Tvö íslensk fyrirtæki verðlaunuð fyrir samfélagslegar tæknilausnir
![Tvö íslensk fyrirtæki verðlaunuð fyrir samfélagslegar tæknilausnir - á vefsíðu Háskóla Íslands](https://hi.is./sites/default/files/styles/efsta_mynd___fr_ttum/public/bgisla/aslaug_bjork_bls_31_20.jpg?itok=JgFuCX1n)
Tvö fyrirtæki, þar af annað sem á rætur að rekja til rannsókna innan Háskóla Íslands, hafa hlotið verðlaun World Summit Awards, stofnunar sem tengist Sameinuðuðu þjóðunum, fyrir tæknilausnir við samfélagslegum áskorunum. Þau voru valin úr hópi 8.000 nýsköpunarverkefna sem tilnefnd voru til verðlaunanna.
World Summit Awards voru sett á laggirnar fyrir næstum tveimur áratugum á grundvelli heimsþings Sameinuðu þjóðanna um upplýsingasamfélagið. Um er að ræða stofnun sem nýtur m.a. stuðnings Evrópusambandsins og er m.a. ætlað að styðja við og vekja athygli á fyrirtækjum sem þykja skara fram úr í þróun á tæknilausnum sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif og styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin stendur jafnframt fyrir ráðstefnum og fundum þar sem markmiðið er að leiða saman fulltrúa sprotafyrirtækja og frumkvöðla í hátt í 190 löndum sem vinna að samfélagslegri nýsköpun.
Áhættureiknir fyrir augnsjúkdóma og gervigreind gegn peningaþvætti
Stofnunin verðlaunar árlega fimm fyrirtæki í alls átta flokkum fyrir framlag sitt til lausna við samfélagslegum áskorunum. Að þessu sinni bárust alls 8.000 tilnefningar frá yfir 100 löndum til verðlaunanna. Alþjóðleg dómnefnd skipuð sérfræðingum á sviði nýsköpunar valdi verðlaunahafana 40 og sem fyrr segir eru tvö íslensk fyrirtæki þar á meðal. Það hefur aldrei gerst áður. Þetta eru fyrirtækin Retina Risk, sem hlýtur verðlaun í flokknum heilsa og velferð, og Lucinity, sem hlýtur verðlaun í flokki viðskipta og verslunar.
Retina Risk hefur þróað áhættureikni sem metur áhættu fólks, sem er með sykursýki, á að fá sjónskerðandi augnsjúkdóma. Fyrirtækið stofnuðu Einar Stefánsson og Thor Aspelund, prófessorar við Háskóla Íslands, ásamt Örnu Guðmundsdóttur innkirtlalækni og er áhættureiknirinn sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum. Nýverið bárust fréttir af því að fyrirtækið hefði samið við bandarísku sykursýkisamtökin um að gera reikninn aðgengilegan almenningi í Bandaríkjunum.
Lucinity er nýsköpunarfyrirtæki sem framleiðir gervigreindarhugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum að berjast gegn peningaþvætti. Fyrirtækið er í örum vexti og hefur m.a. nýtt sér krafta háskólastúdenta eins og fram kom í fréttum á dögunum.
Fulltrúum fyrirtækjanna tveggja býðst að kynna þau á alþjóðaþingi World Summit Awards sem fram fer á netinu dagana 22.-24. mars.
Nóbelsverlaunahafi meðal fyrri þátttakenda
Jóhann Pétur Malmquist, prófessor emeritus í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, er sérfræðingur og dómari hjá World Summit Awards og hann tilnefndi fyrirtækin til verðlaunanna. Jóhann, sem hefur áratugareynslu af nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi, hefur starfað á vegum World Summit Awards í yfir áratug. „Með því að taka þátt í dómarastörfum kynnist maður því betur hvaða gengur á í heiminum í hinum ýmsu löndum. Ég man að ég tók þátt í að dæma verkefni frá Filippseyjum í Singapúr 2015. Frumkvöðullinn var ritstjóri að nafni Maria Ressa en hún hlaut friðarverðlaun Nóbels 2021,“ rifjar Jóhann upp.
