Jón Ingvar Kjaran, lektor við Menntavísindasvið
„Það má segja að viðfangsefnið hafi valið mig. Ég hef mikið verið að rannsaka kynjakerfið, feðraveldið og karlmennskuhugmyndir og hef mikinn rannsóknaráhuga á þessum fyrirbærum,“ segir Jón Ingvar Kvaran, lektor við Menntavísindasvið, sem unnið hefur að rannsókninni „Sjónarhorn þeirra sem beita ofbeldi í nánum samböndum“ á undanförnum misserum. Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands (RIKK) hlaut styrk til verkefnis í tengslum við gerendur ofbeldis og leitaði til Jóns Ingvars um að vinna verkið.
Í rannsókninni er lögð áhersla á að varpa ljósi á reynsluheim gagnkynhneigðra íslenskra karla sem beitt hafa maka sinn ofbeldi. Jón segir birtingarmyndir ofbeldisins ýmiss konar, andlegt ofbeldi sé algengast, eitthvað sé um líkamlegt ofbeldi en einnig ofbeldi í garð hluta sem þá eru t.d. makanum kærir.
Jón Ingvar Kjaran
„Það er búið að skoða mikið reynsluheim kvenna sem þolenda ofbeldis svo það var komið að því að rannsaka ofbeldi út frá reynslu karla.“

Þörf er á meiri upplýsingum um þennan málaflokk á Íslandi, að sögn Jóns. „Það er búið að skoða mikið reynsluheim kvenna sem þolenda ofbeldis svo það var komið að því að rannsaka ofbeldi út frá reynslu karla.“ Gögn frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sýna að u.þ.b. þriðja hver kona hefur orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni, stærstur hluti fyrir heimilisofbeldi. Það er því þarft að skoða hvað liggur þarna að baki og hvað er hægt að gera til að draga úr heimilisofbeldi.
Allir þátttakendur í rannsókninni eru fyrrverandi ofbeldismenn sem hafa að eigin frumkvæði snúið við blaðinu. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa leitað sér hjálpar og eru í meðferð hjá Heimilisfriði – meðferðar og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum.
Frumniðurstöður rannsóknarinnar sýna að flestir ofbeldismenn skilgreina sig sem góða feður og leika börnin stórt hlutverk í því að karlar leita sér aðstoðar. „Börn stuðla að breytingum. Það hefur sýnt sig að þeir menn sem hafa leitað sér aðstoðar gera það ekki síst til að halda í börnin sín,“ segir Jón.
Rannsóknin stendur enn yfir en Jón segir unnið að því að sækja um frekari styrki til að halda áfram með verkefnið.