Skip to main content

2. háskólafundur 18. og 19. maí 2000

2. háskólafundur haldinn 18. og 19. maí 2000 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Fimmtudag 18. maí kl. 13:00-17:00 og föstudag 19. maí kl. 8:30-17:00

Fimmtudagur 18. maí

Kl. 13:00 - Fundarsetning

Rektor setti annan háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Fundurinn var haldinn í nýuppgerðum hátíðasal Háskóla Íslands og þakkaði rektor Valþóri Sigurðssyni, framkvæmdastjóra byggingasviðs, sérstaklega fyrir vel unnin störf við að færa hátíðasalinn í sem næst upprunalegt horf.



Rektor tilkynnti að ársfundur Háskólans, skv. nýjum lögum um Háskóla Íslands, verði haldinn fljótlega í framhaldi af háskólafundi.



Þá minnti rektor á reglur um skipan og fundarsköp háskólafundar og baðst velvirðingar á þeim mistökum sem urðu við boðun fulltrúa stofnana á fundinn. Rektor skipaði háskólaritara ritara fundarins og kennslustjóra til aðstoðar.



Rektor fór yfir dagskrá og tímaáætlun fundarins og gerði grein fyrir framkomnum tillögum sem bárust innan tilskilins frests og lista yfir útsend gögn og viðbótargögn sem lágu fyrir fundinum.



Rektor lagði því næst til afbrigði við fundarsköp og óskaði eftir því að fundurinn samþykkti að tillaga um menntastefnu Háskólans, sem kom fram eftir að frestur til að leggja fram tillögur var út runninn, yrði tekin á dagskrá undir dagskrárlið 3.

- Tillagan var samþykkt samhljóða.

Kl. 13:15 - 1. dagskrárliður

Rektor ræddi mótun sameiginlegar vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands og rifjaði upp frá fyrsta háskólafundi það hlutverk fundarins að ræða hvernig á að móta stefnu fyrir Háskólann, hvert á að stefna og hvernig, hvar áherslur eiga að liggja og hvernig eigi að útfæra einstök stefnumið. Þannig megi líta svo á að sameiginlegur skilningur allra háskólamanna á markmiðum háskólastarfsins birtist í 1. gr. laganna, þótt menn orði þau með ólíkum hætti. Þá gerði hann sérstaklega að umtalsefni þau fjögur meginviðfangsefni sem vinnuhópar hafa unnið að, þ.e. að móta stefnu Háskóla Íslands um rannsóknir, kennslu, fræðslu og þjónustu.



Rektor reifaði því næst tillögu að málsmeðferð stefnumótunarstarfsins sem send hafði verið með fundarboði.

- Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.



Rektor ræddi um starfsáætlanir sem Háskólinn og allar deildir og stofnanir hans þurfa að vinna og endurnýja reglulega. Þá nefndi hann þrjú meginviðfangsefni Háskólans sem unnið verði að á næstunni:



1.    Gerð verði áætlun um frekari uppbyggingu framhaldsnáms, meistara- og doktorsnáms við Háskólann.

2.    Eflt verði samstarf við aðra háskóla og rannsókna- og menntastofnanir í landinu.

3.    Unnið verði hratt að því að bæta húsnæðismál Háskóla Íslands. Þar hafi forgang að ljúka við byggingu Náttúrufræðahúss á næstu tveimur árum. Þar þarf ríkisvaldið að koma til með aukið fé.



Rektor hefur leitað til fjögurra starfsmanna Háskólans til þess að aðstoða við áætlanagerð í þessum málaflokkum. Þessir starfsmenn eru:



Jón Atli Benediktsson, formaður vísindanefndar,

Hjalti Hugason, formaður kennslumálanefndar,

Kristín Ingólfsdóttir, prófessor,

Stefán Ólafsson, prófessor.



Í lok inngangsorða sinna ræddi rektor um mikilvægi þess að háskólamenning þróist og dafni innan Háskóla Íslands og hafi áhrif út í samfélagið. Í þessu felist m.a. að hugsunarháttur og vinnubrögð vísinda og fræða festi rætur hvarvetna í atvinnu- og þjóðlífi. Háskólinn hefur undanfarið stuðlað að þessu, m.a. með virkri þátttöku í verkefninu „Reykjavík, menningarborg Evrópu árið 2000“. Undir heitinu „Opinn Háskóli“ hefur skólinn gengist fyrir margvíslegum námskeiðum fyrir almenning, stórri þverfaglegri ráðstefnu um „Líf í borg“ og hleypt af stokkunum vísindavefnum „Hvers vegna? Vegna þess!“. Rektor þakkaði Margréti S. Björnsdóttur, framkvæmdastjóra samskiptasviðs, fyrir að leiða þann hóp sem hefur stýrt þátttöku Háskóla Íslands í menningarborgarverkefninu.

Kl. 13:45 - 2. dagskrárliður

2.1    Skýrslur starfshópa um stefnumótun

Hópstjórar gerðu grein fyrir starfi vinnuhópa frá síðasta háskólafundi. Að lokinni framsögu hvers hópstjóra voru leyfðar fyrirspurnir og síðan var almenn umræða um stefnumálin fjögur: kennslu, rannsóknir, fræðslu og þjónustu.



