Skip to main content
13. nóvember 2024

Vísbendingar um bætta líðan barna í Íslensku æskulýðsrannsókninni

Vísbendingar um bætta líðan barna í Íslensku æskulýðsrannsókninni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísbendingar eru um bætta líðan og velferð barna á Íslandi í nýjum niðurstöðum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sem Menntavísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir mennta- og barnamálaráðuneytið og kynnt var á fjölsóttu málþingi í Hátíðasal Aðalbyggingar HÍ í gær. Niðurstöðurnar draga enn fremur fram mikilvægi þess að efla áframhaldandi stuðning, sérstaklega til að mæta áskorunum á sviði stafræns öryggis, andlegrar heilsu eldri stúlkna og félagslegrar stöðu barna á öllum aldri. Á málþinginu undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra enn fremur samning um áframhaldandi samstarf mennta- og barnamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands á vettvangi Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar með auknu fjárframlagi til rannsóknarinnar.

Markmið Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar er að fylgja eftir innleiðingu og stefnumótun hinna svokölluðu farsældarlaga, sem leggja grunn að nýju verklagi sem tryggir börnum og ungmennum sem þurfa á stuðningi að halda samþætta þjónustu og snemmtækan stuðning.

Á málþinginu í gær, sem bar yfirskriftina „Hvað segja börn og ungmenni um styrkleika og áskoranir í lífi sínu“, ræddu aðstandendur rannsóknarinnar, fulltrúar úr ráðuneyti og frá sveitarfélögum, kennarar og annað fagfólk sem vinnur með börnum og börnin sjálf um niðurstöðurnar og hægt er að nálgast upptöku af málþinginu hér að neðan.

Niðurstöður rannsóknanna sýna m.a. merki um breytingar til batnaðar á andlegri líðan barna og virka þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi, að þeim líður vel í skólanum og eiga sterkt vinanet. Á sama tíma sýna gögnin hvar frekari aðgerða er þörf, sérstaklega varðandi stafrænt öryggi, einelti meðal yngri barna og áhrif samfélagsmiðla.

„Það er mikið gleðiefni að sjá jákvæð merki í tölum um ýmsa þá velferðarþætti sem unnið hefur verið svo ötullega að bæði í stefnumótun en jafnframt á vettvangi af fagfólki með börnum og ungmennum. Þrátt fyrir að alltaf sé verk að vinna á einhverjum vígstöðum þá sjáum við á niðurstöðunum hvað samtakamátturinn getur skilað okkur,“ segir Ragný Þóra Guðjohnsen, faglegur stjórnandi Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar.

„Niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar í ár gefa okkur vísbendingar um að farsældarlögin séu að virka, andleg heilsa og líðan barna og ungmenna fer batnandi. En við megum hvergi slaka á. Það er nauðsynlegt að ná að grípa betur öll börn, hvar sem þau eru og við hvaða aðstæður sem þau búa. Það er mitt helsta verkefni og er ástæðan fyrir því að ég er í stjórnmálum,“ segir Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra handsala samning um áframhaldandi samstarf mennta- og barnamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands á vettvangi Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar. MYND/Kristinn Ingvarsson

Helstu niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar

Menntun

Um 90% barna og ungmenna telja mikilvægt að leggja sig fram í námi og meira en 85% þeirra líður vel í skólanum. Rétt um 70% nemenda upplifa að kennurum þeirra þyki vænt um þau. Hlutfall ungmenna í 10. bekk sem mætir þreytt í skólann hefur lækkað um 9% miðað við mælingu 2022, og er í dag 41%. Um 13% ungmenna sögðust hafa skrópað í heilan dag einu sinni eða oftar síðastliðnar 2 vikur. Með hækkandi aldri sögðust fleiri nemendur taka virkan þátt í að skipuleggja skólaviðburði (47% í 6. bekk en 60% í 10. bekk). 

Félagsleg tengsl og þátttaka í íþróttum og tómstundum

Félagsleg tengsl barna og þátttaka í skipulögðum athöfnum, eins og íþróttum og tómstundum, eru mikil samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Börn í yngri bekkjum sækja í auknum mæli íþróttir og tómstundastarf. Nánast öll börn sögðust eiga vini og meirihluti nemenda þvert á árganga telur sig eiga auðvelt með að eignast nýja vini (78% í 6. bekk, 77% í 8. bekk og 76% í 10. bekk). 

Eftir COVID-19 hefur verulega dregið úr einmanaleika sem endurspeglar jákvæða þróun í félagslegri líðan barna. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun er einmanaleiki algengari hjá eldri stúlkum en drengjum og mikilvægt er að veita þessum hópi sérstakan stuðning til að tryggja jafna félagslega stöðu og vellíðan þeirra.

