Útsetning fyrir sýklalyfjum snemma á ævinni og síðkomin áhrif á heilsu barna
Eitt af þeim verkefnum sem fengu styrk úr Doktorsstyrktarsjóði HÍ 2022 er rannsókn þar sem kanna á hvort munur sé á mótefnasvari barna við bólusetningum sem útsett eru fyrir sýklalyfjum snemma á ævinni og þeirra sem eru það ekki.
Rannsóknir erlendis hafa bent til þess að breytt þarmaflóra geti mögulega haft áhrif á svörun við bólusetningum. Sýklalyf eru mikið notuð lyf, hafa mikil áhrif á þarmaflóru og því mikilvægt að kortleggja þessi áhrif. Fáar rannsóknir sem skoða þessi tengsl hafa verið gerðar á mönnum og mun þessi rannsókn því bæta við mikilvægri þekkingu og e.t.v. stuðla að breyttu verklagi í kringum bólusetningar barna og sýklalyfjanotkun.
Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Birtu Bæringsdóttur í læknavísindum við Háskóla Íslands. Hún vinnur sem doktorsnemi undir handleiðslu aðalrannsakandans, Valtýs Stefánssonar Thors, barnalæknis og lektors við Læknadeild, auk annarra í rannsóknarteyminu.
Rannsóknarhópurinn mun samanstanda af 200 fullburða börnum fæddum á Landspítala á árunum 2022 og 2023. Þeim verður skipt upp í fjóra hópa á grunni sýklalyfjaútsetningar snemma á ævinni og verða 50 börn í hverjum hópi.
- hópur A = börn fædd með valkeisaraskurði (mæður þeirra fengu sýklalyf í aðgerð)
- hópur B = börn fædd um leggöng og mæður þeirra fengu sýklalyf í fæðingu
- hópur C = börn fædd um leggöng og fengu altæk sýklalyf í að minnsta kosti 48 klukkustundir á fyrstu viku ævinnar
- hópur D = börn fædd um leggöng og höfðu ekki fengið nein sýklalyf við upphaf þátttöku í rannsókninni
Börnin í rannsókninni munu fá bólusetningu gegn rotaveiru með bóluefninu Rotarix, gefið sem dropar um munn, á Barnaspítala Hringsins. Börnin munu auk þess fá almennar bólusetningar samkvæmt skema Landlæknis á sinni heilsugæslustöð. Sértæk mótefni í munnvatni og blóði þessara barna gegn rotaveiru og örverum sem bólusett er fyrir samkvæmt bólusetningarskema Landlæknis verða mæld fyrir bólusetningar og aftur við sex mánaða og 13 mánaða aldur. Svörunin við bólusetningunum verður svo borin saman á milli hópanna.
Bólusetningar eru mjög mikilvæg forvarnaraðgerð og geta þær komið í veg fyrir ýmsa alvarlega smitsjúkdóma hjá börnum. Nýleg rannsókn á vegum Valtýs og samstarfsfólks sýndi að rotaveira er algengasta orsök bráðs niðurgangs hjá ungum börnum á Íslandi og veldur umtalsverðri sjúkdómsbyrði og álagi á fjölskyldur. Ekki er boðið upp á bólusetningu við rotaveiru á Íslandi enn sem komið er eins og gert er víða í nágrannalöndum okkar.