Þýddi verðlaunabók David Diop
Út er komin bókin Á nóttunni er allt blóð svart eftir fransk-senegalska rithöfundinn og fræðimanninn David Diop í þýðingu Ásdís Rósu Magnúsdóttur, prófessors í frönsku máli og bókmenntum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Skáldsagan kom út árið 2018 og fékk Goncourt-verðlaun framhaldsskólanema sama ár. Anna Moschovakis þýddi skáldsöguna á ensku og fyrir verkið hlutu þýðandi og höfundur Alþjóðlegu Booker-verðlaunin árið 2021.
David Diop fæddist árið 1966 og ólst upp í Senegal. Hann fór í háskólanám í Frakklandi og kennir nú bókmenntir 18. aldar við háskólinn í Pau. Hann hefur sent frá sér þrjár skáldsögur sem allar fjalla um samskipti svarta manna og hvítra á einn eða annan hátt, á ólíkum tímum sögunnar og ýmist í Senegal eða Frakklandi. Sú fyrsta notar heimssýninguna 1889 í París sem sögusvið en sú þriðja fjallar um þrælasölu og skynsemishyggju á 18. öld.
Á nóttunni er allt blóð svart (Frère d'âme) er önnur skáldsaga Diops. Í henni segir frá vinunum Alfa og Mademba sem taka þátt í skotgrafahernaði Frakka í fyrri heimsstyrjöld. Þegar Mademba deyr fyllist Alfa miklum hefndarþorsta og brýtur hinar óskrifuðu reglur stríðsins. Hann missir tökin á veruleikanum og hugur hans leitar heim í þorpið og fjarlæga veröld sem undirstrikar enn frekar fáránleika og grimmd stríðsins.
Ásdís Rósa Magnúsdóttir hefur áður þýtt verk eftir Albert Camus, Chrétien de Troyes, Michel de Montaigne, Assiu Djebar, Madame Leprince de Beaumont og fleiri frönskumælandi rithöfunda. Hún var tilnefnd til íslensku þýðingaverðlaunanna fyrir Þrjú ritgerðasöfn eftir Albert Camus og fyrir smásagnasafnið Fríða og Dýrið. Franskar sögur og ævintýri fyrri alda.
Á nóttunni er allt blóð svart kom út hjá bókaforlaginu Angústúru 2022.