Verðlaun veitt fyrir þrjár bestu hugmyndirnar í áfanganum Viðskiptaáætlanir
Þrjár áætlanir nemenda í námskeiðinu Viðskiptaáætlanir við Viðskiptafræðideild, sem tengjast grænmetisræktun innan húss, kvittanakerfi og viðburðakerfi fyrir einstaklinga, hlutu viðurkenningu frá Íslandsbanka á dögunum.
Námskeiðið er kennt á öðru ári í viðskiptafræði. Markmið þess er að nemendur geti skapað og unnið með eigin viðskiptahugmyndir og lagt fram viðskiptaáætlanir í samhengi við t.d. stefnumótun fyrirtækja. Kennari í námskeiðinu að þessu sinni er Georg Andersen en Ásta Dís Óladóttir prófessor er umsjónarmaður þess.
Undanfarin ár hefur Íslandsbanki verið í góðu samstarfi við Háskóla Íslands og Viðskiptafræðideild þar sem bankinn veitir þremur bestu hugmyndunum í námskeiðinu verðlaun. Á þessu varð engin breyting í ár og fór afhending verðlauna fram við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum bankans í Kópavogi sl. þriðjudag. Fimm verkefni voru tilnefnd og valdi dómnefnd skipuð af sérfræðingum frá HÍ og Íslandsbanka þau verkefni sem urðu í 1.-3. sæti. Valið í ár var erfitt enda höfðu allar fimm hugmyndirnar erindi í þrjú efstu sætin.
Í ár var það verkefnið Pria sem hlaut fyrstu verðlaun en það snýst um nýja aðferð við að rækta grænmeti innanhús hérlendis.
Í öðru sæti varð verkefnið KvittIt sem fjallar um innleiðingu rafrænna leiða til að gefa og halda utan um kvittanir í viðskiptum.
Í þriðja sæti varð verkefnið Brall en það snýst um rafrænan vettvang fyrir einstaklinga til að safna saman upplýsingum um viðburði, menningartengda og aðra, sem gætu vakið athygli fólks.
Fjöldi athyglisverða verkefna leit ljós í áfanganum og er ljóst að ekki skortir hugmyndir í hópnum né drifkraft til að framkvæma þær. Viðskiptafræðideild ásamt þeim sem stóðu að áfanganum og Íslandsbanki óska nemendum til hamingju með góða frammistöðu.