Skip to main content
27. október 2023

Yfirlýsing rektors í kjölfar niðurstöðu áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema

Yfirlýsing rektors í kjölfar niðurstöðu áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar niðurstöðu áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema. Hún er svohljóðandi:

„Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema komist að niðurstöðu í máli sem snýr að innheimtu skrásetningargjalda.

Af umfjöllun fjölmiðla um málið má ráða að nokkurs misskilnings gæti um niðurstöðu nefndarinnar. Jafnvel hefur komið fram að nefndin hafi kveðið á um að enginn grundvöllur væri fyrir innheimtu skrásetningargjalds en slíkt er alls ekki rétt.

Í niðurstöðu nefndarinnar kemur einfaldlega fram að útreikningar vissra kostnaðarliða sem felldir hafa verið undir gjaldið séu ekki fullnægjandi. 

Eftir að niðurstaðan lá fyrir hófst vinna hér innan Háskólans við að sjá til þess að útreikningar fyrir umrædda kostnaðarliði séu eins og vera ber. 

Ég mun tryggja að háskólaráð og fulltrúar stúdenta verði upplýstir um framvindu málsins. 
 
27. október,
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands“

Aðalbygging HÍ