Skip to main content

Pólitík í harmleikjum

Guðrún Kristinsdóttir, doktorsnemi við Mála- og menningardeild

Rómverska heimsveldið hefur ekki aðeins verið sagnfræðingum innblástur að ótal rannsóknarverkefnum heldur einnig gnægtabrunnur fyrir leikskáld víða í Evrópu í gegnum aldirnar. Á 16. og 17. öld voru t.d. skrifaðir fjölmargir harmleikir í Frakklandi þar sem Rómaveldi er sögusviðið og það er að þeim sem Guðrún Kristinsdóttir, doktorsnemi í frönskum fræðum, beinir sjónum sínum þessi misserin.

„Doktorsrannsóknin lýtur að hinu pólitíska í harmleikjunum. Á þessum tíma notuðu menn sögu fornaldar til að velta upp spurningum samtímans um borgarastríð, stjórnskipan og hvernig ætti að bregðast við hættunni á harðstjórn, en þá var einveldi í uppsiglingu í Frakklandi í kjölfar langvarandi trúarbragðastríða,“ segir Guðrún.

Guðrún Kristinsdóttir

"Ég mun greina á milli verka sem hlutu mikla umfjöllun, m.a. í ritdeilum um skáldskaparfræði leikritunar, bréfaskriftum og sagnfræðiritum, og verka sem hlutu litla útbreiðslu, ýmist vegna þess að þau nutu ekki vinsælda eða að þau komu ekki fyrir augu menningarelítunnar."

Guðrún Kristinsdóttir

Guðrún hyggst skoða yfir 30 franska harmleiki. „Nálgun mín er túlkunarfræðileg að hluta til og mun beinast að því hvernig þessi leikrit voru skilin í sínum samtíma. Þannig mun ég greina á milli verka sem hlutu mikla umfjöllun, m.a. í ritdeilum um skáldskaparfræði leikritunar, bréfaskriftum og sagnfræðiritum, og verka sem hlutu litla útbreiðslu, ýmist vegna þess að þau nutu ekki vinsælda eða að þau komu ekki fyrir augu menningarelítunnar. Þá mun ég freista þess að varpa ljósi á hvernig höfundarnir sáu fyrir sér tímann og tengsl bókmennta og sagnfræði,“ segir Guðrún.

Áhuga hennar á viðfangsefninu má m.a. rekja til fyrra náms hennar í leiklist í París. „Þýðingar franskra leikbókmennta eru mér hugleiknar og þar sem leikritin sem hafa Rómaveldi sem þema hafa ekki verið þýdd á íslensku hef ég fundið sænskar þýðingar frá fyrri hluta 18. aldar af tveimur leikritum eftir Corneille og mun m.a. rannsaka þær með tilliti til bragarhátta,“ útskýrir Guðrún sem mun útskrifast með sameiginlega doktorsgráðu frá Háskóla Íslands og Sorbonne-háskóla í París.

En hvaða þýðingu hefur rannsókn sem þessi fyrir samtímann? „Ég tel að þekking á aðlögun á sögu Rómaveldis á leiksviðum í gegnum aldirnar og hvernig fornar söguhetjur og raunir þeirra voru notaðar í pólitískum tilgangi geti orðið til þess að varpa nýju ljósi á evrópska menningu, þ.m.t. norræna,“ segir Guðrún að endingu.