Skip to main content

Bætt lífsgæði fólks með geðrofssjúkdóma

Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir, doktorsnemi við Læknadeild

„Ef litið er til heildarkostnaðar samfélagsins vegna geðrofssjúkdóma þá verður hlutfallslega stærstur hluti kostnaðarins til vegna skertrar færni og örorku samanborið við annan kostnað, s.s. vegna lyfjameðferðar og sjúkrahúslegu. Því er verulegur samfélagslegur ávinningur af því að bæta daglega færni þessa hóps þótt aukin lífsgæði vegi þyngst.“

Þetta segir Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir, sálfræðingur á Laugarási, deild á geðsviði Landspítala. Deildin sérhæfir sig í meðferð og endurhæfingu ungs fólks með byrjandi geðrofssjúkdóma. Ólína Guðbjörg vinnur nú að rannsókn sem hefur það að markmiði að innleiða vitræna endurhæfingu með félagsskilningsþjálfun (VEF) fyrir ungt fólk með byrjandi geðrofssjúkdóma og skoða áhrif meðferðarinnar á lífsgæði, líðan og færni í daglegu lífi.

Í VEF er hefðbundin vitræn endurhæfing á spjaldtölvuformi sameinuð félagsskilningsþjálfun í hópi og er markmiðið að bæta vitræna þætti, s.s. athygli, einbeitingu, minni og félagsskilning varanlega og einnig stuðla að því að árangurinn nýtist sjúklingum í daglegu lífi.

Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir

„Vitræn skerðing er partur af sjúkdómsmynd geðrofssjúkdóma og það var áberandi hversu mikil áhrif þessi vandi hafði á daglegt líf fólks.“

Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir

Ólína Guðbjörg segir að geðrofssjúkdómar komi langoftast fyrst fram hjá ungu fólki og hafi því mikil áhrif á tækifæri fólks til náms og starfa á lífsleiðinni. „Rannsóknir erlendis sýna að vitræn endurhæfing bæti vitræna þætti en yfirfærsla í daglegt líf hefur verið áskorun. Með því að bæta við félagsskilningsþjálfun vonumst við eftir því að bregðast við þessum vanda. Engar rannsóknir á árangri vitrænnar endurhæfingar með félagsskilningsþjálfun hafa verið birtar og má því ætla að rannsóknin veiti mikilvægar upplýsingar um hentugleika og árangur þess meðferðarforms í hópi ungra geðrofssjúklinga.“

Ólína Guðbjörg segir að áhugi á vitrænni endurhæfingu hafi kviknað í starfi hennar á Laugarásnum þar sem hún vann m.a. við að kortleggja vitræna getu. „Vitræn skerðing er partur af sjúkdómsmynd geðrofssjúkdóma og það var áberandi hversu mikil áhrif þessi vandi hafði á daglegt líf fólks. Einnig var greinilegt að starfsfólk, aðstandendur og sjúklingarnir sjálfir höfðu litla þekkingu á þessum vanda og höfðu í raun fá verkfæri til að bregðast við honum. Mér fannst liggja beinast við að innleiða meðferð sem tók sérstaklega á þessum vanda í framhaldinu.“

Ólína Guðbjörg segir að meðferðin sé í fullum gangi og unnt verði út frá niðurstöðum að stilla betur af meðferð ungs fólks með byrjandi geðrofssjúkdóma.

Leiðbeinendur:

  • Berglind Guðmundsdóttir, dósent við Læknadeild og yfirsálfræðingur á Geðsviði LSH,
  • Engilbert Sigurðsson, prófessor við Læknadeild og yfirlæknir á Geðsviði LSH,
  • Brynja B. Magnúsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík og sálfræðingur á Geðsviði LSH,
  • David Roberts, lektor við The University of Texas Health Science Center,
  • Elisabeth Twamley, prófessor við University of California.