Kristín Ingólfsdóttir, hópstjóri, gerði grein fyrir framlögðum drögum að menntastefnu Háskóla Íslands.

Jón Atli Benediktsson, hópstjóri, gerði grein fyrir framlögðum drögum að rannsóknastefnu Háskóla Íslands.

Gunnar Karlsson, hópstjóri, gerði grein fyrir framlögðum drögum að fræðslustefnu Háskóla Íslands.

Sigmundur Guðbjarnason, hópstjóri, gerði grein fyrir framlögðum drögum að þjónustustefnu Háskóla Íslands.



Rektor gaf orðið laust til almennrar umræðu.



Drög vinnuhópanna voru rædd ítarlega. Í umræðunum um drög kennsluhópsins var m.a. bent á að eftirfarandi atriði þyrftu nánari útfærslu: Menntastefnu beri fremur að kalla kennslustefnu þar sem hugtakið „menntastefna“ sé of víðtækt; útfæra þurfi betur kaflann um gæðaeftirlit með kennslu, m.a. með því að fjalla um áhrif kennslureynslu á framgang kennara; fjalla þurfi nánar um þá sem hafa kennslu að hlutastarfi, fyrirtækjasamninga um rannsóknir, tengsl framhaldsnáms við almenna kennslu og rannsóknir, þverfaglegt nám, námsframboð næstu fimm ára, stefnu í kennslu erlendra tungumála, jafnvægi á milli rannsókna og annarra þátta í starfi kennara í launastefnu Háskólans og áhrif reiknilíkansins á kennslu- og námsframboð Háskólans.



Í umræðunum um drög rannsóknahópsins var m.a. fjallað um nauðsyn þess að leggja meiri áherslu á framhaldsnám í samræmi við forgangsverkefni Háskólans sem rektor reifaði í upphafi fundarins. Þeirri hugmynd var velt upp hvort rannsóknastefnan ætti að forgangsraða verkefnum með því að tilgreina sérstök áherslusvið. Þá var spurt hvort áherslan á stutt, hagnýtt nám fari saman við forgangsverkefni Háskólans um framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs. Loks var rætt um hlutverk stofnana Háskólans í rannsóknum og rannsóknanámi og fjárhagslegan grundvöll framhaldsnámsins.



Í umræðunum um drög fræðslu- og þjónustuhópanna var m.a. rætt um hlutverk endurmenntunar og Endurmenntunarstofnunar, hlutverk nemendafélaga, mikilvægi háskólamenntunar og fræðslu til nemenda á lægri skólastigum um háskólanám.



Að loknum umræðum svöruðu hópstjórar og rektor þeim fyrirspurnum, ábendingum og athugasemdum sem fram komu. Í samræmi við þá málsmeðferð sem samþykkt hefur verið mun sérstakur undirbúningshópur rektors fara yfir drögin með hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram komu á fundinum. Miðað er við að í sumar verði endurskoðuð drög send deildum og stofunum til umræðu og umsagnar. Á næsta háskólafundi verði vísinda- og menntastefna Háskóla Íslands fyrir næstu þrjú ár lögð fram.



Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, þau Jón Atli Benediktsson, Kristín Ingólfsdóttir, Gunnar Karlsson, Sigmundur Guðbjarnason, Jón G. Friðjónsson, Reynir Tómas Geirsson, Hjalti Hugason, Jóhann Ágúst Sigurðsson, Valdimar K. Jónsson, Torfi H. Tulinius, Kristín Jónsdóttir, Rannveig Traustadóttir, Jón Torfi Jónasson, Guðrún Þórhallsdóttir, Stefán Arnórsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Stefán Ólafsson, Gísli Már Gíslason og Margrét S. Björnsdóttir.



Kl. 15:15 - 15:30 Kaffihlé

Kl. 15:30 - 2. dagskrárliður framhald

2.2    Einstök stefnumál



2.2.1    Jafnréttisáætlun

Valgerður Edda Benediktsdóttir, varaformaður jafnréttisnefndar háskólaráðs, kynnti framlögð drög að Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2000-2004, en í henni er lögð megináhersla á eftirfarandi atriði:

I.   Að jafna aðstöðu og kjör karla og kvenna innan Háskóla Íslands.
II.  Að jafna aðild kynjanna að stjórn Háskólans.
III.  Að tryggja jafna aðstöðu kvenna og karla til náms.
IV.  Að vinna gegn kynferðislegri áreitni.

Að lokinni kynningu Valgerðar Eddu gaf rektor orðið laust.



Í umræðunum um jafnréttisáætlunina var m.a. rætt um dómnefndir, hlutverk deildarfundar við stöðuveitingar og tengsl fjárhagsstöðu deilda og fæðingarorlofs.



Að loknum umræðum svaraði varaformaður jafnréttisnefndar framkomnum athugasemdum.



Samþykkt var samhljóða að vísa jafnréttisáætluninni til háskólaráðs með þeim breytingum sem jafnréttisnefnd telur rétt að gera með hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram komu á fundinum.



Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, þau Margrét Einarsdóttir, Peter Holbrook, Guðrún Þórhallsdóttir, Ólafur Þ. Harðarson, Jóhann Ágúst Sigurðsson, Hjalti Hugason, Jón Torfi Jónasson, Kristín Ingólfsdóttir, Jón G. Friðjónsson og Brynjólfur Sigurðsson.



2.2.2    Starfsmannastefna

Edda Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs, kynnti framlögð drög að starfsmannastefnu Háskóla Íslands. Markmið starfsmannastefnunnar er að stuðla að því að Háskólinn gegni hlutverki sínu, s.s. kveðið er á um í 1. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999, og uppfylli réttmætar væntingar sem gerðar eru til Háskólans og starfsmanna hans.



Rektor hóf umræðuna með því að vekja athygli á kafla 7.4. „Móttaka og fræðsla fyrir nýja starfsmenn“ og kafla 7.8 „Starfslok“. Jafnframt tók rektor fram að hlutverk fundarins væri að afgreiða starfsmannastefnuna að lokinni umræðu.



Að lokinni kynningu Eddu Magnúsdóttur gaf rektor orðið laust.



Í umræðunum um starfsmannastefnuna var m.a. rætt um starfsmenn sem ekki uppfylla starfsskyldur sínar og hvernig bregðast skuli við því, starfsmannaviðtöl, framgangskerfið, starfslok og aðstöðu starfsmanna að starfi loknu, neyslu áfengis og tóbaks og hvernig taka skuli á áfengisvanda starfsmanna, fræðslu fyrir nýja starfsmenn um kynferðislega áreitni, launamál, hverjir skuli teljast starfsmenn Háskólans og hverjir ekki, starfslokasamninga og starfsmannastjórnun.



Að loknum umræðum svaraði framkvæmdastjóri starfsmannasviðs framkomnum athugasemdum.



Rektor svaraði fyrirspurn um launamál og ræddi nokkur önnur atriði í starfsmannastefnunni.



- Framlögð starfsmannastefna var samþykkt samhljóða með því fororði að rektor og starfsmannastjóra var falið að gera breytingar í samræmi við ábendingar fundarmanna.



Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Guðmundur G. Haraldsson, Torfi H. Tulinius, Jón G. Friðjónsson, Rannveig Traustadóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Jón Torfi Jónasson, Kristín Jónsdóttir, Sigmundur Guðbjarnason, Guðmundur K. Magnússon, Ólafur Þ. Harðarson og Hjalti Hugason.



Kl. 17:15    Fundi frestað til morguns

Föstudagur 19. maí

Kl. 8:30

Rektor bauð fundarmenn velkomna aftur til starfa og fór yfir dagskrá og viðfangsefni dagsins. Fram var lögð til fróðleiks Árbók Háskóla Íslands 1999 og kafli úr grein Páls Skúlasonar, „Háskóli og stjórnmál“.

Dagskrárliður 3

Tillögur að ályktunum háskólafundar um einstök málefni sem fyrir liggja.



3.1    Tillaga stúdenta til ályktunar um byggingu háskólatorgs.

Fulltrúi stúdenta, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, mælti fyrir framlagðri tillögu stúdenta til ályktunar um að byggingu háskólatorgs verði hraðað.



„Háskólafundur leggur áherslu á að byggingu háskólatorgs verði hraðað. Mikilvægt er að Háskóli Íslands eignist sem fyrst miðstöð á háskólasvæðinu sem sameini stúdenta, kennara og annað starfsfólk. Slík bygging verði miðsvæðis og þar verði að finna alla þá þjónustu Háskólans sem lýtur beint að nemendum, auk annarrar þjónustu eins og mötuneytis, aðstöðu til náms, Félagsstofnunar stúdenta auk margs annars. Sérstaklega er þetta mikilvægt í þeim tilgangi að skapa samkennd í því stækkandi samfélagi sem Háskólinn er og nauðsynlegt að það gerist sem fyrst.„

Að lokinni kynningu Þorvarðar Tjörva gaf rektor orðið laust.



Valdimar K. Jónsson taldi að málið hefði ekki verið kynnt nægjanlega fyrir háskólafundinum og að of hratt væri farið. Brýnni verkefni væru í byggingarmálum og nefndi Valdimar sérstaklega framkvæmdir við VR III sem hafa vikið fyrir öðru frá árinu 1980. Eiríkur Jónsson mælti með tillögunni og lagði áherslu á að farnar verði nýjar leiðir við fjármögnun háskólatorgsins. Rektor gat þess að tillaga stúdenta væri hvatningartillaga en ekki tillaga um að háskólatorgið yrði tekið fram fyrir önnur brýn verkefni.



- Tillagan var samþykkt af þorra fundarmanna með einu mótatkvæði.