Jóhann segir það mikinn heiður og alþjóðlega viðurkenningu að hljóta verðlaunin og það sé einstakur árangur að tvö fyrirtæki á Íslandi hafi verið valin úr hópi 8.000 nýsköpunarverkefna. Þess má geta að tvö íslensk fyrirtæki hafa áður hlotið verðlaun World Summit Awards, CCP og Meniga.
„Það er mikilvægt að hafa mikið úthald því það er tímafrekt verkefni að byggja upp sprotafyrirtæki. Hugmyndin þarf eins og gefur að skilja að vera ný eða fela í sér lausn sem er betri en þær sem fyrir eru. Frumkvæði og þekking er mjög mikilvægur þáttur og styrkleiki í mannlegum samskiptum. Frumkvöðullinn þarf að geta komist hæfilega langt í að móta verkefnið og helst búa til frumgerð áður en fjárfestar koma að verkefninu,“ segir Jóhann Pétur Malmquist, prófessor emeritus í tölvunarfræði við HÍ og sérfræðingur hjá World Summit Awards.
![](https://hi.is./sites/default/files/styles/mynd___kassa_fyrir_fr_ttir_/public/bgisla/kri_von_johann_malmquist_190328_001.jpg?itok=c6gvf3jg)
Úthald, frumkvæði og þekking gríðarlega mikilvæg í nýsköpun
Jóhann hefur kennt nýsköpunar- og frumkvöðlanámskeið við Háskóla Íslands um langt árabil og komið að stofnun fjölmargra sprotafyrirtækja. „Það eru tæplega þúsund nemendur sem hafa farið í gegnum eitt eða fleiri frumkvöðlanámskeið hjá mér við Háskóla Íslands. Sumir af fyrrverandi nemendum mínum hafa náð mjög langt á alþjóðavísu,“ segir hann enn fremur.
En hvaða þættir telur hann að skipti mestu máli um það hvort nýsköpunarhugmynd nær flugi? „Það er mikilvægt að hafa mikið úthald því það er tímafrekt verkefni að byggja upp sprotafyrirtæki. Hugmyndin þarf eins og gefur að skilja að vera ný eða fela í sér lausn sem er betri en þær sem fyrir eru. Frumkvæði og þekking er mjög mikilvægur þáttur og styrkleiki í mannlegum samskiptum. Frumkvöðullinn þarf að geta komist hæfilega langt í að móta verkefnið og helst búa til frumgerð áður en fjárfestar koma að verkefninu,“ segir Jóhann sem m.a. hefur verið ráðgjafi hjá fyrirtækjum eins og Apple Computers og Software AG.
Nýsköpun nauðsynleg til að takast á við örar breytingar í heiminum
Þá þurfi frumkvöðlar að búa yfir mikilli þolinmæði, þekkingu og góðri sýn á framtíðina. „Heiðarleiki er einnig mikilvægur eiginleiki og geta til að laða að sér hæfileikaríkt starfsfólk sem getur unnið vel saman þó að það hafi mismunandi styrkleika og hæfni. Svo þarf ákveðna heppni með tímasetningu verkefnisins en hægt er að ýta undir heppnina með því að átta sig vel á hvað er fram undan í heiminum,“ bendir Jóhann enn fremur á.
Nýsköpun hefur sjaldan verið mikilvægari en nú þegar heimsbyggðin tekst á við fjölbreyttar áskoranir, eins og loftslagsbreytingar, heimsfaraldur, tæknibyltingu og mikla fólksflutninga. En hvaða tækifæri sér Jóhann í nýsköpun hér á landi og í hvaða þáttum nýsköpunar þurfa Íslendingar að efla sig. „Tíminn og reynslan eiga eftir hjálpa okkur og eftir því sem fleiri fyrirtæki ná langt aukast líkurnar á að fleiri frumkvöðlar reyni fyrir sér og nái að skapa fleiri áhugaverð og vel launuð störf. Það eru miklar breytingar í heiminum fram undan og við þurfum að vera tilbúin að takast á við þær og njóta möguleikanna,“ segir Jóhann að endingu.