Úr fiskeldi í manneldi
Leiðir til að auka verðmæti fiskmjöls og vinna úr því prótein til manneldis er viðfangsefni Guðrúnar Svönu Hilmarsdóttur, doktorsnema í matvælafræði, í verkefni sem nefnist „Fiskprótein til manneldis – endurhönnun fiskmjöls- og lýsisferla“. Verkefnið vinnur hún undir leiðsögn Maríu Guðjónsdóttur, prófessors og varadeildarforseta við Matvæla- og næringarfræðideild sem er aðalleiðbeinandi, en þar að auki leiðbeina henni Sigurjón Arason, prófessor í matvælafræði, og Ólafur Ögmundarson, aðjunkt innan deildarinnar.
Skref í rétta átt
Síðastliðin rúmlega 70 ár hafa sömu ferlar verið notaðir við vinnslu á uppsjávarfiski í fiskmjöl og lýsi á Íslandi þrátt fyrir að hráefnið komi nú í betra ástandi að bryggju en áður, meðal annars vegna betri kæliaðferða um borð.
Margar fiskmjöls- og lýsisverksmiðjur á Íslandi vinna með hliðarafurðir úr ferskfiskvinnslu, þar á meðal innyfli, fisk sem er of lítill til að flaka og annað tilfallandi hráefni. Úr þessu hráefni er unnið fiskmjöl og lýsi sem er mestmegnis notað í fiskeldi, þ.e. sem fóður.
Í doktorsverkefninu er ætlunin að sögn Guðrúnar að bæta þessa vöru þannig að hún nýtist til manneldis. Hún segir að um sé að ræða stórt skref og að hún viti að eitt verkefni muni vissulega ekki umturna þessum 70 ára gömlu ferlum. Þetta sé þó skref í rétta átt og með rannsóknum komi í ljós hverju þurfi að breyta og hvar skuli byrja.
Síðustu þrjú ár hefur Guðrún unnið að ítarlegri greiningu á hráefninu á leið þess um fiskmjöls- og lýsisferlana. María segir að með bestun ýmissa skrefa í vinnslunni megi fá betra hráefni og því sé vert að breyta. Þessi greining ásamt þeim vísindagreinum sem skrifaðar hafa verið um hana komi að miklu gagni við að bæta fiskmjöls- og lýsisferlana og búa til nýja ferla fyrir vinnslu á fiskpróteini til manneldis.
Einstakt samstarf við Síldarvinnsluna í Neskaupstað
Við rannsóknina er notast við uppsjávarfisktegundirnar makríl, síld, kolmunna og loðnu en það eru þær tegundir sem náinn samstarfsaðili Matvæla- og næringarfræðideildar til 7-8 ára, Síldarvinnslan í Neskaupstað, vinnur.
María og Guðrún segjast afar þakklátar samstarfið og aðstæður hjá Síldarvinnslunni einstakar en nemendum er hleypt inn í vinnsluna og þeir fá þar stuðning, ráðgjöf og hráefni til að vinna rannsóknir sínar.
Kveikjuna að rannsóknarverkefninu má að miklu leyti rekja til þessa samstarfs við Síldarvinnsluna en vinnsla uppsjávarfisks innan fyrirtækisins hefur verið grundvöllur og tengst hinum ýmsu doktorsverkefnum sem unnin hafa verið innan Matvæla- og næringarfræðideildar. María segir deildina hafa mikinn áhuga á að halda samstarfinu áfram, búa til nýja ferla og reyna að sjá til þess að vinnslan verði eins góð og mögulegt er, bæði með tilliti til gæða og umhverfisáhrifa.
Við rannsóknina er notast við uppsjávarfisktegundirnar makríl, síld, kolmunna og loðnu en það eru þær tegundir sem náinn samstarfsaðili Matvæla- og næringarfræðideildar til 7-8 ára, Síldarvinnslan í Neskaupstað, vinnur.
Hagnýt rannsókn sem fer ekki ofan í skúffu
Verkefnið er einnig unnið með öðrum nánum samstarfsaðila deildinnar á sviði framhaldsnáms, Matís. Með því verður til brú á milli skólans og iðnaðarins sem er mikilvægt í verkefni sem þessu að sögn Guðrúnar og skipti einnig máli þegar kom að vali á viðfangsefni doktorsrannsóknar hennar.
Guðrún segir hagnýtingarmöguleika rannsóknarinnar einnig hafa haft mikil áhrif á það að hún hafi orðið fyrir valinu. Rannsóknin fari ekki upp í hillu eða ofan í skúffu heldur verði nýtt. „Maður er að gera eitthvað sem einhver annar getur notað,“ segir Guðrún og María tekur undir mikilvægi þess. Guðrún bætir jafnframt við að með því að opinbera svo niðurstöðurnar í vísindagreinum geti fleiri fyrirtæki nýtt sér niðurstöðurnar.
Aðspurð segir Guðrún rannsóknina þegar hafa skilað þónokkrum niðurstöðum og María bætir við ítarleg greining á núverandi vinnsluferlum liggir fyrir sem opni á möguleika á að breyta þeim. Næstu skref séu að skipta út ákveðnum vinnsluþrepum og sjá hvaða áhrif þær breytingar hafi á gæði. Væntingar þeirra standi til að með verkefninu megi breyta ferlum til þess að framleiða próteinafurðir til manneldis.
„Það hefur enginn gert þetta áður“
Aðspurð segir Guðrún segir gildi þessa verkefnis fyrir vísindin almennt felast í því að „það hefur enginn gert þetta áður“, þ.e. rannsakað til hlítar áhrif hvers vinnsluskrefs í hefðbundnum fiskmjöls- og lýsisverksmiðjum. Það veiti góðan grunn fyrir margar aðrar rannsóknir sem taki á svipuðu efni.
Gildið fyrir samfélagið er ekki síður mikið og liggi m.a. í betri nýtingu á sjávarafurðum og þeim fiskveiðikvóta sem úthlutað sé ár hvert. María bætir við að með rannsókninni sé markmið Matvæla- og næringarfræðideildar jafnframt að vera leiðandi í rannsóknum á sjávarafurðum á Íslandi og þá geti verkefnið sömuleiðis skapað ný atvinnutækifæri innan sjávarútvegs.
Verkefnið er fjármagnað af Tækniþróunarsjóði og AVS sjóðnum.
Höfundur greinar: Katrín Ósk Ingimarsdóttir, nemandi í vefmiðlun