3.2    Tillaga stúdenta um umhverfismál og umhverfisstefnu Háskóla Íslands.

Eiríkur Jónsson, formaður Stúdentaráðs, mælti fyrir framlagðri tillögu til ályktunar um umhverfisstefnu Háskólans:



„Háskólafundur vill að Háskólinn marki sér skýra stefnu í umhverfismálum og verði leiðandi afl í umhverfismálum. Til að vinna að því markmiði verði skipaður fjögurra manna starfshópur sem endurskoði og endurbæti þau drög að umhverfisstefnu Háskólans sem liggja fyrir. Í starfshópnum sitji tveir fulltrúar skipaðir af rektor og tveir skipaðir af Stúdentaráði. Hópurinn hefji störf hið fyrsta og leggi nýja umhverfisstefnu fram til samþykktar á næsta háskólafundi.“

Að lokinni kynningu Eiríks Jónssonar gaf rektor orðið laust.



Jóhann Ágúst Sigurðsson ræddi skipan starfshópsins sem á að vinna að endurskoðun á fyrirliggjandi drögum að umhverfisstefnu Háskólans og lagði til að í hópnum yrði fulltrúi frá Umhverfisstofnun Háskóla Íslands.



- Tillaga stúdenta var samþykkt samhljóða.





3.3    Tillaga Eiríks Rögnvaldssonar, Guðrúnar Þórhallsdóttur, Gunnars Karlssonar og Jóns G. Friðjónssonar um menntastefnu Háskóla Íslands

Jón G. Friðjónsson mælti fyrir framlagðri tillögu til ályktunar um menntastefnu Háskólans:



„Háskólafundur vill að Háskóli Íslands marki sér skýra stefnu í mennta- og rannsóknamálum í þeim fræðigreinum er varða Ísland og Íslendinga sérstaklega. Á þessum sviðum eiga Íslendingar að gegna forystuhlutverki í hinu alþjóðlega vísindasamfélagi enda eru þeir betur í stakk búnir en erlendir fræðimenn til að hafa forystu á fræðasviðum er tengjast íslenskri menningu í víðasta skilningi. Háskólanum ber því að leggja sérstaka rækt við þau svið sem telja má séríslensk.“

Gunnar Karlsson mælti fyrir tillögunni og vakti athygli á því að fjárveitingar samkvæmt reiknilíkani séu það litlar í sumum greinum að þær dugi ekki fyrir launum fastráðinna kennara. Veita verði forgang þeim fræðigreinum er varða Ísland og Íslendinga sérstaklega.



Rektor fagnaði tillögunni og gaf síðan orðið laust.



Flestir þeirra sem til máls tóku studdu tillöguna. Þó var einnig bent á að þau sjónarmið sem koma fram í tillögunni væri nú þegar að finna í framkomnum drögum að rannsóknarstefnu Háskóla Íslands. Ennfremur var bent á nauðsyn þess að skilgreina þurfi nánar hvaða fræðasvið geti talist séríslensk í þessu samhengi.



Jóhann Ágúst Sigurðsson bar fram eftirfarandi breytingartillögu: Í stað orðanna „í mennta- og rannsóknamálum“ í 1. málsl. komi „í mennta- og menningarmálum“.



- Breytingartillagan var samþykkt með 14 atkvæðum gegn 9.



- Tillagan svo breytt var samþykkt með 37 atkvæðum gegn 2.



Til máls tóku undir þessum lið, auk flutningsmanna og rektors, Hjalti Hugason, Ingjaldur Hannibalsson, Stefán Arnórsson, Dagný Jónsdóttir, Guðmundur K. Magnússon, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Jón Torfi Jónasson, Stefán Ólafsson, Jón Atli Benediktsson, Jóhann Ágúst Sigurðsson, Valdimar K. Jónsson, Rannveig Traustadóttir, Hjalti Hugason og Halldór Jónsson.



Kl. 9:40 - 10:10 Kaffihlé

Kl. 10:10 - Dagskrárliður 4

Umsögn um drög að reglugerð fyrir Háskóla Íslands.

Rektor reifaði fyrirliggjandi drög að nýrri reglugerð fyrir Háskóla Íslands og gerði grein fyrir þeirri undirbúningsvinnu sem fram hefur farið. Reglugerðin hefur verið í smíðum um alllangt skeið í kjölfar nýrra laga um háskóla og laga um Háskóla Íslands, en með síðarnefndu lögunum var reglugerðarvaldið fært til Háskólans. Mikilvægt væri að ljúka frágangi reglugerðarinnar sem fyrst þar sem starfsemi skólans byggi að miklu leyti á henni. Hlutverk háskólafundarins sé að gefa háskólaráði umsögn um fyrirliggjandi reglugerðardrög.



Fyrir fundinum lá listi yfir athugunarefni í drögum að reglugerð fyrir Háskóla Íslands og listi yfir þær breytingatillögur sem bárust fyrir 15. maí. Rektor fór yfir reglugerðina grein fyrir grein og lýsti eftir athugasemdum fundarmanna.



Áður en gengið var til umræðu heimilaði rektor að lögð yrði fram breytingartillaga frá starfsfólki í stjórnsýslu Háskólans um reglur um rektorskjör, en láðst hafði að senda hana með öðrum fundargögnum.



