Vísindasmiðjan og Verkfræðingafélagið efla saman vísindaáhuga ungmenna
Verkfræðingafélag Íslands og Vísindasmiðja Háskóla Íslands hafa um árabil unnið saman að því að efla áhuga ungmenna á vísindum og tækni og hyggjast halda því áfram. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélagsins, undirrituðu samstarfssamning þessa efnis í vikunni.
Vísindasmiðjan og Verkfræðingafélagið hafa átt í afar farsælu samstarfi sem miðar að því að auka áhuga ungmenna á vísindum og tækni með margvíslegum hætti á vettvangi smiðjunnar. Nýr samstarfssamningur kveður á um að Verkfræðingafélagið veiti Vísindasmiðjunni 1,5 milljóna króna styrk á næsta ári til þess að efla hina árlegu Hönnunar- og forritunarkeppni First Lego League sem Háskóli Íslands heldur utan um hér á landi. Keppnin er ætluð nemendum í efri bekkjum grunnskóla og markmið hennar er m.a. að efla færni, nýsköpun og lausnarmiðaða hugsun. Verkfræðingafélagið verður samkvæmt samningnum meginbakhjarl landsfjórðungakeppni First Lego League sem ætlunin er að byggja upp á næsta ári.
Samstarfssamningurinn gerir einnig ráð fyrir að Vísindasmiðjan taki þátt í árlegum Fjölskyldudegi verkfræðinnar og haldi að auki kynningu fyrir eldri félaga Verkfræðingafélagsins í húsakynnum sínum í Háskólabíói.
Vísindasmiðjan fagnar í ár 10 ára afmæli en markmið hennar hefur frá upphafi verið að efla áhuga ungmenna á vísindum og fræðum með gagnvirkum og lifandi hætti og styðja þannig við kennslu í grunnskólum, einkum á sviði náttúru- og raunvísinda. Leiðbeinendur í smiðjunni eru kennarar og nemendur Háskóla Íslands.
Vísindasmiðjan er opin grunnskólahópum og fleiri skólastigum þeim að kostnaðarlausu og hefur hún notið fádæma vinsælda frá stofnun. Þá hlaut Vísindasmiðjan viðurkenningu Rannís fyrir framúrskarandi vísindamiðlun árið 2019.