerðir, ekki síst kransæðahjáveitu sem er algengasta opna hjartaaðgerðin. Allir sjúklingar eru með svokallað brjóstholsdren í a.m.k. sólarhring eftir aðgerðina og blæðing í þeim mæld á klukkstundarfresti. Auk þess liggja fyrir hér á landi nákvæmar upplýsingar um fjölda enduraðgerða og blóðgjafa eftir aðgerðina.
Kransæðahjáveituaðgerð er alengasta opna hjartaaðgerðin og eru framkvæmdar um 100-150 slíkar aðgerðir árlega á Íslandi, oftast við alvarlegum þrengslum í öllum helstu kransæðum hjartans. Þekkt er að sjúklingar með alvarlegan kransæðasjúkdóm þjáist af þunglyndi í 31-45% tilfella og 15-47% sjúklinga sem gangast undir hjáveituaðgerð hafa einkenni þunglyndis, sem í sumum tilfellum geta varað fyrstu vikur og mánuði eftir aðgerðina.
Fyrsti höfundur greinarinnar er Alexandra Aldís Heimisdóttir, læknanemi á 5. ári við Læknadeild HÍ, en verkefnið vann undir handleiðslu Tómasar Guðbjartssonar, prófessors og yfirlæknis sem stýrði rannsókninni.
Rannsóknin sem fjallað er um í General Thoracic and Cardiovascular Surgery náði til alls 1237 sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala á árabilinu 2007-2016. Kannað var með meiri nákvæmni en áður hefur verið gert hvort þeir sjúklingar, sem tóku áðurnefnd þunglyndislyf fyrir aðgerð, en þeir reyndust 97 talsins, hefðu meiri tilhneigingu til blæðingar eftir aðgerð en aðrir sjúklingar.
Í ljós kom að hóparnir voru mjög sambærilegir hvað varðar áhættuþætti eins og reykingar, hækkaðan blóðþrýsting og kólesteról en einnig notkun blóðflöguhemjandi lyfja og blóðþynningarlyfa. Sjúklingar á þunglyndislyfjunum voru þó með aðeins hærri líkamsþyngdarstuðul. Þá reyndist 30 daga dánartíðni eftir aðgerðina sambærileg og lág hjá báðum hópum og sama má segja um tíðni helstu fylgikvilla, þar með talið blæðingar. Átti það bæði við um blæðingarmagn í brjótholsdrenum en einnig tíðni enduraðgerða og fjölda blóðgjafa.
Niðurstöður þessara rannsóknar styðja því ekki að hætta beri notkun þessara lyfja fyrir kransæðahjáveituaðgerð til að draga úr líkum á blæðingu. Tímabundin stöðvun slíkrar lyfjagjafar getur enda aukið á þunglyndi og kvíða sem oft tengist stórum aðgerðum eins og þessari og því gert meðferð og endurhæfingu erfiðari.
Fyrsti höfundur greinarinnar er Alexandra Aldís Heimisdóttir, læknanemi á 5. ári við Læknadeild HÍ, en verkefnið vann undir handleiðslu Tómasar Guðbjartssonar, prófessors og yfirlæknis sem stýrði rannsókninni.