9. gr. Kosning, tilnefning og embættisgengi rektors. Þegar kom að 9. gr. mælti Brynhildur Brynjólfsdóttir, fulltrúi starfsfólks í stjórnsýslu, fyrir tillögu að breytingu á 5. og 6. tölulið 9. gr. Tillagan var svohljóðandi:



2. mgr. 5. tölul. 9. gr. orðist svo:

„Kjörseðlar skulu gerðir í þremur litum. Skal einn liturinn vera fyrir starfsfólk Háskólans sem er í fullu starfi, annar liturinn fyrir starfsfólk Háskólans sem eru í hlutastarfi, þriðji liturinn fyrir stúdenta, sbr. 6. gr. þessara reglna.“

6. tölul. 9. gr. orðist svo:

„Við rektorskjör eiga atkvæðisrétt starfsmenn skipaðir eða ráðnir í fullt starf við Háskólann og stofnanir hans. Starfshlutfallið 75% og hærra telst fullt starf í reglum þessum. Nú gegnir maður starfi í hlutfallinu 37-74%, og fer hann þá með hálft atkvæði. Starfshlutfall sem er lægra en 37% veitir ekki atkvæðisrétt. Nú er starfsmaður, sem að framan greinir, í orlofi og annar ráðinn tímabundið í hans stað og fer hann þá með atkvæðisrétt þess sem er í orlofi. Þá eiga allir stúdentar, sem skrásettir eru í Háskóla Íslands tveimur mánuðum fyrir rektorskjör, atkvæðisrétt. Atkvæði starfsmanna skulu gilda sem 70% greiddra atkvæða. Atkvæði stúdenta skulu gilda sem 30% greiddra atkvæða.

Nú hefur einhver þeirra sem kosningarétt eiga, lögmæt forföll, og er honum þá heimilt að kjósa utan kjörfundar.“

Rektor gaf orðið laust.



Breytingartillagan var rædd ítarlega. Í umræðum um tillöguna kom annars vegar fram það sjónarmið að hér væri um lýðræðislegt réttindamál að ræða, hins vegar að vægi atkvæða kennara skuli vega þyngra en atkvæði annars starfsfólks, enda Háskólinn fyrst og fremst kennslu- og rannsóknarstofnun.



Til máls tóku um breytingartillöguna, auk flutningsmanna og rektors, Ari Páll Kristinsson, Einar Sigurðsson, Gunnar Karlsson, Þórður Kristinsson, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, Ólafur Þ. Harðarson, Rannveig Traustadóttir og Guðvarður Már Gunnlaugsson.



- Rektor lagði til að tillögunni yrði vísað til háskólaráðs með hliðsjón af umræðunni og í ljósi starfsmannastefnu Háskóla Íslands sem samþykkt var fyrr á fundinum. Samþykkt samhljóða.



12. gr. Háskóladeildir. Rektor hóf umræðu um 12. grein sem fjallar um deildir Háskólans. Fyrir fundinum lá skýrsla um úttekt á kennslu og rannsóknum í hjúkrunarfræði og lyfjafræði lyfsala við Háskóla Íslands. Í 12. gr. er gert ráð fyrir tveimur nýjum deildum, lyfjafræðideild og hjúkrunarfræðideild, og lýsti rektor yfir stuðningi við stofnun þeirra. Stuðningur var á fundinum við stofnun nýju deildanna tveggja. Fram kom að læknadeild hefur athugasemdir við að læknisfræði verði skor í læknadeild, sem er afleiðing af því að sjúkraþjálfun er felld inn í læknadeild. Jafnframt kom fram að í framtíðinni kunni að reynast skynsamlegt að fella allar heilbrigðisgreinarnar saman í eina heilbrigðisvísindadeild.



Rektor gaf orðið laust.



Til máls tóku um efni greinarinnar, auk rektors, Jóhann Ágúst Sigurðsson, Kristín Ingólfsdóttir, Birna G. Flygenring, Peter Holbrook, Þórarinn Sveinsson, Guðmundur G. Haraldsson, Ásta Thoroddsen, Reynir Tómas Geirsson og Gísli Már Gíslason.



- Samþykkt var samhljóða að leggja til við háskólaráð að stofnaðar verði lyfjafræðideild og hjúkrunarfræðideild.



14. gr. Endurmenntun á vegum deilda og stofnana. Rektor hóf umræðu um 14. gr. reglugerðarinnar þar sem fjallað er um endurmenntun á vegum háskóladeilda. Miklar umræður urðu um efni greinarinnar. Fyrir fundinum lá ályktunartillaga frá fulltrúum stúdenta:



„Háskólafundur gagnrýnir þá leið sem farin er í drögum að reglugerð fyrir H.Í. að skilgreina MBA-nám sem endurmenntun gagngert til þess að nýta sér gjaldtökuheimild 18. gr. laga um Háskóla Íslands.

Háskólafundur mælist til þess að háskólayfirvöld leiti allra leiða til þess að treysta fjárhagslegan grundvöll námsins, svo sem með viðræðum við ríkisvaldið, með það að leiðarljósi að farið verði að lögum um Háskóla Íslands og skólagjöld ekki tekin upp. Mikilvægt er að slíkar aðgerðir bitni ekki á fjárframlögum til annars náms við H.Í.“

Rektor gaf orðið laust.



