Brynja Björnsdóttir, MA frá Sagnfræði- og heimspekideild
„Ég skrifaði verkefni um þrjár kynslóðir fráskilinna formæðra minna og afdrif þeirra eftir skilnað og það var kveikjan að rannsókninni,“ segir Brynja Björnsdóttir um meistararannsókn sína í sagnfræði.
„Það vildi þannig til að í leit minni að skjölum um skilnaði formæðra minna í Þjóðskjalasafni fann ég bréf frá 1895 um skilnaðarmál konu í Reykjavík sem vildi fá skilnað vegna kaldlyndis, fálætis og ónærgætni manns síns. Þessar ástæður þóttu mér heldur léttvægar og fannst ólíklegt að konunni yrði að ósk sinni í ljósi þess að samkvæmt gildandi skilnaðarlögum var einungis hægt að fá skilnað með dómi ef sannað væri að maki hefði gerst sekur um hjúskaparbrot. Það kom svo í ljós að ástæða skilnaðarins var tekin góð og gild og umrædd kona fékk leyfi til skilnaðar að borði og sæng í gegnum leyfisveitingakerfi konungs,“ segir Brynja.
Brynja Björnsdóttir
„Það vildi þannig til að í leit minni að skjölum um skilnaði formæðra minna í Þjóðskjalasafni fann ég bréf frá 1895 um skilnaðarmál konu í Reykjavík sem vildi fá skilnað vegna kaldlyndis, fálætis og ónærgætni manns síns.“

Verkefnið er tvíþætt; annars vegar umfjöllun um gildandi skilnaðarlöggjöf og viðhorf til skilnaða og hins vegar rannsókn á umfangi og ástæðum skilnaða á Íslandi á árabilinu 1873-1926. Búseta hjónanna var skoðuð, frumkvæði að skilnaði sem og bú- og fjárskipti og forsjá barna við skilnað.
Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru þær að dómskilnaðir voru mjög fáir en flestir skilnaðir fóru í gegnum leyfisveitingakerfi. Ósamlyndi hjóna var enn fremur algengasta ástæða skilnaða, konur áttu oftar frumkvæði og í flestum tilfellum var forsjá barna falin mæðrum.
„Rannsóknin gefur innsýn í viðhorf til hjónabandsins og skilnaða og er jafnframt tímabært innlegg í fjölskyldu-, kynja- og réttarsögu,“ segir Brynja.
Leiðbeinendur: Ólöf Garðarsdóttir, prófessor við Kennaradeild, og Guðmundur Hálfdánarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild og forseti Hugvísindasviðs.