Varði doktorsritgerð um fallmörkunarkerfið á máltökuskeiði barna
Iris Edda Nowenstein hefur varið doktorsritgerð í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist Building yourself a variable case system: The acquisition of Icelandic datives og var unnin undir leiðsögn Sigríðar Sigurjónsdóttur, prófessors í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Anton Karl Ingason, dósent við Íslensku- og menningardeild HÍ, Joel C. Wallenberg, dósent við Háskólann í York og Charles Yang, prófessor við Háskólann í Pennsylvaníu. Andmælendur við vörnina voru Miriam Butt, prófessor við háskólann í Konstanz í Þýskalandi, og Misha Becker, prófessor við háskólann í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Gauti Kristmannsson, deildarforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands föstudaginn 28. apríl.
Um rannsóknina
Íslenska fallmörkunarkerfið hefur um áratugaskeið reynst mikilvægur prófsteinn á formlegar kenningar um fall, m.a. vegna þess að íslenska hefur þann sjaldgæfa eiginleika að merkja hlutverk rökliða bæði með nokkuð fastri orðaröð og ríkulegri fallbeygingu. Íslenska þágufallið er auk þess óvenju virkt. Í ritgerðinni er sjónum beint að því hvernig börn tileinka sér þessa virkni, og íslenska fallmörkunarkerfið almennt, á máltökuskeiði. Byggt er á tilraunagögnum frá 148 börnum á aldrinum tveggja til þrettán ára auk greininga á barnamálsgagnasöfnum. Sýnt er fram á að eiginleikar íslenskrar fallmörkunar geta svarað grundvallarspurningum um það hvernig börn tileinka sér mál og móta þróun tungumálsins, auk þess sem sjónarhorn máltökunnar er ómissandi hluti af því að skýra eðli falls og tengsl þess við merkingu.
Um doktorinn
Iris Edda Nowenstein lauk BA- og MA-prófi í almennum málvísindum frá Háskóla Íslands og MS-prófi í talmeinafræði frá sama skóla. Hún starfar við rannsóknir og kennslu í Háskóla Íslands og er talmeinafræðingur á Landspítala.