Skip to main content

Viðbrögð við eldgosi á Reykjanesi

Ármann Höskuldsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans

Vísindamenn skoða nú mögulega eldfjallavá á Reykjanesi en rannsóknin er tengd verkefni frá ESB sem nefnist Vetools. „Evrópska verkefnið gengur út á að hanna viðmót til greiningar á langtíma- og skammtímaáhættu vegna eldgosa. Í þessu verkefni eru tekin saman öll jarðfræðigögn sem til eru af Reykjanesi og þau keyrð saman samkvæmt kúnstarinnar reglum til að greina heita áhættureiti á svæðinu,“ segir Ármann Höskuldsson, vísindamaður í eldfjallafræði, sem leiðir verkefnið. Aðrir í teyminu eru Þorvaldur Þórðarson prófessor og Ingibjörg Jónsdóttir dósent, bæði við Jarðvísindadeild.

Reykjanes var tilvalið til að hefja verkið, að sögn Ármanns, þar sem sá hluti landsins er best þekktur jarðfræðilega. „Þökk sé þéttbýlinu og rannsóknum vegna jarðhita og grunnvatnsnotkunar. Þegar Reykjanes er komið á góðan rekspöl höldum við áfram með önnur eldvirk svæði í landinu.“
 

Ármann Höskuldsson

„Með því að hafa allar aðferðir í einu og sama kerfinu getum við greint áhættusvæðin betur og spáð fyrir um hvar líklegast er að eldsuppkomur verði í fjarlægri framtíð.“

Ármann Höskuldsson

Ármann segir að vísindamennirnir muni setja upp nýtt forrit sem taki tillit til allra aðferða sem beitt er í dag við áhættugreiningu. „Með því að hafa allar aðferðir í einu og sama kerfinu getum við greint áhættusvæðin betur og spáð fyrir um hvar líklegast er að eldsuppkomur verði í fjarlægri framtíð. Forritið býður einnig upp á að skoða skammtímaspár eftir að eldstöðvarkerfin eru farin að láta kræla á sér. Þannig getum við skoðað eldsuppkomusvæði og hvernig líkur á eldgosum breytast í mjög góðri upplausn.“

Ármann segir að í skammtímagreiningunni sé jafnframt hægt að skoða með hermilíkönum hvernig hraun muni renna og hvernig aska dreifist. „Þannig geta almannavarnir, með aðstoð kostnaðargreiningar sem jafnframt er í kerfinu, verið betur undir búnar ef til eldsumbrota kemur.“

Kveikjan að þessari rannsókn er, að sögn Ármanns, ör eldgos undanfarin ár og sú staðreynd að vísindamenn hafa bara verið að skoða eldfjöll eins og Eyjafjallajökul og Kötlu með tilliti til áhættu en ekki tekið þar inn skammtímagreiningu. „Öll eldfjöll og eldfjallasvæði landsins eru þannig óskráð bók þegar kemur að náttúruvá. Framfarir í greiningu og túlkun atburða sem gerast sjaldan, eins og eldgos eru í eðli sínu, hafa verið töluverðar undanfarin ár en ekki skilað sér sem skyldi til Íslands. Með þessu verkefni komum við öllu í eitt verkfærabox og getum þannig byggt upp gagnagrunna fyrir öll okkar eldfjöll sem eru lifandi og taka breytingum eftir því sem þekking á okkar eldfjöllum eykst.“

Ármann segir að eldfjallavá sé vandamál sem verði stöðugt stærra eftir því sem byggð í landinu stækki og tæknivæðing samfélagsins verði meiri. „Það var því nauðsynlegt að hefja þessa vinnu á kerfisbundinn og vitrænan hátt þar sem við settum alla þekkingu um einstök eldfjallasvæði inn í samhæfða gagnagrunna sem geta unnið saman við mat á áhættu og hvað liggi undir ef til eldgosa kemur.“