Skip to main content

Ríkið annist heilbrigðisþjónustu

Sigrún Ólafsdóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild

Í viðleitni ríkja til þess að bæta lífsskilyrði fólks gegnir samanburður mikilvægu hlutverki. Íslendingar þekkja það vel enda hverfist dægurumræðan hér á landi oft um það hvernig okkur vegnar á ýmsum sviðum í samanburði við bæði nágrannaþjóðir og þjóðir lengra í burtu. Í slíkum samanburði skiptir máli að styðjast við traust gögn byggð á alþjóðlegum rannsóknum en slíkum rannsóknum hefur Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, helgað starf sitt.

„Ég hef lagt áherslu á mikilvægi þess að Ísland taki þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum síðastliðin 10-15 ár. Þrátt fyrir að íslenskur veruleiki sé áhugaverður tel ég mikilvægt að hægt sé að bera viðhorf okkar og veruleika saman við önnur lönd,“ segir Sigrún.

Hún bendir enn fremur á að þátttaka í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum með langa sögu gefi vísindafólki minni möguleika á að stjórna því hvert viðfangsefnið er. „En kosturinn er að slíkar kannanir beina sjónum að fjölbreyttum viðfangsefnum. Dæmi um viðfangsefni sem við höfum skoðað á Íslandi eru félagslegur ójöfnuður, kynhlutverk og fjölskylda, umhverfismál og þjóðerniskennd,“ segir Sigrún.

Nýverið kom Sigrún að alþjóðlegu viðhorfakönnuninni svokölluðu sem er lögð fyrir á hverju ári í rúmlega 40 löndum. „Rannsóknin snýst um viðhorf Íslendinga til hlutverks stjórnvalda þar sem meðal annars er spurt um ábyrgð þeirra á ýmsum málaflokkum, spillingu í samfélaginu og hverjir hafi áhrif á þróun samfélagsins,“ segir hún.

„Rannsóknir á þessum tengslum gera okkur kleift að meta hvort stærri samfélagslegir þættir hafa áhrif á viðhorf og reynslu einstaklinga. Að auki gefa rannsóknirnar innsýn inn í hvernig samfélag meirihlutinn vill og hvort ágreiningur sé á milli ólíkra hópa, til dæmis eftir menntun, tekjum eða stjórnmálaskoðun. Að mínu mati er eðlilegt að nota vísindalegar niðurstöður í stefnumótun.“

Sigrún Ólafsdóttir

Niðurstöður íslenska hlutans komu í hús haustið 2017. „Þær sýna að Íslendingar eru mjög hlynntir því að stjórnvöld veiti ýmsa þjónustu. Þannig telja 99% svarenda að ríkið eigi að bera ábyrgð á heilbrigðisþjónustu og sjá um að veita öldruðum viðunandi lífsskilyrði og 93% vilja sjá meiru varið til heilbrigðismála. Einnig virðist umræða um spillingu í þjóðfélaginu endurspeglast í viðhorfum almennings, en 72% telja nokkra, marga eða nánast alla stjórnmálamenn viðriðna spillingu,“ segir Sigrún um niðurstöðurnar sem undirstrika að Íslendingar eru almennt sammála um mikilvæg samfélagsmálefni þótt umræðan bendi oft til annars.

Sigrún hefur einnig komið að alþjóðlegri rannsókn um fordóma gagnvart geðrænum vandamálum, evrópsku félagsvísindakönnuninni og evrópsku lífsgildakönnuninni. Hún segir eitt mikilvægasta viðfangsefni félagsfræðinga að skilja tengsl einstaklings og samfélags. „Rannsóknir á þessum tengslum gera okkur kleift að meta hvort stærri samfélagslegir þættir hafa áhrif á viðhorf og reynslu einstaklinga. Að auki gefa rannsóknirnar innsýn inn í hvernig samfélag meirihlutinn vill og hvort ágreiningur sé á milli ólíkra hópa, til dæmis eftir menntun, tekjum eða stjórnmálaskoðun. Að mínu mati er eðlilegt að nota vísindalegar niðurstöður í stefnumótun,“ segir hún að endingu.