Skip to main content

Mæður barna með þroskahömlun

Guðrún Valgerður Stefánsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið

„Rannsóknin beinist að því að lýsa annars vegar reynslu mæðra barna með þroskahömlun sem fóru á stofnanir á árunum 1936 til 1979 og hins vegar mæðra sem sinntu uppeldi og umönnun barna sinna heima fyrir á sama tímabili. Markmið hennar er að varpa ljósi á ólíka upplifun mæðranna og með hvaða hætti krafa samfélagsins um félagsleg hlutverk eins og móðurhlutverkið hafði áhrif á líðan þeirra og tilveru,“ segir Guðrún V. Stefánsdóttir, prófessor í fötlunarfræði við Menntavísindasvið.

„Ég var ein af þeim sem komu að vinnu við skýrsluna um Kópavogshælið sem kom út í lok árs 2016 og ég tók meðal annars þátt í að taka viðtöl við mæður þeirra barna sem þar dvöldu. Þessi vinna vakti áhuga minn á að skoða betur aðstæður mæðra barna með þroskahömlun á því tímabili sem stofnanir voru eina opinbera samfélagslega úrræðið sem til var fyrir börn og fullorðið fólk með þroskahömlun,“ segir Guðrún.

Guðrún Valgerður Stefánsdóttir

„Þessi vinna vakti áhuga minn á að skoða betur aðstæður mæðra barna með þroskahömlun á því tímabili sem stofnanir voru eina opinbera samfélagslega úrræðið sem til var fyrir börn og fullorðið fólk með þroskahömlun.“

Guðrún Valgerður Stefánsdóttir

Rannsóknin er nýhafin og því ekki komnar endanlegar niðurstöður. Fyrstu niðurstöður sem liggja fyrir benda til að þær mæður sem áttu börn á stofnunum hafi upplifað sorg og sektarkennd og fundist þær hafa brugðist börnum sínum og móðurhlutverkinu. Þær mæður sem höfðu börnin sín heima höfðu samviskubit yfir að nýta ekki þjónustu stofnana sem var eina opinbera þjónustan og um leið sú eina viðurkennda sem í boði var á þeim tíma sem rannsóknin nær til.

Guðrún segir að niðurstöðum rannsóknarinnar sé ætlað að auka þekkingu og skilning á ólíkum aðstæðum tveggja kynslóða mæðra og barna þeirra með þroskahömlun í íslensku samfélagi. Auk þess sé rannsókninni ætlað að afhjúpa þau sögulegu og menningarlegu hlutverk og viðhorf sem mótuðu líf og aðstæður mæðra og barna þeirra með þroskahömlun. Þá er stefnt að því að rannsóknin geti lagt til gagnrýninnar umræðu um móðurhlutverkið og kröfur til mæðra í uppeldi og umönnun fatlaðra barna.