Una Torfa á fyrstu háskólatónleikum ársins
Háskólatónleikaröðinni verður ýtt úr vör á þessu ári með glæsibrag þegar tónlistarkonan Una Torfa kemur fram í Fjöru, sal á Menntavísindasviði skólans í Stakkahlíð, miðvikudaginn 15. febrúar kl. 12.15. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.
Una var óskoruð spútniklistakona síðasta árs, heillaði heila þjóð með sérdeilis frábærri frumraun sinni, Flækt og týnd og einmana. Þar steig hún fram með nokkuð afgerandi hætti; heildartónninn hreinn og heiðarlegur, lögin björt, fögur og hrein en líka gáskafull og grallarakennd. Skemmtilegir en um leið stingandi textar um raunir og sigra hversdagsins og á tónleikum verður þetta allt sprelllifandi og dýpra. Við hlökkum til!
Tónleikarnir fara fram miðvikudaginn 15. febrúar og hefjast leikar kl. 12.15. Staður er Fjara, Stakkahlíð, hvar Menntavísindasvið HÍ er með höfuðstöðvar. Tónleikunum verður einnig streymt og hægt verður að horfa á þá síðar í upptökuformi. Hvort sem þú ert í borginni, úti á landi eða úti í heimi getur þú notið hinna fögru tóna Háskólatónleikaraðarinnar og upplifað stemninguna í skólanum. Öll velkomin á staðinn og aðgangur gjaldfrjáls.
Háskólatónleikaröðin hóf göngu sína með nýjum áherslum haustið 2020 og hafa listamenn af alls kyns toga troðið upp. Tónleikunum hefur öllum verið streymt með glæsibrag og má nálgast upptökur hér.
Umsjónarmaður tónleikaraðarinnar og listrænn stjórnandi er dr. Arnar Eggert Thoroddsen. Segist hann styðjast við slagorðið „Háskóli fyrir alla - Tónlist fyrir alla“ og er myndast við að endurspegla það í dagskránni.