Skip to main content

Faglegri yngri flokkar á Íslandi

Hilmar Kristinsson, M.Ed. frá Menntavísindasviði

„Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skoða uppbyggingu yngri flokka starfs sem fer fram hjá knattspyrnufélögum hér á landi og bera það saman við uppbyggingu yngra flokkanna hjá sambærilegum félögum í Noregi og Svíþjóð.“ Þetta segir Hilmar Karlsson um rannsókn sem hann hefur unnið en hún er gerð í framhaldi af þeirri athygli sem árangur íslenskra landsliða, bæði í kvenna- og karlaflokki, hefur vakið að undanförnu víða um lönd. Hugmyndin er að kanna m.a. hvort rót árangursins kunni að liggja í yngri flokka starfinu hér á landi.

Skemmst er að minnast þátttöku íslenska kvennalandsliðsins í úrslitakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu sumarið 2017 og að íslenska karlalandsliðið vann sér rétt til að leika í úrslitum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í fyrsta sinn sumarið 2018.

„Margir hafa velt því fyrir sér hvernig rösklega þrjú hundruð þúsund manna þjóð geti náð svo góðum árangri í knattspyrnu. Forráðamenn knattspyrnusambandsins hafa bent á að svör við þessum spurningum sé m.a. að finna í uppbyggingu og skipulagi knattspyrnuþjálfunar barna og unglinga á Íslandi,“ segir Hilmar.

Hilmar Kristinsson

„Margir hafa velt því fyrir sér hvernig rösklega þrjú hundruð þúsund manna þjóð geti náð svo góðum árangri í knattspyrnu. Forráðamenn knattspyrnusambandsins hafa bent á að svör við þessum spurningum sé m.a. að finna í uppbyggingu og skipulagi knattspyrnuþjálfunar barna og unglinga á Íslandi.“

Hilmar Kristinsson

Hann segir að þjálfun barna 12 ára og yngri sé eingöngu í höndum foreldra í Noregi og Svíþjóð fyrir utan akademíustarfsemi félaganna en öll þjálfun sé í höndum menntaðra og launaðra þjálfara á Íslandi.

„Hátt hlutfall íslenskra yngri flokka þjálfara er kennaramenntað. Á Íslandi mætir stór hópur iðkenda, allt að 80 manns, á hverja einustu æfingu og er þar skipt í minni hópa. Á Íslandi fá allir sömu þjónustu og til að einstaklingar fái verkefni við hæfi er getuskipt í hópa strax frá sex ára aldri. Á sama tíma eru flestar æfingar í Noregi og Svíþjóð þannig að hópurinn er lítill, 12 til 20 iðkendur, og keppir hópurinn sem eitt lið og er oft fulltrúi síns skólahverfis. Æfingar á Íslandi eru gjarnan í framhaldi af skóladeginum á meðan allar æfingar í Noregi og Svíþjóð eru eftir að hefðbundnum vinnudegi foreldra lýkur. Íslensk börn hafa líka tækifæri á að byrja að æfa fyrr ásamt því að kynnast því að keppa fyrr en jafnaldrar þeirra í Noregi og Svíþjóð.“

Hilmar segir að ekki sé unnt að alhæfa um niðurstöður rannsóknarinnar þar sem aðeins eitt félag frá hverju landi hafi verið skoðað ítarlega. „Það er því ekki unnt að yfirfæra niðurstöður almennt yfir á öll félög í hverju landi fyrir sig. Engu að síður þá gefa þessar niðurstöður góðar vísbendingar um skipulag knattspyrnuþjálfunar barna í þessum þremur löndum.“

Leiðbeinandi: Erlingur Jóhannsson, prófessor við Menntavísindasvið.