Tíu teymi taka þátt í Snjallræði
Tíu samfélagsleg nýsköpunarverkefni fengu inngöngu í vaxtarrýmið Snjallræði í ár en það var sett á laggirnar árið 2018 og er ætlað að styðja við öflug teymi sem brenna fyrir lausnum á samfélagslegum áskorunum samtímans og styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Það geta verið lausnir sem snúa að heilbrigðisþjónustu, velferðartækni, bættu menntakerfi og jafnréttismálum, svo dæmi séu tekin.
Verkefnin tíu sem fengu inngöngu eru:
- Eldrimenntun: er ætlað að leiða saman eldri Íslendinga og innflytjendur á öllum aldri til að styðja við íslenskunám og auka gagnkvæman skilning á ólíkri menningu.
- Opni leikskólinn Memmm: samfélag fagfólks sem skapar vettvang til gæðafjölskyldusamveru þar sem leiknum er gefið rými, þátttaka allra og samspil barna og fullorðinna er markmiðið. Hvort sem það er í opna leikskólanum eða skapandi smíðasmiðju þá er öllum boðið að vera Memmm.
- Eldumst saman: Berst gegn auknum kostnaði í heilbrigðiskerfinu sem hlýst af félagslegri einangrun með gagnagreiningu og fyrirbyggjandi aðferðum.
- Sjö þrepa kerfið: þróar nýjar aðferðir við svepparæktun sem byggja á nýtingu niðurbrjótanlegra affallsstrauma frá fjölbreyttum iðnaði með sjálfbærni og hringrásarhagkerfið í huga til að og takast á við áskoranir nútímans.
- Co-living Iceland: Lausn sem einfaldar húsnæðisleit sem byggist oft á óformlegum tengslanetum.
- Fine Food Íslandica: Framleiðir heilsusamleg og aðgengileg hráefni úr sjálfbæru þangi. Fyrirtækið starfar náið með sjávarútveginum og landbúnaðinum til að skapa samfélag í kringum sjálfbæra matvælaframleiðslu.
- Bragðlaukaþjálfun: Verkefnið miðar að því að draga úr matvendni barna með gagnreyndum aðferðum sem efla fjölskyldur og gefa þeim tækifæri til að eiga jákvæðar og styrkjandi samverustundir kringum mat og matmálstíma.
- Jafningjahús: Annar valkostur fyrir fólk sem er að upplifa krísu.
- Beee: styður við ábyrga og umhverfisvæna stafræna þróun og nýtingu tækniauðlinda með því að veita fyrirtækjum yfirlit yfir það stafræna kolefnisfótspor sem hlýst af rekstrinum ásamt því að auka vitund starfsfólks um þeirra stafræna kolefnisfótspor.
- Weave Together Foundation: Verkefni sem styður við inngildingu innflytjenda með því að styðja læsi og lestrarmenningu þeirra.
Vaxtarrýmið er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. Vaxtarrýmið er rekið í samstarfi við MITdesignX, og er þungamiðja þess vinnustofur þar sem sérfræðingar frá MIT koma til landsins og deila þekkingu sinni. Þátttakendur fá aðgang að fræðslu og þjálfun frá innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði samfélagsmála og nýsköpunar og fundi með reyndum mentorum. Verkefnið er styrkt af Reykjavíkurborg, Marel og Landsvirkjun.