Traustið er helsta auðlind Vísindavefsins
„Traustið er helsta auðlind Vísindavefsins,“ sagði Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri vefsins, þegar samningur um samstarf á milli Happdrættis Háskóla Íslands og HÍ var undirritaður með stuðning við vefinn að leiðarljósi. Stuðningur happdrættisins hefur skipt afar miklu að ritstjórans sögn fyrir rekstur Vísindavefsins alveg frá upphafi og haft þannig mikil áhrif á vísindamiðlun á Íslandi.
Traustið sem Vísindavefur HÍ nýtur byggist á þeirri æ stækkandi auðlind af áreiðanlegum gögnum sem safnast hafa á vefnum allt frá upphafi en þau helgast af svörum fræða- og vísindafólks við spurningum frá fróðleiksfúsum almenningi.
Ljóst er að fólk þyrstir í áreiðanleg gögn því undanfarna röska tvo áratugi hefur vefurinn verið í hópi þeirra allra vinsælustu á Íslandi. Á seinasta ári voru flettingar í vefnum t.d. rúmlega 3,3 milljónir og heimsóknir um 2,6 milljónir. Það samsvarar um 50 þúsund gestum í viku hverri eða 214 þúsund gestum mánaðarlega. Þetta eru alveg hreint magnaðar tölur og til að setja þær í samhengi getum við skoðað þær í alþjóðlegum samanburði.
„Vikulegar tölur samsvara því að um þrettán prósent þjóðarinnar heimsæki vefinn í hverri viku,“ segir Jón Gunnar. „Ef sambærileg vefsíða um vísindi væri í Póllandi myndi hún fá um fimm milljónir gesta á viku, vefsíða á Bretlandseyjum níu milljónir og vefsíða í Þýskalandi væri með um tíu milljónir gesta í hverri viku. Þetta eru tölur sem ég held að öll sem miðla vísindum í öðrum löndum væru algjörlega í skýjunum með!“
Vefurinn fellur vel að stefnu HÍ
Ritstjórinn segir að Happdrætti Háskóla Ísland hafi verið aðalstyrktaraðili Vísindavefsins frá stofnun hans. „Allt frá þeim tíma hefur framlag Happdrættisins tryggt grunnrekstur vefsins og þannig gert honum kleift að sinna því mikilvæga hlutverki að miðla vísindum á íslensku til ungs fólks og alls almennings í landinu. Þannig hafa forsvarsmenn happdrættisins sýnt í verki í meira en tvo áratugi skilning á mikilvægi vandaðrar vísindamiðlunar á íslensku til almennings.“
Starf Vísindavefins rímar gríðarlega vel við stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, þar sem áhersla er á margvíslegar leiðir til miðlunar enda er miðlun ein af grundvallarstoðum háskóla samkvæmt lögum um opinbera háskóla. Heimurinn stendur frammi fyrir afar flóknum áskorunum og miðlun háskóla gegnir lykilhlutverki í að vinna gegn falsfréttum, stuðla að lýðheilsu og velferð, heilbrigðum hagkerfum og sjálfbærum og réttlátum samfélögum. Miðlunin byggist að sjálfsögðu á rannsóknum og gríðarlegri þekkingu sem er líka undirstaðan í kennslu við HÍ.
„Í stuttu máli má segja að Vísindavefurinn sé eins konar samtal vísinda- og fræðafólks við alla þá sem hafa áhuga á vísindum á mannamáli. Vefurinn er í raun eins konar tæki til að miðla þekkingu fræðaheimsins til almennings á einfaldan og skilvirkan hátt,“ segir Jón Gunnar.
Eftir því sem áskoranir eru flóknari – því brýnni er Vísindavefurinn
Vísindavefurinn gegnir æ mikilvægara hlutverki eftir því áskoranir verða flóknari og erfiðari viðfangs. Jón Gunnar segir þannig mjög áberandi hversu mikið umferð eykst um vefinn þegar ýmis markverð tíðindi í náttúrunni verða, eins og til að mynda eldgos og jarðskjálftar.
„Að sama skapi er ljóst að þegar þörfin vex fyrir nútímalega þekkingu á flóknum vísindum dafnar Vísindavefurinn best. Þetta sást vel þegar heimsfaraldur COVID-19 geisaði. Aðsókn inn á Vísindavefinn þá hafði aldrei verið meiri og fjölmargir nýttu sér greinilega vefinn til að nálgast áreiðanlegar upplýsingar í stað þess að lenda í flóði falsfrétta og upplýsingaóreiðu. Þar sást vel hversu mikið traust fjölmiðlar og almenningur ber til Vísindavefsins og þess fræðafólks sem þar miðlar vísindum.“