Tíu prósenta fjölgun umsókna í grunnnámi og tæplega átta í framhaldsnámi við HÍ
- Ríflega 9.200 umsóknir um grunn- og framhaldsnám við HÍ
- 800 umsóknir bárust um nám í íslensku sem öðru máli
- Viðskiptafræði, læknisfræði, sálfræði, tölvunarfræði og verkfræðigreinar einnig vinsælar
- Rúmlega 2.500 erlendar umsóknir bárust Háskólanum
Háskóla Íslands bárust rúmlega 9.200 gildar umsóknir um grunn- og framhaldsnám fyrir næsta skólaár. Fjölgun umsókna milli ára nemur tíu prósentum í grunnnámi og tæpum átta prósentum í framhaldsnámi. Umsóknarfresti um grunnnám lauk þann 5. júní og um flestar námsleiðir í framhaldsnámi þann 15. apríl.
Alls bárust skólanum 5.085 gildar umsóknir um grunnnám og fjölgar umsóknum í langflestum deildum skólans milli ára. Heildarfjölgunin er sem fyrr segir rúm 10 prósent en þessi aukning bætist við fjölgun umsókna milli áranna 2022 og 2023 sem var rúm sex prósent.
„Þessi mikla aukning í umsóknum er afar ánægjuleg og ber vott um það ótvíræða traust sem almennt er borið til Háskóla Íslands. Það er einnig afar gleðilegt að sjá að umsóknum hefur fjölgað tvö ár í röð í Háskóla Íslands,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.
„Menntun á öllum sviðum er gríðarlega mikilvæg Íslendingum í þeirri samkeppni sem blasir við okkur á næstu árum. Þar er þekkingin leiðarljósið. Þau sem hafa nú sótt um nám við HÍ og setjast hér á skólabekk næsta haust munu án vafa hafa afgerandi áhrif á atvinnulíf og samfélag hér á landi og víðar á næstu árum og áratugum.“
Dreifing umsókna á deildir og námsleiðir
Umsóknir í grunnnámi dreifast á fimm fræðasvið skólans með eftirfarandi hætti:
Félagsvísindasviði bárust 914 umsóknir. Á sviðinu er viðskiptafræði sem fyrr vinsælasta greinin en 333 umsóknir bárust um þá námsleið sem er aukning upp á 23 prósent. Umsóknir um nám við Lagadeild voru tæplega 160 og svipaður fjöldi sækir um nám í félagsráðgjöf. Þá bárust rúmlega 90 umsóknir um nám við Hagfræðideild og 28 umsóknir um nýtt BA-nám í blaðamennsku við Stjórnmálafræðideild, en 20 nemendur verða valdir inn í þá námsleið.
Tæplega 1.200 umsóknir bárust Heilbrigðisvísindasviði að þessu sinni. Flestar umsóknir voru um námsleið í læknisfræði en rúmlega 270 skráðu sig í inntökupróf í greininni sem fór fram dagana 6. og 7. júní. Alls verða 75 nemendur teknir inn í námið að þessu sinni, 15 fleiri en undanfarin ár. Þá þreyttu 89 inntökupróf í sjúkraþjálfunarfræði og rúmlega 53 í tannlæknisfræði. Enn fremur bárust 250 umsóknir um nám í sálfræði og Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild fékk rúmlega 200 umsóknir. Námsleið í lífeindafræði bárust enn fremur 80 umsóknir og rúmlega 60 vilja hefja nám í lyfjafræði.
Hugvísindasviði bárust rúmlega 1.450 umsóknir eða flestar umsóknir allra sviða. Áframhaldandi vöxtur er í umsóknum um nám í íslensku sem öðru máli en alls bárust 800 slíkar, annaðhvort um BA-nám eða eins árs hagnýtt nám í greininni. Til samanburðar voru umsóknirnar 590 í fyrra. Þá bárust tæplega 370 umsóknir um nám í einhverju þeirra þrettán erlendu tungumála sem kennd eru við Mála- og menningardeild skólans. Enn fremur hyggjast um 40 hefja nám í sagnfræði, um 35 í heimspeki og rúmlega 30 í íslensku.
Umsóknir á Menntavísindasviði reyndust rúmlega 770. Tæplega 230 stefna á nám í námsleiðum tengdum grunnskólakennslu og kennslufræði og þá vilja nærri 140 hefja nám á alþjóðlegri námsleið í menntunarfræði. Rúmlega 100 hafa sótt um nám í þroskaþjálfafræði og hátt í 90 í íþrótta- og heilsufræði. Þá reyndust umsóknir um nám í leikskólakennarafræði og fagháskólanám í leikskólafræði tæplega 90 og rúmlega 70 hafa sótt um nám í uppeldis- og menntunarfræði.
Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði voru umsóknirnar 750 talsins. Þar er tölvunarfræði sem fyrr vinsælasta greinin með tæplega 180 umsóknir en rúmlega 360 hafa skráð sig í einhverja af námsleiðum skólans í verkfræði og tæknifræði, þar af 115 í véla- eða iðnaðarverkfræði, 70 í rafmagns- og tölvuverkfræði og sami fjöldi í umhverfis- og byggingarverkfræði. Fjölgun umsókna í nær allar verkfræðigreinar er töluverð samanborið við síðasta ár eða frá nær 34 prósentum í rafmagns- og tölvuverkfræði upp í hartnær 43 prósent í umhverfis- og byggingaverkfræði. Þá vilja rúmlega 40 hefja nám í líffræði og um 50 manns sækja enn fremur um þrjár námsleiðir skólans á sviði stærðfræði og stærðfræðimenntunar.
Umsóknum um framhaldsnám fjölgar um 8 prósent milli ára
Umsóknir um framhaldsnám við Háskóla Íslands reyndust 4.142 og fjölgar um tæp 8 prósent milli ára. Rúmur þriðjungur þeirra, eða 1513, barst Félagsvísindasviði en þar vekur athygli að rúmlega 170 umsóknir eru um námsleið í alþjóðaviðskiptum og verkefnisstjórnun sem einungis er kennd á ensku. Næstflestar umsóknir bárust Menntavísindasviði eða nærri 900. Þá vekur athygli að umsóknum um framhaldsnám á Verkfræði- og náttúruvísindasviði fjölgar um þriðjung milli ára og eru tæplega 420. Umsóknir um þverfræðilegt framhaldsnám eru 510 og þar eru vinsælustu námsleiðirnar umhverfis- og auðlindafræði, menntun framhaldsskólakennara og lýðheilsuvísindi. Þessu til viðbótar hafa 105 manns sótt um doktorsnám við skólann það sem af er ári.
Áhugi á skólanum meðal alþjóðlegra nemenda hefur aukist mjög á síðustu árum samhliða vaxandi erlendu samstarfi skólans og aukinni alþjóðavæðingu íslensks samfélags. Svo er einnig í ár og erlendum umsóknum fjölgar um nærri 46% og eru samtals rúmlega 2.500. Háskóli Íslands beitir ströngum viðmiðum og umsóknargjaldi til þess að tryggja að einungis berist marktækar umsóknir um nám frá erlendum umsækjendum.