Skip to main content
4. júní 2022

Verðlaunuð fyrir þróun leiða til að minnka umhverfisspor fiskveiða

Verðlaunuð fyrir þróun leiða til að minnka umhverfisspor fiskveiða - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ljósvörpuverkefni Optitogs ehf. hefur hlotið viðurkenningu úr Nýsköpunarsjóði dr. Þorsteins Inga Sigfússonar við Háskóla Íslands. Halla Jónsdóttir, stofnandi og rannsókna- og þróunarstjóri Optitogs, tók við viðurkenningunni úr hendi Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, við hátíðlega athöfn 2. júní síðastliðinn.

Þetta er í annað sinn sem viðurkenning er veitt úr sjóðnum en tilgangur hans er að stuðla að auknum áhuga á nýsköpun og styrkja efnilega frumkvöðla, nemendur eða vísindamenn, sem með einhverjum hætti sinna verkefnum eða rannsóknum er lúta að nýsköpun.

Ljósvörpuverkefni Optitogs ehf. hófst árið 2003 með það að markmiði að þróa leiðir til að minnka umhverfisspor fiskveiða. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að draga úr kolefnisspori togveiða og að vernda uppvaxtarsvæði nytjastofna á hafsbotni. Helmingur alls sjávarafla í Evrópu er veiddur með togvörpu og er það hlutfall enn hærra hér við land. Notkun botnvörpu liggur undir ámæli vegna áhrifa hennar á lífríki sjávarbotns og búsvæði nytjastofna. Rannsóknir og tilraunir sýna að ljósvarpa getur smalað rækju inn í togveiðarfæri án botnsnertingar en það hlífir búsvæðum á hafsbotni, sparar eldsneyti og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrirtækið nýtir gervigreind til að meta smölunarhæfni ljósa fyrir aðra nytjastofna. 

Sagan á bak við verkefnið

Frumkvöðlar verkefnisins eru Einar Hreinsson, Geir Guðmundsson og Halla Jónsdóttir. Halla, sem er fiskisjúkdómafræðingur, hefur m.a. unnið í fiskeldi og hjá henni vaknaði sú hugmynd hvort hægt væri að smala fiski með því að nota tækni og skynfæri fisksins. Þegar Halla viðraði þessar hugmyndir kom fljótt í ljós að Einar Hreinsson veiðafærafræðingur og Geir Guðmundsson verkfræðingur voru með svipaðar hugmyndir. Úr varð að láta reyna á það hvort hægt væri að nota ljós til þess að smala fiski. Torfi Þórhallsson verkfræðingur bættist svo í hópinn en hann hafði þekkingu á smíði og stjórn ómannaðra djúpfara. Tilraunaveiðar leiddu fljótt í ljós að þessi möguleiki væri fyrir hendi og nú hafa frekari rannsóknir og tilraunir sýnt að ljós smalar tvöfalt meira inn af rækju þegar veitt er án botnsnertingar.  

Meðal þeirra fjölmörgu sem hafa komið að verkefninu eru Þorsteinn Ingi Sigfússon, Kristján Leósson, Guðmundur Þórðarson, Einar Valur Kristjánsson, Jón Davíðsson, Haukur Hafsteinsson, Kristján Guðmundsson, Valur Einarsson, Hjalti Karlsson, Arnþór Kristjánsson, Haraldur Einarsson, Jón Snorrason, Þórarinn Pálsson, Örn Hrafnsson og Gunnar Jóhannsson. 

Fyrstu notendur eru verkefninu dýrmætir og hafa útgerðin Tjaldtangi, sem gerir út rækjutogarann Klakk ÍS, og áhöfn reynst aðstandendum Optitogs mikilvægustu bandamennirnir. Sérstakar þakkir fá einnig Hafrannsóknastofnun, Háskólinn í Reykjavík, Tæknisetur Íslands, Sjávarklasinn og Tækniþróunarsjóður fyrir stuðning við verkefnið.

Vefsíða Optitogs

Fjöldi manns kom saman í Hátíðasal þegar viðurkenning var veitt úr Nýsköpunarsjóði dr. Þorsteins Inga Sigfússonar. Þeirra á meðal voru forystufólk Optitogs og stofnendur, stór hópur sem komið hefur að þróun hugmyndarinnar, fjölskylda Þorsteins Inga, rektor og stjórn sjóðsins. MYND/Gunnar Sverrisson

Um sjóðinn

Nýsköpunarsjóður dr. Þorsteins Inga Sigfússonar var stofnaður 4. júní 2020 til minningar um dr. Þorstein Inga Sigfússon (f. 4. júní 1954, d. 15. júlí 2019). Stofnandi sjóðsins er Bergþóra K. Ketilsdóttir, ekkja Þorsteins Inga.

Þorsteinn Ingi lauk doktorsnámi í eðlisfræði frá Cambridge-háskóla í Englandi árið 1983. Hann hóf störf sem fræðimaður við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands árið 1982 og síðar sem prófessor í eðlisfræði við háskólann. Þorsteinn Ingi vann ötullega að tengingu háskóla og atvinnulífs og kom að stofnun og stjórnarmennsku sprotafyrirtækja á mörgum sviðum. Hann var frumkvöðull á sviði orkurannsókna á Íslandi og beitti sér ötullega í baráttunni við að draga úr losun koltvíoxíðs í andrúmslofti. Þorsteinn Ingi varð forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við stofnun hennar 2007. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir vísindastörf og framlag til hátækniatvinnugreina og hlaut rússnesku Alheimsorkuverðlaunin árið 2007 fyrir framlag sitt til vetnismála.

Stjórn sjóðsins skipa Hermann Kristjánsson, verkfræðingur og frumkvöðull sem er formaður stjórnar, dr. Þór Sigfússon hagfræðingur og dr. Guðrún Pétursdóttir, dósent við Háskóla Íslands. Áætlað er að úthluta árlega úr sjóðnum á afmælisdegi Þorsteins Inga.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 

Halla Jónsdóttir, stofnandi og rannsókna- og þróunarstjóri Optitogs, tók við viðurkenningunni úr hendi Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, í Hátíðasal Aðalbyggingar. MYND/Gunnar Sverrisson