Skip to main content
17. október 2018

Broskallar brúa leiðina út á land

""

Kennslukerfi í stærðfræði sem þróað hefur verið innan Háskóla Íslands gerir notendum kleift að efla stærðfræðiþekkingu sína og vinna sér um leið inn rafmynt sem hægt er að nota til þess að kaupa ódýrari flugmiða með Air Iceland Connect út á land. Kerfið er opið öllum áhugasömum.

Kennslukerfið sem um ræðir nefnist tutor-web og hefur verið notað í tölfræði- og stærðfræðikennslu bæði í Háskóla Íslands og framhaldsskólum hér á landi. Kerfið er hugarfóstur Gunnars Stefánssonar, prófessors við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, og Önnu Helgu Jónsdóttur, dósents við sömu deild, en þau þróuðu það í samstarfi við tölvunarfræðingana Auðbjörgu Jakobsdóttur og Jamie Lentin auk fjölda stúdenta sem starfað hafa við að verkefninu í sumarstarfi.

Tutor-web hefur að geyma kennsluefni í stærðfræði og tölfræði ásamt æfingum sem ætlað er að kanna þekkingu nemenda á efninu. Æfingarnar eru ekki hugsaðar sem próf heldur fremur til þess að nemendur læri af því að svara þeim. Þegar æfing hefur verið leyst fær nemandinn strax að vita hvort lausn hans var sú rétta og ef ekki, hvernig rétt lausn fæst með útskýringum. Engir tveir notendur kerfisins fá sömu æfingar og þær þyngjast eftir því sem nemandinn nær betri tökum á efninu. 

Umbun í formi rafmyntar
Gunnar og samstarfsfólk hafa innleitt umbunarkerfi inn í tutor-web í samstarfi við Air Iceland Connect þannig að þátttakendur fá svokallaða Broskalla með því að standa sig vel í stærðfræðiverkefnum í kerfinu. „Broskallarnir eru rafmynt, eins og Bitcoin og Auroracoin, og þá má geyma í rafrænu veski á síma eða tölvu. Meðal nemenda er verulegur áhugi á rafmyntum og með þessu samstarfi er höfðað til þess áhuga,“ segir Gunnar.

Hægt er að nýta Broskalla til þess að kaupa afsláttarkóða Air Iceland Connect sem tryggir notendum afslátt af fargjöldum flugfélagsins innanlands. „Með þessu samstarfi geta nemendur æft sig í stærðfræði og, ef þeir leggja hart að sér, flogið ódýrt á einhvern áfangastaða Air Iceland Connect,“ útskýrir Gunnar.

Afar einfalt er að bæta inn nýjum afsláttar- eða gjafakóðum frá fyrirtækjum sem styðja verkefnið, en auk Air Iceland Connect hefur Origo boðið slíka afsláttarkóða og bíómiðar hafa einnig verið seldir fyrir Broskalla. Auk slíks stuðnings hefur Háskóli Íslands og stofnanir hans stutt vel við bakið á rannsóknum sem tengjast tutor-web kerfinu, sem einnig hefur verið fjármagnað að hluta með styrkjum frá ESB og Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Gunnar undirstrikar að tutor-web kennslukerfið sé opið öllum þeim sem vilji efla stærðfræðikunnáttu sína, þar með töldum öllum framhaldsskólanemum. 

Kerfið einnig nýtt í Kenía
Þótt kennsluefnið á Íslandi sé á íslensku er kennslukerfið sjálft á ensku og snjalltækjavænt sem gerir í raun hverjum sem er í heiminum kleift að nýta það, ekki síst í ljósi þess að snjallsímanotkun eykst mun hraðar en notkun borð- eða fartölva. Kerfið er nú þegar í notkun í nokkrum skólum í Kenía í gegnum sérstakt verkefni, Education in a Suitcase, sem Gunnar og Anna Helga komu á fót í samstarfi við keníska starfsbræður.

„Við höfum nokkrum sinnum farið utan til Kenía til þess að vinna að verkefninu en á þeim stöðum sem við höfum heimsótt hefur netaðgangur verði takmarkaður og rafmagn óstöðugt. Education in a Suitcase inniheldur spjaldtölvur fyrir nemendur og þjón (server) sem geymir námsefnið en við höfum safnað fyrir vélbúnaðinum með hópfjármögnun og styrkjum, m.a. frá utanríkisráðuneytinu,“ segir Gunnar.

Hann bætir við að með því að beina notendum í snjalltæki í stað tölva sé jafnframt hægt að draga úr ásókn í yfirfull tölvuver og viðhaldi veranna. „Kennslukerfi eins og tutor-web hefur því töluverða möguleika til útbreiðslu, m.a. á lágtekjusvæðum í heiminum,“ segir Gunnar.

Vefsvæði tutor-web
 

Gunnar Stefánsson og Anna Helga Jónsdóttir