„Við ætlum að vera þessi hjón!“
Hjónin Fannar Ásgrímsson og Þorbjörg Sandra Bakke vöktu heldur betur athygli og gleði þegar þau kysstust á sviðinu í Háskólabíói eftir að hafa tekið við skírteinum við brautskráningu frá Endurmenntun HÍ fyrir skömmu. Ljósmyndarinn Heiða Dís Bjarnadóttir náði þessari skemmtilegu mynd af „gjörningnum“. Fannar og Þorbjörg höfðu sannarlega ærna ástæðu til að fagna sérstaklega því þau voru að útskrifast úr sama námi, verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun. Það var annað námið sem þau klára saman því þau kynntust í siðfræði í Háskóla Íslands fyrir níu árum.
„Við kynntumst í lok árs 2014 í meistaranámi í hagnýtri siðfræði við HÍ sem við tókum samhliða vinnu og barneign og kláruðum fjórum árum síðar. Stóri munurinn þá og núna er að við gátum verið viðstödd brautskráninguna í ár en ekki 2018 því við giftum okkur sama dag og á sama tíma og útskriftin var í HÍ,“ rifjar Fannar upp.
Hjónin eru ólík en þó samstíga og vegna góðrar reynslu af því að vera á sama tíma í námi þá hafi ákvörðunin um að skrá sig í Endurmenntun verið einföld. „Það er gott að hafa einhvern í lok dags til að ræða við og spegla það sem maður er búinn að læra yfir daginn. Við höfum sérstaklega góða reynslu af því og viljum meina að það geti dýpkað námið,“ segir Fannar og bætir glettinn við að þó sé gott að setja ákveðinn fyrirvara á að mæla með slíkri ákvörðun, því mikilvægt er að pör séu samrýnd og styðji hvort annað velji þau að fara þessa leið því ekki sé hægt að bjóða samnemendum upp á hjónaerjur í tíma. Þorbjörg grípur fimlega þennan bolta og segir: „Það er kannski líka bara ákvörðun að vera samrýnd, meðvitað styðja hvort annað, vera saman í liði og ákveða: Við ætlum að vera þessi hjón!“
Mjög ólík en mjög samrýnd
Við spurðum hvers vegna þau völdu verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun. „Mig langaði í nám með vinnu sem myndi efla mig í starfi og fann þetta og sá að það gæti ekki síður hentað Fannari en mér. Þótt við komum úr ólíkum geirum þá er margt í okkar starfi sambærilegt. Við höldum utan um verkefni og ýtum þeim áfram,“ segir Þorbjörg, en hún er teymisstjóri í teymi hringrásarkerfis hjá Umhverfisstofnun og hefur lengi starfað við umhverfistengd verkefni sem flest snúa að fræðslu og hvatningu til stofnana, fyrirtækja og einstaklinga um að gera betur í umhverfismálum.
Fannar stýrir verkefnum tengdum viðskiptaþróun og markaðsmálum hjá Sjóvá. Hann lærði og kenndi hljóðupptöku á Spáni, tók japönsku í HÍ og heimspeki sem aukafag og hefur aðallega starfað við vefhönnun og í hugbúnaðargeiranum. „Ég er meira úti um allt í mínum störfum og áhugasviðin eru víða. Það er því gott að hafa svona staðfasta manneskju á heimilinu með skýran fókus um að gera heiminn betri,“ segir Fannar og Þorbjörg svarar um hæl: „Hann er reyndar duglegur við að koma umhverfisboðskap og mínum hjartans málum á framfæri um víðan völl!“ Þau hlæja og samheldnin skín frá þeim.
Hvað stendur upp úr í náminu?
