Vísindagarðar og Græni iðngarðurinn bjóða frumkvöðlum aðstöðu til nýsköpunar
Fulltrúar Háskóla Íslands, Vísindagarða HÍ og Græna iðngarðsins (Iceland EcoBusiness Park - IEBP) undirrituðu á dögum viljayfirlýsingu um samstarf á sviði nýsköpunar en markmið hennar er m.a. að tengja saman grunnrannsóknastarf vísindasamfélagsins á Íslandi og atvinnulíf.
Samningurinn hverfist ekki síst um það að skapa frumkvöðlum í hringrásarhagkerfinu aðstöðu til að þróa hugmyndir sínar og byggja upp nýsköpunarfyrirtæki. Mýrin, nýsköpunarsetur Vísindagarða HÍ í Grósku, veitir frumkvöðlum sem eru að taka sín fyrstu skref aðstöðu og þá geta frumkvöðlar einnig fengið mikilvæga framleiðslu- og rannsóknaaðstöðu hjá IEBP í Helguvík á Reykjanesi sem hefur verið í uppbyggingu undanfarið ár. Hyggjast þessir aðilar vinna saman að því að kynna þá aðstöðu sem stendur fólki til boða og byggja upp tengslanet við aðra hagaðila innan nýsköpunarumhverfisins á Íslandi.
Í húsakynnum IEBP mun frumkvöðlum bjóðast aðstaða til tilrauna, þróunar og framleiðslu jafnt í smáum sem stórum rýmum og það gerir sprotafyrirtækjum kleift að stækka eftir þörfum. Jafnframt munu Vísindagarðar HÍ sjá til þess að frumkvöðlar innan IEBP eigi greiðan aðgang að tengslaneti garðanna auk þess sem Vísindagarðar munu liðsinna þeim við að styrkja tengsl við fólk í rannsókna- og nýsköpunarumhverfi Háskóla Íslands og Vísindagarða.
Markmiðið er að efla nýsköpun hér á landi enn frekar og þannig skjóta fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf, ekki síst á sviði hringrásarhagkerfisins.
Viljayfirlýsinguna undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, Þór Sigfússon, stofnandi og formaður Græna iðngarðsins, og Þórey Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Vísindagarða HÍ.