Eva Marín Hlynsdóttir, lektor við Stjórnmálafræðideild
„Markmið stjórnvalda er að fækka sveitarfélögum og auka verkefni þeirra. Það hefur hins vegar ekki verið skoðað hvaða áhrif það hefur á sveitarstjórnir og starfsaðstæður þeirra að fækka sveitarfélögunum með þeim hætti sem gert hefur verið.“
Þannig skýrir Eva Marín Hlynsdóttir, lektor í opinberri stjórnsýslu, kveikjuna að nýrri rannsókn þar sem hún skoðar áhrif mikilla breytinga í mörgum íslenskum sveitarstjórnum. Í rannsókninni hyggst hún varpa ljósi á hversu margir af þeim sem nú sitja í sveitarstjórnum ætla ekki bjóða sig fram til endurkjörs í sveitarstjórnarkosningum vorið 2018.
Eva Marín Hlynsdóttir
„Markmið stjórnvalda er að fækka sveitarfélögum og auka verkefni þeirra. Það hefur hins vegar ekki verið skoðað hvaða áhrif það hefur á sveitarstjórnir og starfsaðstæður þeirra að fækka sveitarfélögunum með þeim hætti sem gert hefur verið.“

„Í doktorsrannsókn minni á íslenskum bæjar- og sveitarstjórnum, sem ég varði nýlega, kom skýrt fram að með auknum verkefnum á sveitarstjórnarstiginu hefur álag aukist mikið á stjórnsýsluna og meðlimi sveitarstjórna,“ segir Eva. Hún bætir því við að sveitarstjórnarfólk hafi verið undir miklu álagi fyrir enda leiki það lykilhlutverk í að sjá til þess að verkefni sveitarfélaganna endurspegli þarfir og væntingar almennings.
Eva Marín segir að fyrstu niðurstöður úr rannsókn hennar sýni að 43 prósent núverandi sveitarstjórnarmanna hafi ákveðið að draga sig í hlé næsta vor. „Sú ákvörðun tengist þáttum eins og kyni, stærð sveitarfélags, fjölda kjörtímabila sem viðkomandi hefur setið og unnum klukkustundum í þágu sveitarfélags.“
Eva Marín segir að gera megi ráð fyrir að um 60 prósent af núverandi sveitarstjórnarfólki snúi ekki aftur næsta vor. Úrslit sjálfra kosninganna hafa eins og allir vita einnig áhrif á það hverjir komast aftur í sveitarstjórnir landsins. Það verður því um mikla endurnýjun að ræða.
Eva Marín segir að niðurstöðurnar úr rannsókn hennar bendi til þess að skoða þurfi breytingar á sveitarstjórnarstiginu á mun heildstæðari hátt en gert hafi verið.