Þýðir aðra bók eftir Virginiu Woolf
Út er komin bókin Útlínur liðins tíma eftir Virginiu Woolf í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttur, vísindamanns við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði.
Minningabrot Woolf sem birtast í bókinni eru vitnisburður um hvernig endurtekin högg dauðans, kynferðisbrot og önnur áföll í bernsku mörkuðu persónuleika hennar fyrir lífstíð. Í bókinni er dregin upp blæbrigðarík mynd af íhaldssömu samfélagi Viktoríutímans í Bretlandi og sýnir átök kynslóða á miklum umbreytingatímum. Þessi bersögla sjálfsævisaga sýnir jafnframt hvernig hún vefur þráðinn úr eigin lífsreynslu saman við söguþræði skáldverka sinna.
Soffía Auður Birgisdóttir hefur áður þýtt Orlandó eftir Virginiu Woolf og var tilnefnd til þýðingaverðlauna fyrir hana. Auk þess hafa komið út eftir hana bækurnar Maddama, kerling, fröken frú. Konur í íslenskum nútímabókmenntum og Ég skapa – þess vegna er ég. Um skrif Þórbergs Þórðarsonar.