Meðal annars var rætt um hvort MBA-nám væri endurmenntun eins og endurmenntunarhugtakið er skilgreint í greininni, en engin skilgreining er á eðli eða formi endurmenntunar deilda í lögum um Háskóla Íslands. Nokkrir fundarmanna lýstu yfir áhyggjum sínum um að með þessu yrði stigið fyrsta skrefið í átt til almennrar upptöku skólagjalda við Háskóla Íslands. Einnig kom fram það sjónarmið að með því að heimila ekki gjaldtöku fyrir endurmenntun yrði samkeppnisstaða Háskóla Íslands veikt óeðlilega, m.a. í samanburði við norræna háskóla sem búa við sambærilegt lagaumhverfi. Þessir skólar bjóða MBA-nám með hliðstæðum hætti og gert er ráð fyrir í viðskipta- og hagfræðideild, en heimila ekki gjaldtöku fyrir annað nám. Lögð var áhersla á að heimild til gjaldtöku fyrir endurmenntun sem gefur einingar í háskólanámi verði að skilgreina þröngt.



Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Ólafur Þ. Harðarson, Rögnvaldur Ólafsson, Valdimar K. Jónsson, Eiríkur Jónsson, Páll Sigurðsson, Guðmundur K. Magnússon, Gylfi Magnússon, Jón Torfi Jónasson, Hjalti Hugason, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, Ingjaldur Hannibalsson, Kristín Jónsdóttir, Margrét Einarsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Ágústa Guðmundsdóttir, Gunnar Karlsson, Hörður Sigurgestsson, Margrét S. Björnsdóttir, Stefán Ólafsson, Sigmundur Guðbjarnarson og Sigríður Ólafsdóttir.



- Tillaga stúdenta var borin undir atkvæði og felld með 20 atkvæðum gegn 9.



Kl. 12:15-13:30 Hádegishlé

Kl. 13:30 Umsögn um drög að reglugerð fyrir Háskóla Íslands (frh.)

17. gr. Skipan deildarfundar. Guðmundur Pétursson hóf umræðu um 17. gr. og mælti fyrir því að sérfræðingar ættu sæti á deildarfundum. Umræður urðu á fundinum um það hvort rétt væri að sérfræðingar, fræði- og vísindamenn við stofnanir deilda ættu sæti á deildarfundum. Í ljósi umræðunnar á fundinum gerði rektor tvær breytingartillögur:



7. málsl. 1. mgr. 17. gr. orðist svo:

„Deild er heimilt að ákveða að þeir sem ráðnir eru til vísinda- og fræðastarfa við stofnanir sem heyra undir deild sitji deildarfundi og er deild einnig heimilt að kveða á um, hvort þeir hafi atkvæðisrétt.“

7. málsl. 2. mgr. 17. gr. orðist svo:

„Deild er heimilt að víkja frá þessu og ákveða að starfsmenn sem rétt eiga til setu á deildarfundi fari með fullt atkvæði án tillits til starfshlutfalls.“

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Guðmundur Pétursson, Gísli Már Gíslason, Hannes Pétursson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Stefán Arnórsson og Jón Torfi Jónasson.



- Breytingartillögurnar voru báðar samþykktar samhljóða og þeim vísað til háskólaráðs.



18. gr. Deildarfundir. Hannes Pétursson gerði að umtalsefni ályktunarbærni deildarfundar, sbr. 3. mgr. 18. gr.



19. gr. Deildarforseti. Stefán Arnórsson gerði tillögu um nýjan málslið í 1. mgr. 19. gr. Tillagan er svohljóðandi:



„Ákvæði þessi eiga ekki við þegar um er að ræða stofnanir með sjálfstæðan fjárhag og sjálfstæða fjárábyrgð.“

Rektor benti á að að í 1. mgr. 10. gr. laga um Háskóla Íslands er kveðið á um, að deildarforseti beri ábyrgð á fjármálum deildar gagnvart háskólaráði og rektor. Þannig sé ljóst að tillaga þessi samrýmist ekki lögunum. Guðmundur K. Magnússon tók einnig til máls undir þessum lið.



20. gr. Kjör Deildarforseta. Stefán Arnórsson benti á að miðað við ábyrgð deildarforseta séu þrjú ár stuttur kjörtími deildarforseta. Um þessa grein tóku eining til máls Hannes Pétursson og Reynir Tómas Geirsson.



23. gr. Kennsluskrá og námsnefndir. Stefán Ólafsson og Ólafur Þ. Harðarson lögðu til að ekki þurfi að vera skylt að hafa námsnefnd í hverri námsgrein fyrir sig enda sé nægilegt að hafa eina slíka nefnd við hverja deild. Ákvörðun um það yrði á valdi deilda.



24. gr. Mat á starfsemi deilda og eftirlit með henni. Jón G. Friðjónsson og Hjalti Hugason gerðu athugasemdir við orðalag um kennslumat o.fl.



