Skip to main content

Tilfinningar fornmanna

Sif Ríkharðsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild 

Mjǫk erum tregt
tungu at hræra
eða loptvætt
ljóðpundara;
esa nú vænligt
of Viðurs þýfi
né hógdrægt
ór hugar fylgsni

Svona hljóðar fyrsta erindi Egils Skallagrímssonar í Sonatorreki sem er eitt merkasta ljóðið í heiðnum sið á Íslandi. Kveikjan að ljóðinu var fráfall tveggja sona Egils, sem létust með stuttu millibili. Sonatorrek varpar ljósi á djúpar og sárar tilfinningar, gríðarlegan missi, sem menn á öllum tíma eiga auðvelt með að skynja og skilja.

„Tilfinningar eru sammannlegar,“ segir Sif Ríkharðsdóttir, prófessor í miðaldabókmenntum við Háskóla Íslands. „Þær gera það að verkum að við getum lesið bókmenntir forfeðra okkar og skilið þær, því við túlkum tilfinningalíf sögupersóna út frá okkar eigin tilfinningum og gæðum þær þannig lífi.“

Sif Ríkharðsdóttir

„Verkefnið mitt snerist um tengsl raddar og tilfinninga og norrænar bókmenntir áttu aðeins að vera lítill hluti af þeim enda lá fyrir að það er ekki mikið um tjáningu tilfinninga í Íslendingasögunum. En við rannsóknir mínar kom allt annað í ljós.“

Sif Ríkharðsdóttir

Í ljóðinu Sonatorreki segist Egill ekki einungis eiga bágt með skáldamálið því honum gangi trauðla að tala og kalla fram hugsanir úr hugarfylgsnum. Það eru þessar tilfinningar Egils sem urðu kveikjan að stórri rannsókn Sifjar þar sem hún setur tilfinningar eins og þær sem birtast í miðaldabókmenntum í háskerpu. Sif leitar svara við því hvernig slíkum tilfinningum er miðlað til okkar, hvað eigi sér stað í huga okkar þegar við lesum um þær og hvernig við raungerum tilfinningar í textum.

„Verkefnið mitt snerist um tengsl raddar og tilfinninga og norrænar bókmenntir áttu aðeins að vera lítill hluti af þeim enda lá fyrir að það er ekki mikið um tjáningu tilfinninga í Íslendingasögunum. En við rannsóknir mínar kom allt annað í ljós,“ segir Sif. Því hefur stundum verið haldið fram að mið- aldamenn hafi ekki haft sömu einstaklingsskynjun og menn í nútíma sem horfi gjarnan á sjálfa sig sem miðju alls. Tilfinningar miðaldamanna hafi þannig verið grynnri og tilvist þeirra meira tengd heild en einstaklingi. Sif segir að ljóðið Sonatorrek sýni hið gagnstæða.

„Í ljóðinu Sonatorreki má til að mynda finna myndlíkingar sem minna um margt á kenningar innan taugalíffræði um hvað á sér stað í heilanum við skynjun tilfinninga. Það að miðaldahöfundur hafi haft slíka innsýn inn í mannlega hegðun og tilfinningalíf þrátt fyrir að tilheyra svo gjörólíkum menningarheimi þótti mér einfaldlega stórkostlega athyglisvert.“ Sif segir að það skipti okkur miklu að sjá inn í hugarheim fólks á víkingaöld til að átta okkur á því hvernig tilfinningar hafi mótað mannlegan veruleika á þeim tíma. „Það verður engin þekking og engin framför án rannsókna,“ segir Sif. „Það er okkur í eðli búið að leita svara við spurningum um lífið og tilveruna, líka um tilfinningar eins og þær eru á hverjum tíma.“

Afrakstur rannsókna Sifjar birtust nýlega í bókinni Emotions in Old Norse Literature: Translations, Voices, Contexts, en hún kom út í október síðastliðnum hjá hinu virta forlagi Boydell & Brewer í Bretlandi og í Bandaríkjunum.