Þorbjörg: „Mér finnst ég sjálfsöruggari í því sem ég fæst við. Ég var að gera svipaða hluti og fyrir námið en fer nú með meiri vissu inni í verkefnin. Auðvitað lærði ég margt nýtt en ég er fyrst og fremst orðin öruggari í því sem ég kunni fyrir. Það er líka ótrúlega gaman að skilja betur samskipta- og leiðtogafærni. Vita betur hvað virkar og hvers vegna.“
Fannar: „Ég fór í þetta nám til að bæta í verkfærakistuna í tengslum við verkefnastjórnun. Ég vinn hratt og er ör og hef stundum þurft að treysta á fólk í kringum mig varðandi utanumhald. Tól verkefnastjóra eru fjölbreytt en það sem ég komst að í náminu er að það mikilvægasta í þessu öllu er að gefa sér tíma í að nota þau. Ef maður tekur ekki frá þennan auka tíma sem góð og vönduð skipulagning og utanumhald verkefna krefst er voðinn vís.“
Viðhorf vinnuveitenda mikilvæg
Þótt Þorbjörg og Fannar starfi á ólíkum vettvangi mættu þau bæði miklum skilningi og hvatningu vinnuveitenda sinna hjá Umhverfisstofnun og Sjóvá. Fannar segir að án þess hefðu þau líklega ekki lagt í þessa vegferð. Miklu máli skipti að vinnuveitendur séu reiðubúnir að styðja við starfsfólk sitt. Þorbjörg tekur undir þetta og bætir við að verklagi á hennar vinnustað sé þannig háttað að í starfsmannasamtölum sé spurt: „Hvaða endurmenntun ætlar þú að fara í á árinu?“. Hún segir það mjög góða hvatningu og upplifir að það sé beinlínis gert ráð fyrir því að fólk sé alltaf að vinna í því að efla sig.
Þorbjörg vekur máls á því að ef hún hefði verið ein í náminu án Fannars þá hefði hún að öllum líkindum haft mikið samviskubit gagnvart heimilinu. Saman eiga þau dótturina Steinunni (6 ára) og Urði (að verða 11 ára), sem Fannar átti úr fyrra sambandi. „Með því að skrá okkur bæði í námið vorum við laus við samviskubit og allt heimilið undir. Hvorugt okkar var með óraunhæfar væntingar til hins, við vorum bara oftar með frosnar pítsur í matinn og aðeins meira drasl heima fyrir. Stúlkunum okkar fannst það ekkert verra enda elska þær pítsur.“ Í hópavinnu sem fór fram í náminu hafi þó hentað ágætlega að vera ekki saman í hóp. „Við náðum að kynnast betur samnemendum og tókumst á við ólíkar áskoranir í verkefnavinnunni. Það hefði líka verið mikið púsl með pössun ef við hefðum verið saman í hóp þar sem hópavinna fór oftar en ekki fram utan vinnutíma,“ segir Fannar og leggur áherslu að vel hafi verið haldið utan um námið hjá Endurmenntun HÍ. „Mjög flott starf og frábært að hægt sé að bæta við sig menntun samhliða vinnu og fjölskyldulífi.“
Lokaverkefnið er þjóðarátak
Gaman er að geta þess að samheldni hjónanna nær einnig inn í félagslífið því þau hafa verið saman í kór meira og minna síðan árið 2015. „Við vorum búin að hittast í innan við ár þegar vinkona Þorbjargar hvatti okkur til að koma í kór. Kórinn sem um ræðir heitir Hljómfélagið og hefur okkur þótt ótrúlega gaman að taka þátt í kórastarfinu saman.“ segir Fannar.
Þorbjörg endar viðtalið á fallegan og hugvekjandi hátt: „Ég held að það skipti svo miklu máli fyrir hamingjuna að halda alltaf áfram að efla sig, t.d. í gegnum nám og hvað þá svona saman. Ég hef mikinn áhuga á því að skilja hvað það er sem eflir velferð fólks. Ég myndi segja að það væri meðal annars samvinna, samvera, náin samskipti, sköpun, hreyfing, útivera og nægjusemi sem svo heppilega vill til að helst vel í hendur við umhverfismálin“.
Lokaverkefni hennar hóps í náminu tengdu þau starfi hennar hjá Umhverfisstofnun sem einnig hangi vel saman við þetta. „Hópurinn minn hjálpaði mér að vinna verkefnaáætlun fyrir verkefni sem byggist á aukinni nægjusemi, þekkingu, sköpun og samvinnu. En það er partur af átakinu Saman gegn sóun og snýr að því að halda hugmyndasmiðju og hagsmunaaðilafund um raftæki og leiðir til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum þeirra.“
Skráningarfrestur til að sækja um í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun er til og með 26. júní. Allar nánari upplýsingar má finna hér.