Jóhanna María Einarsdóttir, MA frá Íslensku- og menningardeild
„Skáldverkið Pínulítil kenopsía: Varúð, hér leynast krókódílar var upphaflega póstmódernísk tilraun til þess að skrifa skáldlegan texta með öllu sem slíkum gjörningi fylgir en undanskilja jafnframt söguþráð,“ segir Jóhanna María Einarsdóttir um lokaverkefni sitt til meistaraprófs í ritlist. Hugmyndafræðistefna póstmódernismans hefur lengi verið henni hugleikin og er hún rauður þráður í verkinu. „Póstmódernismann er eiginlega ómögulegt að skilja til hlítar þar sem hann stangast á við sjálfan sig og forðast skilgreiningar. Pínulítil kenopsía fjallar í raun mest um sjálfa sig og þá tilraun að komast að einhvers konar sannleika en takast það ekki,“ segir Jóhanna.
Jóhanna María Einarsdóttir
„Póstmódernismann er eiginlega ómögulegt að skilja til hlítar þar sem hann stangast á við sjálfan sig og forðast skilgreiningar. Pínulítil kenopsía fjallar í raun mest um sjálfa sig og þá tilraun að komast að einhvers konar sannleika en takast það ekki“

Skáldverk eru talsvert frábrugðin hefðbundnum lokaverkefnum sem snúa að rannsóknum og rannsóknarniðurstöðum. Því er æði misjafnt hvernig nemendur bera sig að við skrif á skapandi meistaraverkefni. Jóhanna segist hafa velt efnistökunum fyrir sér í nokkra mánuði áður en hún hófst handa. Hún fór í gegnum eldra efni sem hún átti og datt niður á texta sem varð kveikjan að verkefninu en það tók hana tæpt ár að vinna það frá upphafi til enda. „Ég valdi viðfangsefnið vegna þess að mér fannst spennandi að skrifa heilt skáldverk sem jafnframt væri algerlega sneitt hvers kyns söguþræði,“ útskýrir Jóhanna og segir söguna fjalla um allt og ekkert. „Ein persónan er gíraffi og önnur er lesandi, svo tjáir innbyggður höfundur sig aðeins. Einn kaflinn fjallar um tilgangslausa tilraun til þess að ákvarða stærð regnbogans og svo er einn dónalegur kafli.“
Jóhanna fékk strax jákvæð viðbrögð hjá bókaútgáfunni Sæmundi þegar hún hafði samband vegna mögulegrar útgáfu. Seltjarnarnesbær veitti henni styrk til útgáfunnar en hún kom út síðla árs 2017.
Rannsóknarverkefni hafa gjarnan ákveðin gildi eða markmið fyrir tiltekna hópa eða samfélagið í heild sinni og að sögn Jóhönnu lýtur skáldverk einnig samfélagslegum lögmálum og gildum. „Ég vil halda því fram að við lærum mikið af lestri bóka. Skáldverk eru þess eðlis að við sem lesendur neyðumst til þess að setja okkur í spor sögupersóna og ef mér skjátlast ekki þá er það forsenda gæsku og þess að samfélög fúnkeri. Skáldverk eru í raun bara skemmtilega útgáfan af rannsóknarskýrslum,“ segir Jóhanna María að lokum.
Leiðbeinandi: Hermann Stefánsson, bókmenntafræðingur og rithöfundur.