27. gr. Stofnanir sem heyra undir deildir. Stefán Arnórsson vakti máls á 27. gr. og lét í ljósi þá skoðun að hún hefði batnað mikið frá fyrri drögum þótt enn væru mörg atriði sem eigi ekki við stofnun eins og Raunvísindastofnun sem er sjálfstæð á fjárlögum. Þá reifaði Stefán tillögu til ályktunar sem var ekki borin undir atkvæði. Jón Torfi Jónasson benti á að í 3. tölul. 27. gr. þurfi að vera ákvæði sem heimili deild að fela stofnun sem undir hana heyrir ákvörðunarvald um skiptingu stofnunarinnar í faglega sjálfstæðar rannsóknarstofur. Um þessa grein tók einnig til máls Guðmundur Pétursson.



35. gr. Um auglýsingar starfa. Fyrir fundinum lá tillaga frá jafnréttisnefnd þar sem lagt er til að 13. tölul. 4. mgr. 35. gr. hljóði svo:

„Við ráðningar í störf við Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.“

- Tillagan var samþykkt án atkvæðagreiðslu.



Rektor lagði til að umræða um 39. gr. um framgang, 41. gr. um gæðamat á störfum og 42. gr. um dómnefndir yrðu ræddar í einu lagi. Ólafur Jóhann Einarsson skýrði álitaefnin í þessum greinum nánar. Fyrir fundinum lá tillaga frá jafnréttisnefnd um að 1. málsl. 5. mgr. 39. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 42. gr. skuli hljóða svo:

„Þar sem því verður við komið skulu háskólaráð, menntamálaráðherra og deild sú er umsækjandi á að starfa við tilnefna tvo einstaklinga, karl og konu til dómnefndarstarfa. Rektor skipar þrjá einstaklinga í dómnefnd, einn frá hverjum tilnefningaraðila, þannig að í dómnefnd sitji fólk af báðum kynjum.“

- Tillagan var samþykkt án atkvæðagreiðslu.



Fram komu ábendingar um að varasamt sé að veita rektor heimild til að synja um framgang sé fjárhagur deildar með þeim hætti að hún standi ekki undir honum. Einnig var bent á að kröfur til framgangs geti verið mismunandi eftir deildum. Enn fremur kom ábending um að nauðsynlegt sé að setja reglur um gæðamat á störfum skv. 41. gr.



Til máls tóku um þessar greinar, auk rektors og Ólafs Jóhannesar, Jón Torfi Jónasson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Reynir Tómas Geirsson, Torfi H. Tulinius og Jón G. Friðjónsson.



53. gr. Kennsla og kennsluhættir. Ólafur Þ. Harðarson vakti máls á því að efni greinarinnar ætti ekki við og óskaði eftir að síðasta málsgreinin er varðar heimspekileg forspjallsvísindi verði felld niður.



- Athugasemdinni verður komið á framfæri við háskólaráð.



57. gr. Endurtaka prófs og úrsögn úr prófi. Rektor gerði grein fyrir tillögu frá prófstjóra og nemendaskrá um breytingu á 1. mgr. 57. gr. sem varðar breytingar á dagsetningum úrsagnarfrests úr prófi. Athugasemdir komu fram við tillöguna frá fulltrúum stúdenta. Undir þessum lið tóku til máls, auk rektors, Dagný Jónsdóttir og Þórarinn Sveinsson.



- Ákveðið var að vísa tillögunni til háskólaráðs.



58. gr. Framkvæmd prófa og prófreglur. Þorvarður Tjörvi Ólafsson mælti fyrir ályktunartillögu fulltrúa stúdenta um að háskólafundur mæltist til þess, að nota beri prófnúmer eða nemendanúmer í öllum skriflegum prófum við Háskóla Íslands. Tillagan var samþykkt með 14 atkvæðum gegn 11. Tillagan felur í sér þá breytingu að í stað þess að deildir ákveði þetta hver fyrir sig er framkvæmdin alfarið ákveðin í reglugerð.



Skiptar skoðanir voru meðal fundarmanna um prófnúmerakerfi og tilgang þess. Fram kom sú skoðun að prófnúmerakerfið geti torveldað námsmat og gert framkvæmd prófa óþarflega flókna. Jafnframt var bent á að kerfinu væri ætlað að tryggja hlutlægni í námsmati. Hjalti Hugason lýsti því áliti kennslumálanefndar að nafnleynd í prófum ætti að vera á valdi hverrar deildar eins og verið hefur.



Til máls tóku um þessa grein, auk rektors, Þorvarðar Tjörva Ólafssonar og Hjalta Hugasonar, þeir Bragi Árnason, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Jón Torfi Jónasson, Gunnar Karlsson, Ólafur Þ. Harðarson og Eiríkur Jónsson.



- Tillagan var samþykkt með 14 atkvæðum gegn 11.



