Túlkanám í boði sem aukagrein
Næsta haust verður hægt að leggja stund á samfélagstúlkun sem aukagrein við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands en námið hefur hingað til aðeins verið í boði sem diplómanám á BA-stigi.
Samfélagstúlkun er tilvalin sem aukagrein á BA-stigi með þeim tungumálum sem eru kennd við HÍ, m.a. íslensku sem annað tungumál, en möguleikarnir á samsetningu með aðalgrein eru fjölmargir, þar sem túlkar þurfa að kunna skil á öllu milli himins og jarðar. Mikil eftirspurn er eftir samfélagstúlkum til starfa en þeir túlka samtöl þar sem innflytjendur eiga í samskiptum, til dæmis á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, í skólum, hjá félagsþjónustum og á vinnustöðum.
Umsækjendur þurfa að hafa lokið stúdentsprófi og hafa erlent móðurmál og góða færni í íslensku eða íslensku að móðurmáli og góða færni í erlendu tungumáli. Námið er 60 ECTS-einingar og er dreift á tvö ár. Hægt er að útskrifast með diplómu á BA-stigi eða taka námið sem aukagrein til BA-prófs.
Birna Ragnheiðardóttir Imsland, kennari í samfélagstúlkun við Háskóla Íslands, segir það ómetanlegan hæfileika að kunna tvö tungumál nægilega vel til að geta túlkað á milli þeirra og brúað bilið á milli fólks þannig að það skilji hvert annað. „Mér finnst mjög gefandi að sjá nemendur mína uppgötva þennan hæfileika, rækta hann og styrkja, fara svo út í samfélagið og nota hann til að láta gott af sér leiða," segir Birna.
Ewa Waclawek, samfélagstúlkur og fyrrverandi nemandi í samfélagstúlkun við Háskóla Íslands, segir námið frábært og mjög hagnýtt: „Ég kláraði námið í samfélagstúlkun árið 2016 og mæli hiklaust með því fyrir alla sem hafa áhuga á að vinna í túlkaþjónustu að klára þetta nám. Í náminu lærði ég mjög mikið um samfélagstúlkun. Auk þess lærði ég um réttindi og skyldur túlka sem er mikilvægt í starfinu. Túlkaþjónusta er ein mikilvægasta þjónustan í fjölmenningarsamfélagi og á sama tíma ört vaxandi þjónusta í okkar samfélagi. Gæði túlkunar skiptir miklu máli fyrir þjónustunotanda og þess vegna eru vel menntaðir og áreiðanlegir túlkar mjög verðmætur starfskraftur. Allir sem hafa áhuga á að starfa í túlkaþjónustu og hjálpa innflytjendum að kynnast íslensku kerfi, þekkja réttindi sín og hjálpa þeim að taka virkan þátt í okkar samfélagi ættu að íhuga að skrá sig í nám í samfélagstúlkun og ég mæli sterklega með því.“