Aukinn áhugi á heilsueflingu og hreyfingu

Rúmlega 90% barna og ungmenna í 6.–10. bekk á Íslandi lýsa heilsu sinni sem mjög góðri. Þau hreyfa sig mikið á yngri árum (83%), þar sem drengir taka oftar þátt í hópíþróttum en stúlkur frekar í einstaklingsíþróttum. Þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi dregst saman í 10. bekk (58%) en á móti eykst þátttaka í líkamsrækt, sem styður við heilbrigðan lífsstíl á unglingastigi.

Vísbendingar um bætta andlega heilsu 

Vísbendingar eru um að andleg heilsa barna á Íslandi hafi batnað síðustu tvö ár. Niðurstöður sýna lækkun í tíðni kvíða og depurðar í öllum árgöngum – ekki síst meðal yngri barna. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun bendir rannsóknin til að bregðast verði sérstaklega við líðan unglingsstúlkna. Þótt mælingar sýni betri stöðu milli ára finnur enn um helmingur stúlkna í 10. bekk reglulega fyrir einkennum depurðar.

Stafrænt öryggi og áskoranir vegna samfélagsmiðla

Samfélagsmiðlanotkun er útbreidd meðal íslenskra barna og rannsóknin sýnir að um og yfir helmingur nemenda á erfitt með að minnka notkun sína. Um þriðjungur ungmenna í 10. bekk upplifir vanlíðan þegar þau hafa ekki aðgang að samfélagsmiðlum og stúlkur eru sérstaklega viðkvæmar fyrir þessum áhrifum. Þá hafa 53% stúlkna í 10. bekk fengið beiðni um að senda nektarmyndir, sem er lækkun um 5% frá árinu áður en undirstrikar samt sem áður þörf á aukinni fræðslu um stafrænt öryggi.

Félagsleg staða og stuðningur fjölskyldu

Almennt upplifa íslensk börn sterkan félagslegan stuðning og öryggi. Um 90% ungmenna töldu sig fá þann tilfinningalega stuðning sem þau þurfa frá fjölskyldu sinni. Yfir 80% barnanna sagðist eiga auðvelt eða mjög auðvelt með að tala við foreldra sína. Stór hluti barna sagðist borða kvöldmat með foreldrum sínum en með hækkandi aldri dró úr því og var hlutfallið 70% í 10. bekk. Um 88% barna í 6. bekk upplifa fjárhagslega stöðu fjölskyldu sinnar góða. Launuð vinna barna í 10. bekk minnkar milli ára.

Öryggi

Um 90% barna upplifa öryggi í nærumhverfi sínu en rannsóknin sýnir einnig að stúlkur finna fyrir minna öryggi en drengir. Á sama tíma sýna niðurstöðurnar að tíðni eineltis fer minnkandi. Árið 2023 höfðu 12% 6. bekkinga upplifað einelti, en 8% nú. Tíðni eineltis mælist lægra í 10. bekk, þar sem einungis 4% ungmenna segjast hafa upplifað einelti nýlega. 

Þótt slagsmál séu algengari meðal yngri drengja en stúlkna sýna gögnin að tíðni þeirra minnkar verulega með aldri. Notkun nikótínpúða og rafsígaretta lækkar lítillega milli ára en notkun rafsígaretta er næstum tvöfalt meiri hjá stúlkum en drengjum í 10. bekk. Um 3% barna í 8.-10. bekk segjast hafa komið með hníf í skólann en tæplega 1% þeirra í þeim tilgangi að verja sig eða skaða aðra. Undirstrikar þetta mikilvægi áframhaldandi forvarna og stuðnings sem tryggir að börn og ungmenni upplifi öruggt og styðjandi umhverfi, bæði í skólanum og heima.

Fjárfesting í börnum

Niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar 2024 sýna jákvæða þróun í líðan og velferð barna og ungmenna á Íslandi. Samhliða styðja gögnin við frekari stefnumótun og fjárfestingu í að takast á við áskoranir sem til staðar eru, ekki síst hvað varðar börn í viðkvæmum hópum. Vísbendingar eru til staðar í gögnunum að áhrif úrræða og aukins stuðnings í þágu barna séu að skila sér í betri andlegri líðan og félagslegri þátttöku. Niðurstöðurnar draga enn fremur fram mikilvægi þess að efla áframhaldandi stuðning, sérstaklega til að mæta áskorunum á sviði stafræns öryggis, andlegrar heilsu eldri stúlkna og félagslegrar stöðu barna á öllum aldri. 

Ragný Þóra Guðjohnsen, faglegur stjórnandi Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar.
Gestir á kynningu rannsóknarniðurstaðnanna
Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs
Ásmundur Einar Daðason og Kolbrún Pálsdóttir.
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra opnaði málþingið.
Gestir á málþinginu
Gestir á málþinginu
Þátttakendur í málþinginu
Þátttakandi í málþinginu