Viljayfirlýsing um samstarf á sviði geimrannsókna
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Daniel Leeb, framkvæmdastjóri Geimvísindastofnunar Íslands (Iceland Space Agency - ISA), sem er einkaaðili, hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf á sviði geimrannsókna. Viljayfirlýsingin felur líka í sér að leitað verði samstarfs við vísindamenn á þessu sviði innan alþjóðlegra stofnana eins og Geimferðastofnunar Bandaríkjanna (NASA) og Evrópsku geimferðastofnunarinnar (ESA).
Í viljayfirlýsingunni felst m.a. að skoðaður verði fýsileiki þess að setja á stofn sérstaka geimrannsóknastofnun hér á landi. Ætlunin með viljayfirlýsingunni er jafnframt að skapa nemendum í framhaldsnámi og nýdoktorum við HÍ tækifæri á þessu sviði með möguleg nemenda- og starfsmannaskipti við erlendar rannsóknastofnanir í huga. Jafnframt gerir viljayfirlýsingin ráð fyrir að Háskólinn og ISA vinni saman að því að skapa nemendum á öllum skólastigum tækifæri á sviði STEAM-greina í gegnum tengsl ISA við NASA og verkefni tengd reikistjörnufræðum.
Innan Háskóla Íslands býr mikil þekking í fræðigreinum sem tengjast geimrannsóknum með ýmsum hætti, svo sem á sviði fjarkönnunar, jarðvísinda, náttúruvísinda og gervigreindar. ISA hefur enn fremur að undanförnu byggt upp sérþekkingu og öflugt tengslanet á sviði geimvísinda.
Þá hefur Ísland og íslensk náttúra um langt skeið verið vettvangur fyrir bæði undirbúning geimfara fyrir geimferðir og prófanir á ýmiss konar farartækjum og tækni sem nýta á í geimnum. Þetta hefur komið Íslandi á kortið sem ákjósanlegum vettvangi fyrir geimkönnun og -rannsóknir og því eru ýmis tækifæri til að efla þennan þátt í íslensku samfélagi og koma Íslandi á kortið sem alþjóðlegum samstarfsaðila í geimvísindum.
Við þetta má bæta að í júní mun Iceland Space Agency vinna með vísindamönnunum dr. Elizabeth Rampe, dr. Fiona Thiessen og dr. Michael Thorpe úr sameiginlegu vísindateymi NASA og ESA, Mars Sample Return (MSR), sem koma hingað til lands til að safna íslenskri berghulu (e. regolith) sem nýtast mun til að undirbúa það flókna ferli sem felst í greiningu á sýnishornum frá Mars sem berast munu til Jarðar á næsta áratug. Hluti sýnanna, sem safnað verður hér, verður geymdur hjá Háskóla Íslands til frekari greiningar en ISA hyggst jafnframt bjóða áhugasömum nemendum og starfsfólki til viðburða með erlenda vísindahópnum að loknum leiðangrinum hér á landi. Mars Sample Return er líklega metnaðarfyllsti vísindaleiðangur sem NASA og ESA hafa unnið að í sameiningu en vísindanlegur ávinningur hans felst ekki bara í auknum skilningi á Mars heldur getur hann einnig veitt okkur betri upplýsingar um möguleika á lífi á öðrum hnöttum. Það er mikill heiður fyrir Ísland að gegna litlu hlutverki í þessum mikla leiðangri, en þetta samstarf undirstrikar vel markmið viljayfirlýsingarinnar og er fyrsta skrefið á þeirri vegferð.
„Geimrannsóknir og -könnun hafa í gegnum tíðina verið og munu halda áfram að vera drifkraftur ýmiss konar nýsköpunar í samfélögum. Þessi viljayfirlýsing mun styðja við það að koma Íslandi á kortið sem leiðandi aðila á alþjóðavettvangi á sviði sjálfbærrar þróunar tækni og rannsókna sem nýta má á Tunglinu og Mars en munu á endanum hafa mest áhrif hér á Jörðu,” segir Daniel Leeb, framkvæmdastjóri Geimvísindastofnunar Íslands (Iceland Space Agency - ISA).