59. gr. Prófdómarar og réttur stúdenta til að fá útskýringar. Fulltrúar stúdenta lögðu fram eftirfarandi breytingartillögu við 1. málsl. 2. mgr. 59. gr.:

„Innan 15 daga frá birtingu einkunnar skal kennari halda auglýsta prófsýningu þar sem stúdent á rétt á útskýringum kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar. Stúdent á einnig á þessu tímabili rétt á að hitta kennara utan auglýstra prófsýninga og fá útskýringar hans ef hann æskir þess.“

Þórður Kristinsson benti á að orðalag 1. málsl. 2. mgr. 59. gr. í drögum III að reglugerð fyrir Háskóla Íslands er samhljóða 1. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna. Því þyrfti að útfæra þessa breytingartillögu með öðrum hætti ef háskólaráð verður henni samþykkt. Hjalti Hugason og Guðvarður Már Gunnlaugsson tóku einnig til máls um þessa grein.



- Tillaga stúdenta var samþykkt með 14 atkvæðum gegn 7.



72.gr. Stjórnunar- og aðstöðugjald. Rektor óskaði eftir ábendingum um betra og jákvæðara orðalag.



80. gr. Stúdentasjóður Háskóla Íslands. Þorvarður Tjörvi Ólafsson mælti fyrir eftirfarandi breytingartillögu við 2. mgr. 80. gr.:

„Í stjórn sjóðsins skulu sitja fimm fulltrúar skipaðir til eins árs í senn og skal skipun þeirra fara fram fyrir 15. september ár hvert. Tveir eru skipaðir af Stúdentaráði og þrír skipaðir eftir kosningum á almennum formannafundi nemendafélaga. Rektor skal skipa áheyrnarfulltrúa í stjórn sjóðsins.„

- Tillagan var samþykkt samhljóða.



Jafnframt kynnti Þorvarður Tjörvi ályktunartillögu stúdenta þess efnis að ákveðið verði í reglugerð að árlegt framlag til stúdentasjóðs verði 1000 kr. fyrir hvern skrásettan stúdent.



- Tillögunni var vísað til háskólaráðs.

Önnur mál.

Ólafur Jóhann Einarsson mælti fyrir breytingartillögu hans og kennslustjóra við 1. málsl. 9. gr. sem orðist svo:

„Einn fulltrúi frá hverri eftirtaldra stofnana skal eiga sæti og atkvæðisrétt á háskólafundi: Raunvísindastofnun Háskólans, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar, og Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, að því tilskyldu að kveðið sé á um tengsl þeirra við Háskólann í lögum eða reglugerð.“

- Tillagan var samþykkt einróma.



Jafnframt mælti Ólafur fyrir tillögu hans og kennslustjóra um að 2. málsgr. 11. gr. í Reglum um skipan og fundarsköp háskólafunda orðist svo:

„Háskólafund skal halda að minnsta kosti einu sinni á misseri.“

- Báðar tillögurnar voru samþykktar einróma.



- Samþykkt var samhljóða að tillögu rektors að falla frá því að lesa fundargerðina í lok fundarins og háskólaritara og kennslustjóra falið að ganga frá fundargerðinni og senda til fundarmanna.



Rektor þakkaði Þórði Kristinssyni og Ólafi Jóhanni Einarssyni fyrir þeirra vinnu við reglugerðina.



Í lok fundarins þakkaði rektor þeim sem unnu að undirbúningi fundarins. Þá þakkaði hann fundarmönnum fyrir fundinn og málefnalega umræðu um þau mál sem fyrir lágu.



Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl 16:50.



Að loknum fundi bauð rektor fundarmönnum upp á léttar veitingar.



Listi yfir gögn sem lögð voru fram á háskólafundinum 18. og 19. maí 2000:



1.    Dagskrá háskólafundar 18.-19. maí 2000.

2.    Fundarmenn á háskólafundi 18.-19. maí 2000 og skipting þeirra í vinnuhópa.

3.    Fundargerð háskólafundar frá 4. og 5. nóvember 1999.

4.    Minnisblað um nokkur mál til umfjöllunar í Háskólanum.

5.    Málsmeðferð stefnumótunarstarfs.

6.    Drög að stefnu Háskóla Íslands í málefnum kennslu, rannsókna, fræðslu og þjónustu.

7.    Starfsmannastefna Háskóla Íslands (drög).

8.    Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2000-2004.

9.    Tillaga til ályktunar um menntastefnu Háskólans.

10.    Tillaga til ályktunar um að byggingu háskólatorgs skuli hraðað.

11.    Tillaga til ályktunar um umhverfismál Háskólans.

12.    Drög III að reglugerð fyrir Háskóla Íslands.

13.    Fylgibréf með drögum að reglugerð og listi yfir ýmis athugunarefni.

14.    Breytingartillögur að drögum að reglugerð sem bárust fyrir 15. maí og ályktunartillögur tengdar efni reglugerðar.

15.    Breytingartillögur við reglur um skipan og fundarsköp háskólafunda.

16.    Breytingartillaga við reglur um rektorskjör.

17.    Yfirlitsblað um muninn á MBA-námi og hefðbundnu háskólanámi.

18.    Úttekt á kennslu og rannsóknum í hjúkrunarfræði og lyfjafræði lyfsala við Háskóla Íslands.

19.    Árbók Háskóla Íslands 1999.

20.    Kafli úr grein Páls Skúlasonar, „Háskóli og stjórnmál“.