Skip to main content
23. febrúar 2024

Vísindarannsóknir draga úr óvissu og efla farsæld

Vísindarannsóknir draga úr óvissu og efla farsæld - á vefsíðu Háskóla Íslands
  • 423 brautskráðir frá HÍ á öllum fræðasviðum 
  • Afar brýnt að tryggja háskólum fjárhagslegt sjálfstæði
  • Hver kynslóð skili af sér betri jörð en hún tók í arf
  • Stöndum vörð um mikilvæg mannréttindi

„Vísindarannsóknir hafa gert okkur kleift að draga úr margvíslegri óvissu og læra að lifa með henni,“ sagði Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands í ávarpi sínu í dag þegar 423 brautkráðust frá skólanum í Háskólabíói. Hann vék ítrekað að mikilvægi þekkingarleitarinnar í erindi sínu enda er Háskóli Íslands rannsóknaháskóli sem starfar í alþjóðlegu umhverfi þar sem grunnrannsóknir hafa veruleg áhrif á velferð samfélagsins. Í því sambandi nefndi Jón Atli sérstaklega rannsóknir á umbrotahrinunni sem staðið hefur með hléum á Reykjanesi frá því í marsmánuði árið 2021. Þar hefur jarðvísindafólk þjóðarinnar verið vakið og sofið við að rannsaka jarðskorpuhreyfingar og upplýsa stjórnvöld og almenning um þær áskoranir sem hugsanlegar eru hverju sinni. 

Jón Atli sagði að það hefði aukið trúverðugleika vísindafólks okkar og virðingu fyrir háskólamenntun almennt, hversu óþreytandi vísindafólkið hefði verið að útskýra forsendur fræða sinna. 

„Um leið vekur athygli hversu fúst vísindafólkið er að viðurkenna takmörk þekkingar sinnar. „Við einfaldlega vitum það ekki,“ er stundum eina svarið við spurningum fréttamanna. Þótt þekkingarleitinni ljúki eðli máls samkvæmt aldrei, eru rannsóknir á öllum sviðum náttúru, sögu, samfélags, heilbrigðis, menntunar og menningar grundvöllur velferðar okkar í nútíð og framtíð.“
 
Jón Atli sagði að vitaskuld væri þungbært að glíma við erfiðleika sem ekki sæi fyrir endann á. „Það á sérstaklega við um íbúana á Reykjanesi og ekki síst Grindvíkinga sem eru í óvissu um framtíð sína. Á þessari stundu er hugur okkar hjá öllu því fólki sem er að kljást við afleiðingar náttúruhamfara á Reykjanesi.“

Fjárhagslegt sjálfstæði háskólanna og traust lagaleg umgjörð háskólastarfsins

Tilhögun fjármögnunar háskólastarfs hefur verið mjög í umræðunni að undanförnu og sagði Jón Atli í ræðunni það afar brýnt að skapa háskólum fjárhagslegt sjálfstæði og trausta lagalega umgjörð til að þeir geti áfram leikið lykilhlutverk í að tryggja farsæld. 

„Miklu skiptir að stefna stjórnvalda um háskólastigið, vegvísir okkar til farsællar framtíðar, sé mótuð til langs tíma í sátt við hagaðila. Grundvallarbreytingar á tilhögun háskólanáms hérlendis verða að vera vel kynntar og ræddar ítarlega áður en þeim er hrint í framkvæmd,“ sagði háskólarektor.  

Hann vitnaði einnig til nýlegrar yfirlýsingar Samtaka evrópskra háskóla, EUA, þar sem brýnt er fyrir stjórnvöldum álfunnar að opna leið háskóla til samstarfs þvert á þjóðlönd, „í stað þess að takmarka, hefta og einangra. … Farsæld þjóða hefur að miklu leyti ráðist af því hversu vel þeim hefur tekist að tileinka sér hugsjónir og grunngildi háskóla.“ 

Háskólarektor vitnaði í sömu yfirlýsingu háskólasamtakanna þegar hann hvatti stjórnvöld hér á landi til að ná markmiðum um að veita a.m.k. þremur prósentum af vergri landsframleiðslu til rannsókna og nýsköpunar og a.m.k. tveimur prósentum til æðri menntunar.  

„Hér geta íslensk stjórnvöld gert betur,“ sagði rektor.  

„Með því sýnum við í verki þakklæti okkar gagnvart fyrri kynslóðum sem lögðu grunninn fyrir okkur og við leggjum á sama hátt komandi kynslóðum lið með okkar eigin hugsunum og verkum. … Þannig styrkist sáttmáli kynslóðanna um að hver þeirra skili af sér betri jörð en hún tók í arf,“ sagði rektor m.a. í ræðu sinni. MYND/Kristinn Ingvarsson

Stöndum vörð um réttindi sem okkur kunna að þykja sjálfsögð

Í ávarpi sínu í dag vék Jón Atli einnig að áskorunum samtímans og sagði því fjarri fara að heimsbyggðin liti almennt björtum augum til framtíðar. „Fjölþjóðlegar rannsóknir sýna að stórir hópar fólks kvíða komandi tímum.“ Hann sagði brýnt að taka þessar áhyggjur alvarlega en við yrðum einnig að beina sjónum að öllu því sem áunnist hefur í krafti rannsókna á síðustu árum og áratugum. Í því sambandi nefndi hann árangur í baráttunni við fátækt, hungur, ójöfnuð, sjúkdóma og umhverfisvá. Baráttu fyrir bættum heimi á þessum sviðum væri þó langt í frá lokið.

„Rannsóknir sýna að umburðarlyndi hefur aukist fyrir ólíkum skoðunum,“ sagði háskólarektor, „og því hvernig hvert og eitt okkar kýs að haga lífi sínu. En ekkert af þessu er sjálfgefið og við þurfum sífellt að standa vörð um þau réttindi sem okkur kunna að þykja sjálfsögð. Víða um heim býr fólk sem ekki getur tjáð hug sinn og skoðanir án þess að þurfa að eiga von á að mæta hrikalegum afleiðingum.“  

Hlúum að sérstöðu háskólastarfsins 

Jón Atli vék einnig að traustinu í ávarpi sínu og sagði engan ávinna sér traust á skömmum tíma en því væri hins vegar hægt að glata á augabragði. Háskólinn hafi árum saman verið í hópi þeirra stofnana samfélagsins sem mestu trausti fagna og sagði rektor að þar skipti mestu að skólinn væri vettvangur frjálsrar þekkingarleitar og skoðanaskipta. 

„Í því felst að við erum fjarri því að vera alltaf sammála, en við viljum hlusta á ólík rök og sjónarmið sem skapa okkur, þegar upp er staðið, traust og trúverðugleika. Það er ómetanlegt hverju samfélagi að eiga slíkan vettvang og okkur ber skylda til að hlúa að sérstöðu háskólastarfsins.“  

Hver kynslóð skili af sér betri jörð en hún tók í arf

Í lok ræðu sinnar vék rektor Háskóla Íslands að því mikilvæga hlutverki hverrar kynslóðar að skila jörðinni til þeirrar næstu í betra horfi en við henni var tekið. 

„Með því sýnum við í verki þakklæti okkar gagnvart fyrri kynslóðum sem lögðu grunninn fyrir okkur og við leggjum á sama hátt komandi kynslóðum lið með okkar eigin hugsunum og verkum. … Þannig styrkist sáttmáli kynslóðanna um að hver þeirra skili af sér betri jörð en hún tók í arf.“ 

rektor í pontu í Háskólabíói