Vinna að þróun plásturs gegn handarslitgigt
Handarslitgigt er afar algengur sjúkdómur og tengist skemmdum í liðamótum í fingrum. Sjúkdómurinn er algengari hjá konum en körlum, en talið er að allt að 15% kvenna glími við sjúkdóminn og honum fylgja bæði sársauki og fötlun. Í þverfræðilegu verkefni vísindamanna við Lyfjafræðideild og Læknadeild er nú unnið að því að þróa plástur sem vonast er til að geti linað þjáningar þeirra sem glíma við þessa skæðu gigt.
„Þeir meðferðarmöguleikar við slitgigt í höndum sem til eru í dag snúast aðeins um að meðhöndla verki hjá sjúklingum en í þessu verkefni er markmið að ná að hafa áhrif á framgang sjúkdómsins,“ segir Bergþóra S. Snorradóttir, lektor við Lyfjafræðideild, sem vinnur að verkefninu ásamt Helga Jónssyni, prófessor í gigtarlækningum, sem hefur verið leiðandi sérfræðingur á sviði handaslitgigtar um árabil.
Rannsóknir Helga í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu hafa m.a. leitt í ljós að tiltekinn breytileiki í erfðaefni fólks eykur líkurnar á alvarlegri handarslitgigt verulega. Breytileikinn tengist myndun boðefnis sem nefnist retínósýra en nýlegar rannsóknir benda til að þess að efnið, eða öllu heldur skortur á því, gegni meginhlutverki í þróun á slitgigt í höndum. „Retínósýra hefur hormónalíka virkni sem stjórnar virkjun þúsunda gena sem miða að því að varðveita líkamsvef, þar með talið brjósk og bein. Genatjáning á algengasta formi retínósýru minnkar í slitgigtarliðum og bæði rannsóknastofu- og dýrarannsóknir hafa sýnt að grunntjáning annarra gena er háð retínósýru,“ útskýrir Helgi.
Hugmyndin með verkefninu er að reyna að koma lyfjum sem hafa áhrif á retínósýru í gegnum húð og inn í lið og þar kemur sérþekking Bergþóru til sögunnar. „Ég hef þekkingu á þróun á húðlyfjaformum, reynslu við flutning lyfja í gegnum húð og í greiningaraðferðum svo við erum gott teymi til að taka þetta áfram,“ segir Bergþóra sem sló til þegar Helgi leitaði til hennar um samstarf.
„Markmiðið er sem sagt að kanna hvort hægt sé að koma retínósýruafleiðum í gegnum húðina inn í liðinn með því að útbúa krem og fylla þrívíddarprentaða bakhlið af geli og loka með límlagi,“ segir Helgi en til rannsóknarinnar nota þau svínshúð og mæla losun afleiðanna í gegnum hana.
Lyfjafræðideild á þrívíddarprentara sem notaður verður í verkefnið en hann þykir einstaklega góður til að prenta bakhlið á plástri. „Losunarpróf verða gerð með svokölluðum Frans-flæðisellum þar sem svínshúðinni verður komið fyrir og svo verður lyfjaplástur settur ofan á húðina. Í framhaldinu mælum við svo magn lyfs sem losnar úr plástrinum,“ segir Bergþóra og bætir við að svínshúð henti afar vel til verksins þar sem hún er lík mannshúðinni.
Þau Helgi og Bergþóra benda enn fremur á að kostir staðbundinar lausnar eins og plásturs séu ótvíræðir. Með slíkum aðferðum megi draga úr líkum á aukaverkunum sem oft fylgi umfangsmeiri meðferðum. Enn fremur segja þau að þó að handarslitgigt leggist á marga liði sé ástandið sveiflukennt og oftast sé sjúkdómurinn virkastur og gefi mest einkenni frá 1-3 liðum á hverjum tíma.
Verkefnið er skammt á veg komið en tveir nemendur hafa unnið að því síðustu mánuði, þær Helena Hamzehpour, sem ráðin var fyrst til verksins með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna í sumar, og Ástrós Óskarsdóttir, sem vinur að meistarverkefni tengt rannsókninni. „Forprófanir úr sumarverkefninu liggja fyrir og eru vænlegar en það þarf að endurtaka og kanna áreiðanleika þeirra. Meistaraverkefnið sem er í gangi núna ætti að geta skorið úr um það,“ segir Bergþóra að endingu um framhald verkefnisins.