Vantraust og árásir á blaðamenn að aukast
„Við sjáum þróun þar sem blaðamenn verða sífellt meira skotspónn popúlískra stjórnmálamanna. Þetta hefur alvarleg áhrif á stöðu blaðamanna og lýðræðislegt samtal í heild sinni, sérstaklega í ljósi þess að fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í því að veita stjórnvöldum aðhald,“ segir Maximilian Conrad, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands sem sérhæfir sig í rannsóknum á lýðræði, fjölmiðlum og pólitískri orðræðu í samtímanum.
Frumniðurstöður nýrrar rannsóknar hans og samstarfsfólks sýna að blaðamenn í samtímanum búa við vaxandi þrýsting. Ástæðu þess má rekja til samspils popúlisma, samfélagsmiðla og breytts viðhorfs fólks til fjölmiðla. Í rannsókninni er kannað hvernig fjölmiðlar, sem burðarstoð lýðræðis, takast á við auknar árásir og vantraust í nútímasamfélagi og hvernig þeir geta haldið áfram að standa vörð um lýðræðið í samfélagi sem breytist ört.
Tilfinningar og persónulegar skoðanir fram yfir staðreyndir og sannleika
Rannsókn Maximilians beinist að áhrifum svokallaðs „eftir-sannleiksástands“ (e. post-truth condition) á blaðamennsku og lýðræði. Með því er átt við ástand þar sem tilfinningar og persónulegar skoðanir fólks ráða oft ferðinni fremur en staðreyndir og sannleikur.
„Þetta ástand er sérstaklega áberandi í stjórnmálaumræðu popúlískra leiðtoga, sem t.d. nota samfélagsmiðla til að ná tilfinningalegri tengingu við kjósendur, jafnvel þegar málflutningur þeirra byggist ekki á sannleikanum,“ útskýrir Maximilian.
Varð var við breytingar eftir fyrri forsetatíð Trumps
Kveikjan að rannsókninni varð þegar umræður um falsfréttir (e. fake news) og árásir á fjölmiðla urðu meira áberandi í pólitískri orðræðu. Sérstaklega nefnir hann að eftir fyrri forsetatíð Donalds Trump hafi þetta aukist. „Ég vildi kanna hvaða afleiðingar þetta hefur á störf blaðamanna og lýðræðislega umræðu.“
Raddir þeirra sem vantreysta fjölmiðlum að verða háværari
Maximilian segir að hlutverk fjölmiðla í lýðræðisríkjum hafi lengi verið honum hugleikið. Nefnir hann sérstaklega hvernig þeir geti stuðlað að því að stjórnvöld taki ábyrgð á gjörðum sínum og segir hann þá sömuleiðis vera verndara lýðræðis. Þótt traust almennings til fjölmiðla sé enn almennt mikið í nær öllum Evrópulöndum hafa raddir þeirra sem vantreysta fjölmiðlum orðið háværari. Í kjölfarið hefur tíðni munnlegra og líkamlegra árása á blaðamenn aukist. Maximilian bendir á að popúlískir stjórnmálamenn gegni lykilhlutverki í að kynda undir slíka afstöðu.
„Í rannsókninni skoða ég hvernig þetta vantraust hefur áhrif á störf blaðamanna og traust til fjölmiðla bæði hér á Íslandi og í stærri löndum eins og Þýskalandi og Kanada,“ útskýrir hann.
Til þess að kanna áhrifin nýtir Maximilian bæði eigindlegar rannsóknaraðferðir og atvikagreiningar (e. case studies). Hann tekur viðtöl við blaðamenn sem hafa orðið fyrir árásum og greinir aðdraganda og samhengi þeirra.
Rannsókn Maximilians hefur tvíþætt gildi. Vísindalegt gildi hennar felur t.d. í sér greiningu á hugtökum eins og „eftir-sannleiksástandinu“ og áhrifum vantrausts á lýðræðislegt samtal. Samfélagslegt gildi rannsóknarinnar felst í því að tryggja mikilvægi fjölmiðla sem gagnrýnisafls í lýðræðisríkjum. „Ef þróunin heldur áfram á sömu braut gætum við staðið frammi fyrir þeirri hættu að almennir borgarar viti ekki lengur hvað er satt og hvað ekki,“ varar Maximilian við.
Blaðamenn hafa orðið varir við auknar árásir
Frumniðurstöður úr rannsókninni benda til þess að blaðamenn í mismunandi löndum upplifi svipaðar áskoranir. Í Kanada og Þýskalandi segjast blaðamenn hafa orðið fyrir auknum árásum, bæði á samfélagsmiðlum og í raunheimum. Niðurstöður sýna að þeir hópar sem finna hvað mest fyrir áreitinu eru kvenkyns blaðamenn og blaðamenn af erlendum uppruna.
„Þó að rannsóknin á Íslandi sé enn á byrjunarstigi má sjá vísbendingar um að vantraust og árásir á fjölmiðla séu einnig til staðar hér, sérstaklega þegar fjallað er um umdeild mál,“ segir Maximilian.
Sýnir mikilvægi fjölmiðla sem gagnrýnisafls
Rannsókn Maximilians hefur tvíþætt gildi. Vísindalegt gildi hennar felur t.d. í sér greiningu á hugtökum eins og „eftir-sannleiksástandinu“ og áhrifum vantrausts á lýðræðislegt samtal. Samfélagslegt gildi rannsóknarinnar felst í því að tryggja mikilvægi fjölmiðla sem gagnrýnisafls í lýðræðisríkjum.
„Ef þróunin heldur áfram á sömu braut gætum við staðið frammi fyrir þeirri hættu að almennir borgarar viti ekki lengur hvað er satt og hvað ekki,“ varar Maximilian við.
Höfundur greinar: Ásrún Aldís Hreinsdóttir, BA-nemi í blaðamennsku.