Arnór Gunnar Gunnarsson, BA-nemi, og Bergþóra Snæbjörnsdóttir, MA-nemi, bæði við Sagnfræði- og heimspekideild
Á vefsíðunni svonafolk.is verður hægt að ferðast um söguheim mannréttindabaráttu homma og lesbía á Íslandi og nálgast hann frá ólíkum útgangspunktum; tímabilum, fólki eða stöðum. Vefsíðan byggist á efni kvikmyndagerðarkonunnar Hrafnhildar Gunnarsdóttur en hún er ásamt Höllu Kristínu Einarsdóttur, aðjunkt í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands, að vinna að gerð sjónvarpsþátta og heimildamyndar um viðfangsefnið.
Fljótlega varð þeim ljóst að mikill afgangur yrði af umfjöllunarefninu sem koma þyrfti til skila og fólu þær því Arnóri Gunnari Gunnarssyni og Bergþóru Snæbjörnsdóttur, nemendum við Háskóla Íslands, að flokka þennan mikla gagnabanka og setja fram á aðgengilegan hátt á netinu. Verkefnið unnu þau með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Arnór Gunnar Gunnarsson og Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Á vefsíðunni svonafolk.is verður hægt að ferðast um söguheim mannréttindabaráttu homma og lesbía á Íslandi og nálgast hann frá ólíkum útgangspunktum; tímabilum, fólki eða stöðum.

„Það hefur ekki mikið verið skrifað um mannréttindabaráttu homma og lesbía, nokkrar greinar í blöðum og tímaritum en það vantar algjörlega eitthvað meira,“ segir Arnór Gunnar og bætir við að því sé mikil þörf á efninu. Margt áhugavert hafi komið í ljós við vinnuna.
„Eitt af því sem einkennir þessa baráttu hérlendis er hvað hún byrjar seint. Í Danmörku er til dæmis talað um Samtökin ´48. Víðast hvar eru svona samtök að spretta fram stuttu eftir síðari heimsstyrjöld,“ útskýrir Arnór. „Kannski upphafspunkturinn sé þegar Hörður Torfa kemur út úr skápnum í viðtali við Samúel árið 1975 og hrekst eiginlega úr landi í kjölfarið,“ bætir Bergþóra við. „Fram að því hafði baráttan aldrei verið á neinum opinberum vettvangi. Svo eru þessi samtök stofnuð formlega 1978 og þá fer af stað vitundarvakning sem var reyndar mjög mjóróma í fyrstu.“
„Svo er það eiginlega alnæmið sem margir viðmælendur segja að hafi breytt öllu. Einhver sagði að það sé miklu erfiðara að hunsa sársauka fólks en að samgleðjast því. Alnæmið tók sinn toll af samfélagi samkynhneigðra á Íslandi, menn misstu vini sína, bræður og maka á stuttum tíma. Yfirvöld gátu ekki lengur horft fram hjá þessum sársauka, að menn mættu ekki kveðja maka sinn eða heimsækja á spítalann því þeir hefðu engin lagaleg réttindi. Þá fór einn og einn stjórnmálamaður að vera opinn fyrir því að berjast fyrir þennan hóp.“
Þau segja viðhorf almennings hafa breyst á óvenjulega stuttum tíma en baráttunni sé ekki lokið og verði jafnvel aldrei því um leið og takinu er sleppt sé hætta á að við færumst aftur til baka.
Leiðbeinandi: Halla Kristín Einarsdóttir, aðjunkt við Sagnfræði- og heimspekideild.