Hjalti Harðarson, Hjalti Þórðarson og Jón Ingvar Jónsson, kandídatsnemar við Tannlæknadeild
Við Háskóla Íslands gefast nemendum oft frábær tækifæri til þessa að nýta þá þekkingu sem þeir afla sér í námi til spennandi rannsókna í samstarfi við kennara og vísindamenn skólans. Þessu fengu Hjalti Harðarson, Hjalti Þórðarson og Jón Ingvar Jónsson, tannlæknanemar á 6. ári, að kynnast þegar skoðuðu ásamt kennurum sínum, Ingu B. Árnadóttur prófessor og Vilhelm Grétari Ólafssyni lektor, hversu algeng glerungseyðing væri hjá fullorðnu sundíþróttafólki.
„Viðfangsefnið hefur ekki verið rannsakað áður á Íslandi en erlendar rannsóknir hafa sýnt að glerungseyðing hjá þessum hópi er nokkuð algeng,“ bendir Hjalti Harðarson á. Hann segir aðspurður að orsök glerungseyðingar geti verið margþætt en hugsanlegra skýringa megi leita í sýrustigi sundlaugarvatnsins. „Þó að sýrustig sundlauga eigi ekki að vera lægra en 7,0 getur hugsast að það segi ekki alla söguna. Efnagreining á steinefnum sundlaugarvatns ásamt staðfestingu á sýrustigi getur hjálpað til við að skýra eða útiloka þátt sundlaugarvatns við glerungseyðingu,“ segir hann.
Hjalti Harðarson, Hjalti Þórðarson og Jón Ingvar Jónsson
„Glerungseyðing reyndist meiri á varaflötum tanna hjá sundíþróttafólki en hjá samanburðarhópnum sem er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna“

Rannsóknina unnu þeir félagar sem þátttökuverkefni í keppni tannlæknanema sem haldin er árlega í Kaupmannahöfn í tengslum við ráðstefnuna Scandinavian Dental Fair sem ætluð er þeim sem starfa á sviði tannlækninga. „Þónokkrir nemar úr Tannlæknadeild Háskóla Íslands hafa tekið þátt í keppninni í gegnum árin og við ákváðum að slá til,“ segir Hjalti Þórðarson. Þeir félagar skoðuðu tennur í sundíþróttafólki ásamt samanburðarhópi. „Teknar voru ljósmyndir af vara- og bitflötum tanna allra þátttakenda til frekari greiningar. Allir þátttakendur svöruðu jafnframt níu spurningum varðandi matarvenjur, svo sem um neyslu súrra drykkja, íþróttadrykkja og ávaxta,“ segir Jón Ingvar.
Í ljós kom að ekki reyndist tölfræðilegur munur á heildarglerungseyðingu milli hópanna tveggja. „Aftur á móti þegar skoðuð voru ákveðin svæði í munninum fannst tölfræðilega marktækur munur. Glerungseyðing reyndist meiri á varaflötum tanna hjá sundíþróttafólki en hjá samanburðarhópnum sem er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna,“ segir Hjalti Harðarson.
Þremenningarnir undirstrika að þörf sé á fræðslu fyrir sundíþróttafólk um þetta málefni, „bæði á vegum íþróttafélaga og tannlækna sem geta bent á fyrirbyggjandi aðferðir til að draga úr áhættu á glerungseyðingu tanna.“
Leiðbeinendur: Inga B. Árnadóttir prófessor og Vilhelm Grétar Ólafsson lektor, bæði við Tannlæknadeild.