Varði doktorsritgerð um orðræðu um myndlist
Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir hefur varið doktorsritgerð sína í sagnfræði, Paint like a man, woman! Women, gender and discourse on art in Iceland from the late nineteenth century to 1960, við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Háskóla Íslands.
Andmælendur við vörnina voru Jessica Sjöholm Skrubbe, dósent í listsögu við háskólann í Stokkhólmi og Benedikt Hjartarson, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Ragnheiðar Kristjánsdóttur, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands, en auk hennar sátu í doktorsnefnd Anna Jóhannsdóttir, listfræðingur hjá Listasafni Íslands, Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og Jean-Philippe Antoine, prófessor við París 8 háskólann í Frakklandi.
Sverrir Jakobsson, deildarforseti Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 3. nóvember.
Um rannsóknina
Meginmarkið þessarar ritgerðar er að greina orðræðu um myndlist á Íslandi út frá kyngervi og feminískri aðferðafræði. Lögð er áhersla á opinbera orðræðu um myndlist í blöðum og tímaritum frá síðari hluta 19. aldar og fram til ársins 1960. Færð eru rök fyrir því að orðræðan hafi verið karllæg og mótað með beinum og óbeinum hætti kynjaðar skilgreiningar á sannri íslenskri myndlist og snillingnum, hlutverki hans og gildi fyrir þjóðina. Þá sýnir rannsóknin fram á að hugmyndin um kynjamun á öllum sviðum samfélagsins hafi verið samofin listsköpun því að kyn hafi ákvarðað greiningu á verki, hvort heldur í inntaki eða formi. Ennfremur varpar ritgerðin ljósi á merkilegt framlag myndlistarkvenna í ólíkum listformum og baráttu þeirra og kvenna almennt gegn kynjaðri orðræðu (eða þöggun) og mismunun á sviði menningar og lista.
Um doktorinn
Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir lauk B.A.-prófi í sagnfræði við Háskóla Íslands (1995) og licence, maîtrise-gráðu og síðan D.E.A (Master II) í listfræði við Sorbonne háskólann í París (2013).